Háskóli Íslands

Styrkir veittir til rannsókna sem tengjast liðskiptum, sarkmeinum og mjaðmarbrotum

Þrír styrkir hafa verið veittir úr Sjóði Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands til rannsókna sem snerta hné- og mjaðmaskiptaaðgerðir, sarkmein og tæknilausn til að spá fyrir um áhættu fólks á mjaðmarbroti. Styrkhafar eru María Sigurðardóttir, doktorsnemi og sérfræðingur í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Landspítala, Halldór Jónsson jr., prófessor og sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, og Lotta María Ellingsen, dósent við Rafmagns- og töluverkfræðideild Háskóla Íslands.
 
Rannsókn Maríu Sigurðardóttur snýr að sjúklingum sem gangast undir liðskiptaaðgerðir á hné eða mjöðm. Í viðmiðunarhópi hefur heilsa sjúklinga sem gengust undir liðskiptaaðgerð verið skráð og tíðni þekktra áhættuþátta, eins og blóðskorts, sykursýki, offitu, næringarskorts, reykinga og hreyfingar, verið könnuð. Unnið verður með þessa áhættuþætti hjá rannsóknarhópnum á meðan bið eftir aðgerð stendur en markmiðið er að fækka hugsanlegum fylgikvillum í kjölfar aðgerðar og bæta þannig lífsgæði og horfur sjúklinga eftir hana. Verkefnið er unnið í samvinnu Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins ásamt Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða. 
 
María Sigurðardóttir er doktorsnemi við Háskóla Íslands. Í doktorsnefnd hennar sitja Sigurbergur Kárason, Martin Ingi Sigurðsson, Emil Lárus Sigurðsson og Yngvi Ólafsson.
 
Rannsókn Halldórs Jónssonar jr.  hefur þann tilgang að skrá öll sarkmein sem hafa greinst á Íslandi síðastliðin 20 ár (2000-2019) í þeim tilgangi að fá betri yfirsýn yfir nýgengi, þróun greiningar, meðferðir og lífslíkur þeirra sjúklinga sem greinast með slíkt mein. Sarkmein er samheiti yfir þær tegundir krabbameina sem finnast í beinum og mjúkvefjum líkamans. Sérstakt meðferðarteymi sarkmeina á Íslandi (IceSG) hefur verið starfrækt á Landspítalanum síðan árið 2009 að fordæmi Scandinavian Sarcoma Group (SSG), félagsskapar sem starfar annars staðar á Norðurlöndum og hefur það markmið að bæta og samræma greiningu og meðferð þeirra sem eru með sarkmein ásamt því að auka þekkingu á þessum sjaldgæfu æxlum. Halldór, sem er meðstofnandi IceSG, hefur haldið skrá utan um þau tilfelli sem borist hafa frá því starfshópurinn var stofnaður en sá gagnagrunnur samanstendur nú af 110 tilfellum. 
 
Samstarfsaðilar Halldórs í rannsókninni eru Þórey Bergsdóttir, Helgi Sigurðsson, Bjarni A. Agnarsson og Helgi Birgisson.
 
Rannsókn Lottu Maríu Ellingsen miðar að því að þróa sjálfvirka skimunaraðferð sem spáir fyrir um áhættu á mjaðmarbroti út frá tölvusneiðmyndum. Beinþynning er viðvarandi sjúkdómur sem hefur mikil áhrif á lífsgæði eldra fólks en mjaðmarbrot er það sem hefur einna mest félagsleg áhrif þar sem langan tíma getur tekið að jafna sig eftir slíkt brot. Rannsóknarhópurinn hefur þegar þróað skimunaraðferð sem spáir fyrir áhættu fólks á mjaðmarbroti út frá tölvusneiðmyndum. Fyrir þessa aðferð þarf að merkja lærlegg í tölvusneiðmyndum á afar nákvæman hátt og hefur hópurinn nú þróað aðferð sem merkir lærlegginn á sjálfvirkan og hraðvirkan hátt með hjálp gervigreindar. Í verkefninu verður þessi nýja merkingaraðferð nákvæmnisprófuð og síðan innleidd inn í skimunaraðferðina. Það mun gera hana algerlega sjálfvirka og stuðla að því að hægt verði að nota aðferðina í heilbrigðiskerfinu til að spá fyrir áhættu eldra fólks á mjaðmarbroti. 
 
Samstarfsaðilar Lottu við rannsóknina eru Benedikt Helgason, Vilmundur Guðnason, Páll Ásgeir Björnsson, Halldór Pálsson og fleiri. 
 
Um sjóðinn
Tilgangur Sjóðs Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands er að efla rannsóknir á sviði bæklunarlækninga. Sérstök áhersla er lögð á rannsóknir á meðfæddum göllum í mjaðmarlið, svo sem ættgengi, tíðni og afleiðingum. Sjóðinn stofnaði Sigríður Lárusdóttir (f. 5. maí 1918, d. 13. júní 2006) árið 2003 til minningar um þá sem hafa glímt við meðfædda sjúkdóma í mjöðm en Sigríður átti við þann sjúkdóm að stríða frá fæðingu.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is