Háskóli Íslands

Tíu milljónir til eflingar íslenskri tungu

Sex styrkir voru nýverið veittir úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur til eflingar íslenskri tungu. Þeir renna til sex fræðimanna við Háskóla Íslands sem vinna að rannsóknum og verkefnum sem snúa að stöðu íslenskrar tungu í samtímanum, ekki síst í síbreytilegu tækniumhverfi. Þá hlýtur Blekfjelagið, nemendafélag ritlistarnema á MA-stigi við Háskóla Íslands, einnig styrk úr sjóðnum til útgáfu bókarinnar „Á þrykk“. Þetta er í annað skipti sem úthlutað er úr sjóðnum og nemur heildar¬upphæð styrkjanna 10 milljónum króna í þetta sinn.

Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2013 til minningar um Áslaugu Hafliðadóttur og foreldra hennar, þau Sesselju Eiríksdóttur og Hafliða Jón Hafliðason. Meginmarkmið sjóðsins er að efla íslenska tungu með styrkjum til sérverkefna á sviði íslenskra fræða. Í erfðaskrá sinni arfleiddi Áslaug Hafliðadóttir Háskóla Íslands að fasteigninni að Bjarkargötu 12 í Reykjavík til minningar um foreldra sína. Jafnframt ánafnaði hún Háskóla Íslands 25% af öllum bankainnstæðum og andvirði verðbréfa í sinni eigu. Stofnframlag sjóðsins nam samtals 120 milljónum króna.

Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (aripk@hi.is), hlýtur styrk til vefgáttarinnar málið.is. Fólk leitar í síauknum mæli á vefnum að gögnum og upplýsingum um íslenskt mál og málnotkun. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og samstarfsaðilar hennar hafa yfir að ráða viðamiklum og verðmætum rafrænum gögnum um íslenska tungu. Heilmikið efni er tiltækt en aðgangur, vefföng, viðmót og framsetning er með ýmsu móti eins og sakir standa. Úr því má bæta með einni samræmdri vefgátt, málið.is, og felst verkefnið í vefforritun og viðmótshönnun gáttarinnar.

Á vefgáttinni málið.is verður einn aðgangur og samræmt útlit þannig að það verður leikandi létt fyrir hvern sem er að leita svara um íslenska tungu. Vefgáttin mun því nýtast þeim sem vilja treysta málnotkun sína í ræðu og riti og fræðast um íslenskt mál: ritun, beygingu, orðaforða, merkingu og uppruna orða, föst orðasambönd, mismunandi orðalag og margt fleira. Málið.is er því hugsað til þess að styrkja íslenskt mál í síbreytilegu tækniumhverfi. Aðgangur að vefnum verður ókeypis og ekki þarf annað en nettengda tölvu eða snjalltæki. Vefgáttin málið.is verður opnuð á degi íslenskrar tungu í nóvember 2016.  

Starfsmenn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum búa efnið í hendurnar á viðmótshönnuði og vefforritara. Í undirbúningshópi um málið.is af hálfu stofnunarinnar eru Ari Páll Kristinsson, Halldóra Jónsdóttir og Steinþór Steingrímsson, auk Evu Maríu Jónsdóttur kynningar- og vefstjóra.

Jóhannes Gísli Jónsson, prófessor í íslenskri málfræði við Hugvísindasvið (jj@hi.is), og Baldur Sigurðsson, dósent í íslensku við Menntavísindasvið (balsi@hi.is), fá styrk til samvinnu¬verkefnis á vegum Ritvers Hugvísindasviðs og Ritvers Menntavísindasviðs. Markmiðið með verkefninu er að búa til almennar leiðbeiningar á vefnum um fræðileg skrif í háskólanámi en þær eiga að koma til móts við þarfir nemenda á ólíkum fræðasviðum og námsstigum. Leiðbeiningarnar munu einkum taka til ýmissa atriða sem tengjast ritunarferlinu sjálfu og liprum og blæbrigðaríkum stíl sem hæfir formlegu málsniði og rökréttu samhengi milli málsgreina, efnisgreina og einstakra kafla í ritgerðum. Tekin verða dæmi úr fræðilegum textum af ýmsu tagi og lögð verður áhersla á jákvæðar og uppbyggilegar ráðleggingar fremur en boð og bönn.

