Háskóli Íslands

Styrkir til skiptináms í Japan og á Íslandi – Aukin tengsl Háskóla Íslands við Japan

Fyrsti stjórnarfundur Watanabe-styrktarsjóðsins við Háskóla Íslands var haldinn í dag. Tilgangur sjóðsins er að veita styrki til skiptináms í Japan og á Íslandi, bæði til nemenda í grunn- og framhaldsnámi, auk þess að stuðla að kennaraskiptum. Stofnframlag sjóðsins nemur þremur milljónum Bandaríkjadala, sem samsvarar 390 milljónum íslenskra króna. Stofnandi sjóðsins, Toshizo „Tom“ Watanabe, kom sérstaklega til landsins til að sitja fundinn en hann er í stjórn sjóðsins ásamt Má Mássyni, prófessor í lyfjaefnafræði við Háskóla Íslands, og Ingimundi Sigfússyni.

Stofnskrá Watanabe-styrktarsjóðsins var undirrituð síðastliðið haust en stofnun sjóðsins er liður í því að styrkja mikilvæg fræðileg tengsl Íslands og Japans.

 

Sjóðurinn veitir íslenskum stúdentum og vísindamönnum einstakt tækifæri til að nema og starfa í japönsku háskólasamfélagi og það sama gildir um japanska stúdenta og vísindamenn sem eiga þess kost að koma hingað. Stofnun sjóðsins er ekki síður mikilvæg hvatning fyrir Háskóla Íslands til að styðja við metnaðarfullt langtímamarkmið skólans um að komast í hóp fremstu háskóla heims. Þáttur í því markmiði er að auka rannsóknir og fjölga doktorsnemum, en í stefnu Háskóla Íslands til 2011 er m.a. lögð áhersla á eflingu hágæðarannsókna og framhaldsnáms.
Toshizo Watanabe, sem lagði fram stofnfé sjóðsins, er frumkvöðull og stofnandi Nikken-fyrirtækisins, sem hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. Á yngri árum var hann skiptinemi við Brandeis-háskólann í Waltham í Massachusettes í Bandaríkjunum, og kynntist þar Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Watanabe fékk styrk til námsferðarinnar í Bandaríkjunum og var ævinlega þakklátur þeim sem studdu hann til náms. Við undirritun stofnskrár sjóðsins sagðist Watanabe hafa viljað gjalda fyrir aðstoðina með því að setja sjálfur á fót sjóð til að styrkja ungt fólk til náms erlendis. Hann hafði því samband við Geir Haarde, gamlan skólabróður sinn, með það í huga að stofna sjóð við íslenskan háskóla.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is