Háskóli Íslands

Styrkir til sjö nýdoktora við Háskóla Íslands

Sjö nýdoktorar við Háskóla Íslands hafa hlotið styrk til rannsóknaverkefna úr Eggertssjóði.  Markmið sjóðsins er að styrkja rannsóknir á sviði jarðfræði og líffræði. Styrkupphæð nemur samtals sex milljónum króna. Styrkhafar eru: Bergrún Arna Ólafsdóttir og Eyjólfur Magnússon frá Jarðvísindadeild, Brynhildur Thors, Lena Rós Ásmundsdóttir og Stefán R. Jónsson frá Læknadeild og Valerie H. Maier og Ægir Þór Þórsson frá Líf- og umhverfisvísindadeild.

Styrkveitingin hvetur til frekara rannsóknarstarfs innan Háskóla Íslands og styður við hið metnaðarfulla langtímamarkmið um að efla rannsóknir innan skólans og að komast í hóp fremstu háskóla á alþjóðavísu.

Eggertssjóður var stofnaður af Háskóla Íslands árið 1995. Eggert V. Briem, (f. 18. ágúst 1895, d. 14. maí 1996), ánafnaði Háskóla Íslands í erfðaskrá sinni eignir, erlend verðbréf og fjárhæð á gjaldeyrisreikningi. Eggert styrkti um áratuga skeið margvísleg vísindaverkefni við Háskóla Íslands, mest ný og álitleg verkefni, sem hann valdi af mikilli kostgæfni. Styrkir Eggerts örvuðu rannsóknir í eðlisfræði og jarðeðlisfræði á ómetanlegan hátt.

Rannsóknaverkefni sem hlutu styrk:

Rannsóknaverkefni Bergrúnar Örnu Ólafsdóttur í Jarðvísindadeild felst í að meta stærð ákveðinna basískra sprengigosa á nútíma og að byggja upp gagnagrunn um gjóskulög á Íslandi. Basísk sprengigos, sem eiga sér stað undir jökli,  hafa verið ein algengustu eldgos á Íslandi en þrátt fyrir það er lítið vitað um stærð þessara eldgosa.

Vegna hárrar tíðni eldgosa sem skilja eftir sig gjóskulög mun gagnagrunnurinn ná yfir stóran hluta þeirra eldgosa sem hafa orðið hérlendis á nútíma.

Rannsóknaverkefni Brynhildar Thors í Læknadeild felst í því að kanna hvernig myndun nituroxíðs í æðaþeli er stjórnað. Skert æðaþelsstarfsemi, oft tengd truflun í myndun nituroxíðs, er orsakavaldur í mörgum algengustu og alvarlegustu sjúkdómum samtímans. Þetta á t.d. við í kransæðasjúkdómum, heilablóðföllum, útæðasjúkdómum, háþrýstingi og sykursýki.

Rannsóknaverkefni Eyjólfs Magnússonar í Jarðvísindadeild snýst um kanna ísflæði og kelfingu Breiðamerkurjökuls. Kelfing á sér stað þegar skriðjöklar mynda kálfa sem ganga fram í sjó eða lón, og brotna af jöklinum. Ísbjörgin fljóta þá sjálfstæð. Sérstaklega verður skoðað hvaða áhrif þættir eins og hop jökulsins á undanförnum árum og vatnsrennsli undir jökli hafa á hreyfingu hans. Rannsóknin er unnin með samfelldum GPS-mælingum og fjarkönnun úr gervitunglum.

Rannsóknaverkefni Lenu Rósar Ásmundsdóttur í Læknadeild felst í því að kanna mögulega ættlægni Candida-gersveppasýkinga og einnig að skoða faraldursfræði blóðsýkinga af völdum Candida-gersveppa hér á landi. Tíðni alvarlegra sýkinga af völdum Candida hefur aukist á síðustu áratugum.

Dánartíðni sem rekja má beint til slíkra sýkinga er mjög há og hafa horfur ekki batnað þrátt fyrir framfarir á ýmsum sviðum læknisfræði. Niðurstöður rannsóknarinnar gætu nýst til að bæta meðferð og fyrirbyggja þessar lífshættulegu sýkingar.

Rannsóknaverkefni Stefáns R. Jónssonar í Læknadeild felst í því að kanna innbyggðar varnir lífvera gegn retróveirusýkingum. Tiltekin prótein geta hindrað retróveirusýkingar og í rannsókninni verður sjónum beint að samspili þessara próteina við veirupróteinin.

HIV-veiran tilheyrir retróveirum en sú ætt veira hefur verið mikið rannsökuð. Þegar retróveira sýkir frumu innlimar litningur sýktu frumunnar erfðaefni veirunnar. Innlimað erfðaefni veirunnar verður eftir það varanlegur hluti af erfðaefni frumunnar.

Rannsóknaverkefni Valerie H. Maier í Líf- og umhverfisvísindadeild felst í því að rannsaka virkni peptíða úr þorski gegn mismunandi bakteríum. Peptíð gegna lykilhlutverki í ónæmiskerfi spendýra. Magn ákveðinna peptíða í fiskum eykst við sýkingu og athyglisvert er að peptíðin eru til staðar strax eftir klak úr eggjum.

Þessar niðurstöður benda til þess að peptíðin gegni mikilvægu varnarhlutverki gegn sýkingum í fiskum. Aukið magn af bakteríudrepandi peptíðum í fiskum í fiskeldi gæti virkað sem vörn gegn sjúkdómum.

Rannsóknaverkefni Ægis Þórs Þórssonar í Líf- og umhverfisvísindadeild felst í þvi að eingangra tegundasérhæfða DNA-þreifara úr erfðamengi ilmbjarkar og fjalldrapa. Þreifarana má nota til að meta genaflæði innan genamengis íslenskra birkitegunda.

Þannig verður hægt að greina uppruna litninga og genamengis raða hjá tegundablönduðu birki og fjalldrapa auk þess sem hægt verður að meta samsetningu genamengjanna. Með þessu móti verður hægt að skoða hversu mikið erfðaefni tegundablendingur hefur frá hvoru foreldri.  Niðurstöðurnar verða svo tengdar útliti plantnanna og frjósemi.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is