Í verkefninu verður höfð hliðsjón af ritunarleiðbeiningum sem til eru á vefjum ýmissa ritvera í Bandaríkjunum en einnig verður reynt að nýta kennsluefni sem til er um fræðileg skrif á íslensku. Lögð verður áhersla á mikilvæg atriði í fræðilegum textum sem eiga sérstaklega við um íslensku.

Kristján Árnason, prófessor í íslenskri málfræði við Hugvísindasvið (kristarn@hi.is), hlýtur styrk til verkefnisins Málfarslegt gildismat og málnotkun í menningarkimum nútímans, sem snýr m.a. að málnotkun í net- og tölvuumhverfi. Það tengist ritun kennslubókar fyrir háskólastig sem fengið hefur titilinn Íslensk tunga í sögu og samtíð. Bókin fjallar um uppruna, þróun og „vistkerfi“ íslensks máls og sögu þess fram til nútímans. Sagt er frá félagslegum og stjórnmálalegum aðstæðum tungumálsins allt frá því fyrir landnám til nútímans. Fjallað er um ritmál og talmál, gildi tungunnar fyrir íslenskt samfélag og tengsl íslensks máls og erlendra tungna, fyrst latínu, síðar dönsku og nú síðast ensku. Lögð er áhersla á „mállega hugmyndafræði“ fyrr og nú, hugmyndir og sjónarmið um málrækt og varðveislu tungunnar í sögulegu ljósi.

Styrkurinn verður nýttur til sérstakrar rannsóknar á hugmyndafræði og málnotkun í menningarkimum nútímans. Gagnaöflun fer fram með skipulögðum „djúp¬viðtölum“ og athugunum á raunverulegri málnotkun í tölvuumhverfi, á samfélags¬miðlum og í dægurmenningu.

Kristján Jóhann Jónsson, dósent í íslensku við Menntavísindasvið (krjj@hi.is), fær styrk til rannsóknarinnar Íslenska sem námsgrein og kennslutunga. Í henni er kannað hvaða þekkingu er miðlað og hvaða færni byggð upp í námsgreininni íslensku í grunn- og framhaldsskólum. Um framhaldsstyrk er að ræða en Kristján fékk styrk úr sjóðnum fyrir fyrri áfanga verkefnsins í fyrra.

Tungumálið mótar hugsun okkar og þekkingu. Skólastarf verður árangursríkt ef móðurmálið er öflugt og gerir okkur kleift að skilja og útskýra þær upplýsingar sem til okkar berast. Kennarar á öllum skólastigum þurfa að nota íslensku sem kennslutungu til að miðla þekkingu í vaxandi alþjóðavæðingu. Í rannsókninni er spurt hvað börn og unglingar læri um móður-málið og hvernig það dugi til þess að kenna og útskýra nýja og síbreytilega heimsmynd.

Í rannsókninni er höfð hliðsjón af þrískiptingu Aristótelesar í þekkingu, hæfni og gagnrýna hugsun. Söfnun og úrvinnsla gagna tekur mið af þessari skiptingu. Heimsóttir eru skólar sem valdir eru með slembiúrtaki, fylgst með því sem fram fer í kennslustundum og byggt á vettvangslýsingum og viðtölum. Rannsóknin er vistuð hjá Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Í stjórn verkefnisins sitja sjö manns: Kristján Jóhann Jónsson, Ásgrímur Angantýsson, Jón Yngvi Jóhannsson og Sigurður Konráðsson frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Dagný Kristjánsdóttir frá Hugvísindasviði Háskóla Íslands og Brynhildur Þórarinsdóttir og Finnur Friðriksson frá Háskólanum á Akureyri.

Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði við Hugvísindasvið (siggasig@hi.is), fær styrk til að rannsaka orðaforða, málkunnáttu og málnotkun íslenskra barna á tímum stafrænna miðla og snjalltækja.

