Þrír fengu í dag styrki úr Watanabe-styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands. Tveir nemendur í BA-námi í japönsku við Háskóla Íslands, þær Jóna Björk Jónsdóttir og Sólrún Skúladóttir, fengu styrk til námsdvalar í Japan. Þá fékk Jón Karl Helgason, prófessor við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði Háskóla Íslands, styrk til að sinna rannsóknum í Japan. Heildarupphæð styrkjanna nemur um tveimur milljónum króna.
Athöfnin fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands að viðstöddum stofnanda sjóðsins, Toshizo Watanabe, og eiginkonu hans. Þetta er í þriðja skipti sem úthlutað er úr sjóðnum.
Jóna Björk Jónsdóttir hlýtur styrk til fimm mánaða dvalar í Japan. Hún hefur lagt stund á nám í japönsku við Háskóla Íslands frá árinu 2011. Jóna Björk hefur haft mikinn áhuga á japanskri menningu frá unga aldri og nam japönsku frá 14 ára aldri á eigin vegum. Árið 2010 sótti Jóna Björk skiptinám í japönskum menntaskóla í nokkrar vikur.
Sólrún Skúladóttir hlýtur einnig styrk til fimm mánaða dvalar í Japan. Sólrún hefur stundað nám í japönsku við Háskóla Íslands undanfarin misseri en hún lauk BS-námi í umhverfis- og byggingarverkfræði árið 2011. Sólrún hefur hug á að dvelja heilt námsár í Japan. Þaðan liggur leiðin í meistaranám í verkfræði og er markmiðið að tengja saman á einhvern hátt verkfræðina og áhugann á Japan.
Jón Karl Helgason prófessor vinnur þessi misserin að bók á ensku um viðtökur Íslendingasagna og Eddukvæða um víða veröld. Bókin hefur vinnutitilinn „Blood and Honey: The Afterlife of Eddas and Sagas“. Meðal þess sem hann hyggst fjalla um eru áhrif þessara íslensku miðaldatexta í Japan, ekki síst á höfunda svonefndra Manga-teiknimynda. Hann hlýtur ferðastyrk úr Watanabe-sjóðnum til að stunda rannsóknir um nokkurra vikna skeið í Japan á komandi vetri og styrkja jafnframt tengsl við japanska fræðimenn í íslenskum fræðum.
Tilgangur Watanabe-styrktarsjóðsins er að veita styrki til skiptináms í Japan og á Íslandi, bæði til nemenduma í grunn- og framhaldsnámi styrki til skiptináms í Japan og á Íslandi, og að stuðla að kennaraskiptum milli landanna. Stofnframlag sjóðsins nemur þremur milljónum Bandaríkjadala, sem samsvarar 340 milljónum íslenskra króna.
Um Watanabe-styrktarsjóðinn við Háskóla Íslands
Watanabe-styrktarsjóðurinn var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2008 og hefur það markmið að styrkja gagnkvæm fræðileg tengsl Íslands og Japans. Sjóðurinn veitir íslenskum stúdentum og vísindamönnum einstakt tækifæri til að nema og starfa í japönsku háskólasamfélagi og það sama gildir um japanska stúdenta og vísindamenn sem eiga þess kost að koma til Íslands.
Toshizo Watanabe, sem lagði fram stofnfé sjóðsins, er frumkvöðull og stofnandi Nikken-fyrirtækisins sem hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. Á yngri árum var hann skiptinemi við Brandeis-háskólann í Waltham í Massachusettes í Bandaríkjunum og kynntist þar Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands. Watanabe fékk styrk til námsferðarinnar í Bandaríkjunum og var ævinlega þakklátur þeim sem studdu hann til náms. Við undirritun stofnskrár sjóðsins sagðist Watanabe hafa viljað endurgjalda aðstoðina með því að setja sjálfur á fót sjóð til að styrkja ungt fólk til náms erlendis. Hann hafði því samband við Geir H. Haarde, hinn gamlan skólabróður sinn, með það í huga að stofna sjóð við íslenskan háskóla.
Toshizo Watanabe situr í stjórn sjóðsins ásamt Má Mássyni, prófessor í lyfjaefnafræði við Háskóla Íslands, og Ingimundi Sigfússyni, cand.jur.