Háskóli Íslands

Þrír hlutu styrk úr Watanabe-sjóði

Í dag voru veittir styrkir til þriggja nemenda úr Watanabe styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands. Doktorsnemi og BA-nemi frá Háskóla Íslands fengu styrki til námsdvalar í Japan og doktorsnemi frá Japan fékk styrk til að nema við Háskóla Íslands. Heildarupphæð styrkja nemur tæpum fimm milljónum króna. Athöfnin fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands að viðstöddum stofnanda sjóðsins Toshizo Watanabe. Við þetta tækifæri endurtók Kristín Ingólfsdóttir rektor samúðarkveðjur til japönsku þjóðarinnar, fyrir hönd Háskóla Íslands, vegna þeirra skelfilegu náttúruhamfara sem dunið hafa yfir þjóðina.  Hún sagði að nú stundi 11 japanskir nemendur nám í ýmsum greinum í Háskóla Íslands.  Það sé þeim erfitt og sárt að fygjast með úr fjarlægð þeim hörmungum sem gengið hafa yfir heimafyrir.

Styrkhafarnir eru Harald Schaller, doktorsnemi í Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, Kazuho Oshima, doktorsnemi í evrópskri sögu og félagsvísindum við Hitobashi-háskóla og Helga Ragnarsdóttir, nemi í japönsku við Háskóla Íslands.

Harald Schaller hlýtur styrk til átta mánaða náms við Hokkaido-háskóla í Japan þar sem hann hyggst gera vettvangsrannsóknir í tengslum við doktorsverkefni sitt. Verkefni Haralds snýr að varðveislu náttúrulegs umhverfis á ferðamannastöðum og er hluti af rannsóknasamstarfi milli Háskóla Íslands og Hokkaido-háskóla.

Kazuho Oshima hlýtur styrk til níu mánaða náms við Háskóla Íslands þar sem hún hyggst vinna að doktorsverkefni í tengslum við íslenskar goðsögur og bókmenntir undir leiðsögn Guðrúnar Nordal, prófessors og forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Torfa Tulinius, prófessors við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Kazuho hefur alla tíð haft mikinn áhuga á Íslandi og íslenskri menningu og vonast til að geta með rannsóknum sínum lagt sitt af mörkum til þess að auka menningarleg tengsl Íslands og Japans.

Helga Ragnarsdóttir hlýtur styrk til sex mánaða dvalar í Japan þar sem hún hyggst stunda nám við Kansai Gaidai háskólann í Osaka. Hún leggur stund á BA-nám í japönsku og hefur áður lokið BA-námi í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands.

Tilgangur Watanabe styrktarsjóðsins er að veita styrki til skiptináms í Japan og á Íslandi, bæði til nemenda í grunn- og framhaldsnámi, auk þess að stuðla að kennaraskiptum. Stofnframlag sjóðsins nemur þremur milljónum Bandaríkjadala sem samsvarar 340 milljónum íslenskra króna.

Watanabe styrktarsjóðurinn var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2008 og er stofnun hans liður í því að styrkja gagnkvæm fræðileg tengsl Íslands og Japans. Sjóðurinn veitir íslenskum stúdentum og vísindamönnum einstakt tækifæri til að nema og starfa í japönsku háskólasamfélagi og það sama gildir um japanska stúdenta og vísindamenn sem eiga þess kost að koma til Íslands. Styður þetta við það markmið stefnu Háskóla Íslands til 2016 að efla hágæðarannsóknir, alþjóðlegt samstarf og framhaldsnám.

Toshizo Watanabe, sem lagði fram stofnfé sjóðsins, er frumkvöðull og stofnandi Nikken-fyrirtækisins sem hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. Á yngri árum var hann skiptinemi við Brandeis-háskólann í Waltham í Massachusettes í Bandaríkjunum, og kynntist þar Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands. Watanabe fékk styrk til námsferðarinnar í Bandaríkjunum og var ævinlega þakklátur þeim sem studdu hann til náms. Við undirritun stofnskrár sjóðsins sagðist Watanabe hafa viljað gjalda fyrir aðstoðina með því að setja sjálfur á fót sjóð til að styrkja ungt fólk til náms erlendis. Hann hafði því samband við Geir H. Haarde, gamlan skólabróður sinn, með það í huga að stofna sjóð við íslenskan háskóla.

Stofnandi sjóðsins Toshizo Watanabe kom sérstaklega til landsins til að vera viðstaddur fyrstu úthlutunina úr sjóðnum en hann er í stjórn sjóðsins ásamt Má Mássyni, prófessor í lyfjaefnafræði við Háskóla Íslands og Ingimundi Sigfússyni, cand.jur. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is