Staða íslenskunnar hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu. Því hefur verið haldið fram að íslensk börn skorti íslenskan orðaforða og málkunnáttu og þau leiki sér jafnvel á ensku. Markmið þessa verkefnis er að kanna hvort slíkar fullyrðingar eigi við rök að styðjast. Hafa þær breytingar sem orðið hafa á íslensku samfélagi að undanförnu með tilkomu stafrænna miðla og snjalltækja, þar sem enska er alls ráðandi, haft áhrif á orðaforða, málkunnáttu og málnotkun barna á grunnskólaaldri? Ef börn nota ensku fremur en íslensku við ákveðnar aðstæður og enskra áhrifa gætir í málkunnáttu þeirra mun það hafa mikil áhrif á íslenska málþróun og framtíð íslenskunnar. Því yngri sem börn eru því meiri áhrif hefur málumhverfið á málkunnáttu þeirra og börn sem alast upp við tvö tungumál verða tvítyngd. Til að átta sig á stöðu íslenskunnar og framtíðarhorfum er því mikilvægt að rannsaka áhrif ensku á málkunnáttu og málnotkun barna á mismunandi aldri.

Vonir standa til að styrkur fáist til viðameiri rannsóknar á áhrifum ensku á íslenskt málsamfélag undir stjórn Sigríðar Sigurjónsdóttur og Eiríks Rögnvaldssonar og munu þá rann¬sókn¬irnar tvær tengjast og styrkja hvor aðra.

Blekfjelagið, nemendafélag ritlistarnema á MA-stigi við Háskóla Íslands (sfs7@hi.is), hlýtur styrk til bókaútgáfu. Hjá ritlistarnemum á öðru ári á meistarastigi er boðið upp á námskeiðið „Á þrykk“. Þar búa nemendur til samnefnda bók og fylgja útgáfunni eftir frá upphafi til enda: semja efni, búa til prentunar, afla fjár, koma í prentun og standa að kynningu á tilbúinni bók.

Námskeiðið sitja í ár tíu ritlistarnemar sem sjá um að semja efni í bókina, auk fimm ritstjórnar¬nema úr námsleiðinni hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Þeirra hlutverk er að ritstýra efni bókarinnar.
Efni þeirra bóka sem námskeiðið hefur getið af sér síðustu ár hefur fylgt einhvers konar þema eða lykilorði sem lýsir stemningu bókanna. Eins er háttað með bókina sem nemendur vinna að í námskeiðinu þetta árið. Bókin mun innihalda blöndu af smásögum, örsögum og ljóðum.

Nánar um styrktarsjóðinn
Tilgangur Styrktarsjóðs Áslaugar Hafliðadóttur helgast af fyrirmælum í erfðaskrá Áslaugar. Samkvæmt erfðaskránni skal nota sjóðinn til eflingar íslenskri tungu með þeim hætti sem stjórn Háskóla Íslands telur að koma muni að mestu gagni. Það skilyrði er sett að sjóðurinn verði notaður til sérverkefna á sviði íslenskra fræða eða stuðnings við þá sem leggja stund á íslensk fræði. Styrkir standa bæði starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands til boða, m.a. til rannsókna, þróunar, kennslu, þjálfunar, nýmæla eða kaupa á tækjum og búnaði sem falla að markmiðum sjóðsins. Í stofnskrá sjóðsins segir að sérstaklega skuli stutt við verkefni sem lúta að ritfærni og þjálfun nemenda á öllum fræðasviðum háskólans við beitingu íslensks máls og styrkja stöðu íslenskunnar í síbreytilegu tækniumhverfi.  

Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Í stjórn sjóðsins sitja Katrín Jakobsdóttir alþingismaður, sem jafnframt er formaður stjórnar, Börkur Hansen, prófessor við Menntavísindasvið, og Viðar Guðmundsson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið.

Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn háskólans. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Nánari upplýsingar um Styrktarsjóð Áslaugar Hafliðadóttur, styrkþega og aðra sjóði í vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands veitir Helga Brá Árnadóttir, verkefnisstjóri styrktarsjóða og hollvina, helgab@hi.is, sími 899-8719.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is