Birna Bjarnadóttir, rannsóknalektor við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, hefur hlotið styrk úr Sjóði Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli við Háskóla Íslands, til rannsóknar á arfi íslenskunnar í Vesturheimi meðal barna íslenskra innflytjenda. Rannsóknin ber heitið „Sólskinsbörn Lögbergs: Arfur íslenskunnar í Vesturheimi meðal barna íslenskra innflytjenda“.
Í október árið 1915 hóf íslenska dagblaðið Lögberg í Winnipeg útgáfu á sérblaðinu Sólskini sem ætlað var börnum íslenskra innflytjenda í Vesturheimi. Sérblaðið rataði til sinna. Um það vitna fjölmörg bréf sem börnin sendu dagblaðinu og voru birt í nafni Sólskinsbarna. Þau veita innsýn í daglegt líf og kringumstæður íslenskra innflytjenda Norður-Ameríku á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Börnin skrifuðu einnig um samfélagsleg og menningarpólitísk málefni, meðal annars áhrif fyrri heimsstyrjaldar á líf fólks og alþjóðlega baráttu fyrir kvenfrelsi. Staða íslenskunnar var þeim jafnframt hugleikin og í því efni fengu þau hvatningu frá gamla landinu, en barnungur Halldór Guðjónsson (síðar Laxness) birti einnig bréf í Sólskini.
Fræðimenn beggja vegna hafs hafa vitað af barnablöðum íslenskra innflytjenda í Vesturheimi og Dagný Kristjánsdóttir hefur bæði flutt erindi og birt grein um efni þeirra. Barnablaðið Sólskin hefur aftur á móti ekki verið rannsakað sérstaklega með markvissum hætti. Takmarkið er að gefa út bók með niðurstöðum rannsóknarinnar og birta jafnframt fyrstu ensku þýðinguna á bréfum Sólskinsbarna.
Með stofnun rannsóknarstöðu við Háskóla Íslands í nafni Stephans G. Stephanssonar, sem Birna Bjarnadóttir gegnir, hafa skapast tækifæri til eflingar alþjóðlegra rannsóknarverkefna á sviði bókmennta og menningarsögu íslenskra innflytjenda og afkomenda þeirra í Vesturheimi. Verkefnið „Sólskinsbörn Lögbergs: Arfur íslenskunnar í Vesturheimi meðal barna íslenskra innflytjenda“ er dæmi um slíka rannsókn en samstarfsmaður Birnu er kanadíski fræðimaðurinn og þýðandinn Christopher Crocker.
Um sjóðinn
Tilgangur sjóðsins er að efla tengsl milli Háskóla Íslands og Háskólans í Manitoba í Kanada m.a. með því að veita stúdentum og fræðimönnum annars skólans styrki til rannsókna eða náms við hinn skólann eða til verkefna sem falla að tilgangi sjóðsins með öðrum hætti.
Sjóðurinn er byggður á gjöf Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli til Háskóla Íslands árið 1971 skv. erfðaskrá hans. Páll var fæddur 26. júní 1887 og var bóndi í Saskatchewan í Kanada. Páll lést 11. maí árið 1966.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.