Háskóli Íslands

Styrkur til rannsókna/verkefna í sagnfræði

Auglýst er eftir umsóknum um styrk úr Sagnfræðisjóði dr. Björns Þorsteinssonar á árinu 2024. Veittir verða styrkir til nemenda sem stunda eða hafa nýlokið meistaranámi í sagnfræði og hafa unnið að verkefnum sem varða sögu Íslands eða efni því nátengdu. 

Umsóknarfrestur er til og með 29. apríl 2024.

Heildarupphæð úthlutaðra styrkja að þessu sinni er allt að kr. 500.000. 

Nánari upplýsingar um sjóðinn og tilgang hans er að finna á heimasíðu sjóðsins.  

Í umsókninni þurfa eftirtalin atriði að koma fram:
1.    Nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang, sími og netfang.
2.    Helstu atriði úr náms- og starfsferli umsækjanda.
3.    Heiti rannsóknarverkefnisins, markmið og vísindalegt gildi þess. Hnitmiðuð lýsing á verkefninu, 2-3 málsgreinar, sem verður nýtt til almennrar umfjöllunar og kynningar hljóti verkefnið styrk.
4.    Upplýsingar um annan fjárhagslegan stuðning við verkefnið komi fram.

Hámarkslengd umsóknar er þrjár blaðsíður. Farið er með allar umsóknir sem trúnaðarmál. Stjórn áskilur sér rétt til að veita fleiri en einum umsækjanda styrk, hafna öllum umsóknum og/eða úthluta styrkjum með öðrum hætti.

Umsóknum skal skila sem viðhengi á netfang Styrktarsjóða Háskóla Íslands, sjodir@hi.is

Áætlað er að úthlutað verði í maí/júní 2024.

Frekari upplýsingar um styrkveitingu og úthlutun er að finna á sjóðavef Háskóla Íslands. Einnig hjá Helgu Brá Árnadóttur, verkefnisstjóra Styrktarsjóða Háskóla Íslands, helgab@hi.is eða Sverri Jakobssyni, formanni stjórnar sjóðsins, sverrirj@hi.is

Um sjóðinn
Sagnfræðisjóður dr. Björns Þorsteinssonar var stofnaður árið 1986 af Guðrúnu Guðmundsdóttur, ekkju dr. Björns Þorsteinssonar, og dóttur þeirra, Valgerði Björnsdóttur. Björn Þorsteinsson fæddist 20. mars 1918 og lést 6. október 1986. Hann starfaði við kennslu í gagnfræða- og menntaskólum og í Háskóla Íslands. Eftir hann liggja fjölmargar bækur og greinar um Íslandssögu sem allar eiga það sammerkt að vera vekjandi og glæsilega skrifaðar. 
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is