Háskóli Íslands

Styrkir til þverfaglegra rannsókna í verkfræði, heilbrigðis- og raunvísindum

STAFN: Styrktarsjóður Brynju Einarsdóttur og Arnar Almarssonar auglýsir eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum.  Markmið sjóðsins er að stuðla að menntun og víðsýni efnilegs námsfólks í raungreinum, heilbrigðisvísindum, verkfræði og tölvugreinum, s.s. gervigreind og lífupplýsingafræði. Einkum er litið á umsóknir sem tengjast heilsu, líftækni og lyfjaþróun á einhvern hátt. Sjóðurinn veitir styrki til íslenskra nemenda við og frá Háskóla Íslands sem eru í framhaldsnámi, meistarastigi eða hærri stigum – hér heima eða erlendis, og tengja saman greinar í vinnu sinni, t.d. rannsaka líffræðilega ferla með tölvulíkönum og aðferðafræði gervigreindar. 

Sjóðnum er ætlað að efla samvinnu milli námssviða og hvetja námsfólk til víðrar hugsunar á milli tæknisviða og greina. Áætlað er að veita styrki til tveggja einstaklinga/verkefna á ári hverju í samræmi við markmið sjóðsins.

Umsóknarfrestur er til og með 6. maí 2024.

Heildarfjárhæð úthlutunar er allt að kr. 4.000.000.

Í umsókn um styrk þurfa eftirtalin atriði að koma fram:

  • Nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang, sími og virkt netfang. 
  • Háskóli sem viðkomandi er skráður við.
  • Heiti verkefnis, markmið og vísindalegt eða hagnýtt gildi.
  • Útdráttur: Hnitmiðuð lýsing á verkefninu,  sem verður nýtt til almennrar umfjöllunar og kynningar, hljóti verkefnið styrk (hámark 150 orð).
  • Veigameiri lýsing á verkefninu þar sem fram kemur nánari lýsing á markmiðinu með verkefninu, framkvæmd þess og afrakstri (hámark 1,500 orð).
  • Upphaf verkefnis (mánuður, ár).
  • Tímaáætlun og fjárhagsáætlun verkefnis.
  • Samstarfsaðilar og aðrir styrkaðilar verkefnis ef við á.
  • Hvernig styrkurinn verður notaður hljóti verkefnið styrk.
  • Upplýsingar um annan fjárhagslegan stuðning.
  • Nöfn, símanúmer og netföng tveggja mögulegra meðmælenda.
  • CV og ritaskrá (fylgiskjal).

Farið verður með allar umsóknir sem trúnaðarmál. Stjórn sjóðsins áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum. 

Styrkþegi skal gera grein fyrir stöðu verkefnisins að ári liðnu. Ef styrkur er ekki nýttur í samræmi við umsókn skal honum skilað.

Áætlað er að úthlutun fari fram í september 2024.

Umsóknum skal skila sem viðhengi á netfang Styrktarsjóða Háskóla Íslands: sjodir@hi.is.

Sjóðurinn er stofnaður 5. janúar 2024. Stofnendur sjóðsins eru Brynja Einarsdóttir, snyrtifræðingur, og Örn Almarsson, efnafræðingur. Brynja og Örn eru hafnfirsk hjón, búsett í Bandaríkjunum, en með rætur og starfsemi á Íslandi. Örn útskrifaðist úr efnafræði frá Háskóla Íslands árið 1988.

Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu sjóðsins á sjóðavef Háskóla Íslands. Einnig hjá Helgu Brá Árnadóttur, verkefnisstjóra Styrktarsjóða Háskóla Íslands, sjodir@hi.is eða Eiríki Steingrímssyni, formanni stjórnar sjóðsins, eirikurs@hi.is.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is