Háskóli Íslands

Tímamótaritgerðir Einsteins á íslensku

Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor í eðlisfræði og vísindasögu, hefur hlotið styrk úr Almanakssjóði til að vinna að útgáfu á bókinni Efni og eindir, ljós og skammtar, með þýðingu á ritgerðum eftir Albert Einstein frá árinu 1905 ásamt inngangsorðum og öðru stoðefni fyrir almenna íslenska lesendur.

Í bókinnni verða fimm tímaritsgreinar eftir Einstein sem birtust allar á árinu 1905 en það hefur verið kalla ár kraftaverkanna í lífi höfundarins. Fyrstu tvær greinarnar fjalla um sameindir efnisins, stærð þeirra og aðra eiginleika og og áhrif þeirra á mælanleg atriði. Síðan koma tvær greinar um takmörkuðu afstæðiskenninguna og að lokum tímamótagrein um ljósröfun og ljóseindir.

Fyrirhugað er að bókin komi út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi. Höfundar inngangsorða og stoðefnis auk Þorsteins eru eðlisfræðingarnir Jakob Yngvason og Þorsteinn Halldórsson. Reynt verður að gera efnið eins aðgengilegt almenningi og kostur er.

Almanakssjóður var stofnaður árið 1973. Markmið sjóðsins er m.a. að styrkja rannsóknir í stjarnfræði og rímfræði, stærðfræði og stærðfræðilegri eðlisfræði og útgáfu vísindalegra rita í þessum fræðum. Þetta er annar styrkurinn sem veittur er úr sjóðnum á þessu ári.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is