Háskóli Íslands

Styrkjum úthlutað til vísindafræða og vísindamiðlunar

Rannsóknir og vísindamiðlunarverkefni sem snerta m.a. sólmyrkvann 2026, kjarnorkuvopnakapphlaup Bandaríkjanna og Rússlands, Vísindakakó fyrir fróðleiksfús ungmenni, nýsköpun í sálfræði á 19. og 20. öld og sögu rannsókna á segulsviði jarðar eru meðal þeirra sem fengið hafa styrki úr Vísindum og velferð: Styrktarsjóði Sigrúnar og Þorsteins. Styrkhafar eru Ármann Pétursson, Davíð Fjölnir Ármannsson og Martin Jónas B. Swift, Elisa Johanna Piispa, Jörgen L. Pind, Sævar Helgi Bragason og Tjörvi Schiöth. Heildarupphæð styrkja er fimm milljónir króna. 

Sjóðnum Vísindi og velferð er annars vegar ætlað að efla doktorsnám og sérfræðiþekkingu í félagsráðgjöf með áherslu á málefni barna og fjölskyldna og hins vegar rannsóknir og nýjungar sem tengjast vísindasögu, vísindaheimspeki og vísindamiðlun. Að þessu sinni voru veittir styrkir til verkefna á síðarnefndu sviðunum, en auglýst er árlega eftir umsóknum á hvoru meginsviði til skiptis.

Ármann Pétursson, grunnnemi í heimspeki og tölvunarfræði við HÍ, hlaut styrk til að sækja sumarnámskeið í rökfræði og formlegri þekkingarfræði við Carnegie Mellon háskóla í Pittsburgh. Um er að ræða þriggja vikna sumarskóla þar sem nokkrir efnilegir nemendur fá að kynnast ýmsum þverfaglegum rannsóknarefnum vísindaheimspekinnar áður en þeir hefja framhaldsnám. Sumarskólinn er því góður undirbúningur fyrir áframhaldandi nám og mun nýtast Ármanni vel þar sem hann fær að kynnast nánar samspili heimspekinnar og hinna ýmsu vísindagreina og mögulegum rannsóknarefnum sem þverfagleg nálgun hefur upp á að bjóða. Meðal viðfangsefna sumarskólans á síðustu árum má finna grundvallarspurningar vísindaheimspekinnar um líkindafræði, tengsl þekkingarfræðilegrar rökfræði við grannfræði og neta-þekkingarfræðileg líkön með hjálp tölvuherma.

Davíð Fjölnir Ármannsson, kynningarfulltrúi Rannís, og Martin Jónas B. Swift, verkefnastjóri STEM greina við Nýmennt á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, hlutu styrk fyrir Vísindakakó, vettvang fyrir áhugasöm ungmenni og íslenskt vísindafólk til að eiga opið og óformlegt samtal um vísindaleg málefni. Einu sinni í mánuði býður íslenskur vísindamaður upp á stutta kynningu á fræðastörfum sínum eða áhugaverðum þáttum þeirra sem grundvöll í umræðu um vísindin og vísindastarfið. Með viðburðunum fá námfús ungmenni svör við forvitnilegum spurningum sínum og kynnast fjölbreyttum vísindalegum viðfangsefnum.

Elisa Johanna Piispa, jarðeðlisfræðingur við Jarðvísindastofnun HÍ, hlýtur styrk til að setja á laggirnar vef sem segir einstaka sögu rannsókna á eiginleikum segulsviðs jarðar með bergsegulmælingum á Íslandi. Elisa leggur áherslu á rannsóknir á fornsegulsviði jarðar og bergsegulfræði og nýtir til þess m.a. hinn einstakan stafla hraunlaga á Íslandi. Að þessum rannsóknum hafa komið nokkrir merkir íslenskir vísindamenn sem sagt verður frá, enda var framlag þeirra alþjóðlega mikilvægt. Safnað verður saman efni, bæði texta, myndum og viðtölum, og nýjum niðurstöðum og efnið samþætt í heildstæða sögu. Á vefsíðunni verður þessi merka saga bergsegulmælinga gerð aðgengileg öllum, almenningi jafnt sem vísindamönnum. Verkefnið verður unnið í samvinnu við Harald Auðunsson jarðeðlisfræðing.

Jörgen L. Pind, prófessor emeritus í sálfræði við Háskóla Íslands, hlýtur styrk fyrir bók um nýsköpun í sálfræði við Kaupmannahafnarháskóla 1882–1932. Bókin er skrifuð á dönsku. Tímabilið afmarkast annars vegar af útkomu bókar Haralds Høffding Psykologi i Omrids frá 1882 og hins vegar af tíunda alþjóðlega sálfræðiþinginu sem haldið var i Kaupmannahöfn árið 1932. Á þessu árabili naut sálfræðin við Hafnarháskóla alþjóðlegrar viðurkenningar. Í bókinni er fjallað um sálfræðirannsóknir við skólann, um sálfræðikennsluna og suma af nemendunum. Tveir Íslendingar luku meistaraprófi í heimspeki með sálfræði sem aðalgrein árið 1901, þeir Ágúst H. Bjarnason og Guðmundur Finnbogason. Tvær doktorsritgerðir frá umræddu tímabili vöktu alþjóðlega eftirtekt. Önnur var ritgerð Guðmundar Finnbogasonar um samúðarskilninginn frá 1911 en hin ritgerð Edgars Rubin um aðgreiningu fígúru og grunns í sjónskynjun frá 1915. Fjallað er um þær báðar. Handrit bókarinnar er tilbúið og er styrkur veittur fyrir lokayfirferð dönskusérfræðings.

Sævar Helgi Bragason, dagskrárgerðarmaður, rithöfundur og vísindamiðlari, hlýtur styrk til verkefnisins „Sólmyrkvinn 2026“. Miðvikudaginn 12. ágúst 2026 beinast án efa augu flestra til himins þegar tungl gengur fyrir sólu og myrkvar hana alveg frá vesturhluta Íslands. Búast má við að mikill fjöldi ferðamanna sæki landið heim til að verða vitni að myrkvanum auk þess sem búast má við miklum áhuga íbúa hér á landi. Þetta er fyrsti almyrkvinn á sólu sem sést frá Íslandi frá árinu 1954 og fyrsti almyrkvinn sem sést frá Reykjavík síðan 17. júní árið 1433. Verkefnið snýst um að koma upp fræðsluvef, eclipse2026.is, um myrkvann á ensku og íslensku. Á vefnum verða fræðslumyndbönd og fróðleikur um sólmyrkvann og kort sem sýna myrkvaslóðina, lengd almyrkvans frá mismunandi stöðum og deildarmyrkvans utan almyrkvaslóðarinnar. Tilgangurinn er að gæta þess að fróðleik um myrkvann sé miðlað á vandaðan og ábyrgan hátt til almennings á öllum aldri. 

Tjörvi Schiöth, doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands, hlýtur styrk til doktorsverkefnis síns sem fjallar um sögu kjarnavopnastrategíu Bandaríkjanna. Notuð er þverfagleg nálgun á sviði hugtakasögu, hugmyndasögu og vísindasögu. Áherslan er á hugmyndir og hugtök sem ganga út á að „vinna“ kjarnorkustríð og áhrif þeirra á stefnumótun í kjarnavopnamálum. Í rannsókninni verður þróun þessara kenninga skoðuð á tímum kalda stríðsins og enn fremur reynt að varpa ljósi á atburðarás undanfarinna ára sem hafa einkennst af vaxandi spennu á milli kjarnorkustórveldanna Bandaríkjanna og Rússlands þar sem allir helstu afvopnunarsamningarnir frá tímum kalda stríðsins hafa verið felldir úr gildi. Markmiðið með rannsókninni er því að stuðla að nýrri þekkingu á þróun þessara kenninga um notkun kjarnorkuvopna frá sjónarhorni hugmynda- og vísindasögu. 

Um sjóðinn
Vísindi og velferð: Styrktarsjóður Sigrúnar og Þorsteins var stofnaður á vormánuðum árið 2021 og eru stofnendur sjóðsins hjónin Sigrún Júlíusdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson, sem bæði eru fyrrverandi prófessorar við Háskóla Íslands. Sigrún er fyrrverandi prófessor í félagsráðgjöf og hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar, rannsókna og fræða í félagsráðgjöf við háskólann og stofnandi Rannsóknaseturs í barna- og fjölskylduvernd. Þorsteinn er fyrrverandi prófessor í eðlisfræði og vísindasögu, stofnandi og fyrsti ritstjóri Vísindavefsins og hefur verið brautryðjandi í vísindafræðum við skólann.

Sjóðurinn heyrir undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands og starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Í stjórn sjóðsins sitja Vilhjálmur Þorsteinsson, sonur Þorsteins og fulltrúi stofnenda sjóðsins sem jafnframt er formaður stjórnar, Sigurveig H. Sigurðardóttir prófessor, fulltrúi Félagsráðgjafardeildar, og Einar H. Guðmundsson, prófessor emeritus, fulltrúi Raunvísindadeildar og Sagnfræði- og heimspekideildar.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands og þar með samfélagið allt. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is