Háskóli Íslands

Tíu styrkir til verkefna um eflingu íslenskrar tungu

Tíu styrkir hafa verið veittir úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur til verkefna sem öll miða að því að efla íslenska tungu á tímum hraðra tæknibreytinga. Styrkirnir renna til fræðimanna og nemenda við Háskóla Íslands sem vinna að fjölbreyttum rannsóknum og verkefnum sem snúa að stöðu íslenskrar tungu í samtímanum. Þetta er í níunda skipti sem úthlutað er úr sjóðnum og nemur heildarupphæð styrkjanna rúmlega 8,5 milljónum króna.

Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2014 til minningar um Áslaugu Hafliðadóttur og foreldra hennar, þau Sesselju Eiríksdóttur og Hafliða Jón Hafliðason. Meginmarkmið sjóðsins er að efla íslenska tungu með styrkjum til sérverkefna á sviði íslenskra fræða.

Styrkjum var að þessu sinni úthlutað til eftirtalins fræðifólks og nemenda:

Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor emerita í annarsmálsfræðum við Mála- og menningardeild, Halldóra Jóhanna Þorláksdóttir, rannsóknamaður á Hugvísindasviði, og Þorgerður Anna Björnsdóttir, verkefnastjóri við Konfúsíusarstofnunina Norðurljós, fyrir verkefnabækurnar Vinir Ara, sjálfstætt ítarefni við kennsluvefinn Icelandic Online – Börn sem þróaður var við Háskóla Íslands. Bækurnar eru ætlaðar nemendum á síðasta ári leikskóla og í 1.-2. bekk grunnskóla, sem stuðningur við nám í íslensku sem öðru máli og íslensku. Með bókunum fá börn tækifæri til að fást við þær hliðar lestrar- og skriftarnáms sem ekki er hægt að þjóna í vefumhverfinu, einkum að draga til stafs og þjálfa skrift með hefðbundnum hætti. Með bókunum og kennsluvefnum er þannig skapað heildstætt námsefni þar sem bækur og kennsluvefur vinna saman.

Dóra Jóhannsdóttir, meistaranemi í ritlist við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, stofnandi Improv Ísland og Improv-skólans, fyrir tvíþætt verkefni. Spunahandbókin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og mikilvægt innlegg í íslenska sviðslistasenu og samfélag. Í handbókinni verður hugmyndafræði spunans útskýrð og hugtök þýdd á íslensku. Auk þess verða þar æfingar og aðferðir en markmið verkefnisins er að gera spunalistformið aðgengilegt sem flestum. Án handrits – viðbrögð við hinu óvænta er safn esseyja með hugleiðingum um lífið sem spuna þar sem það fyrirfinnst ekkert handrit. Spuni er settur í samhengi við persónulega reynslu höfundar ásamt hugmyndum úr sálfræði, heimspeki og fleiru. Í hugmyndafræði spunans eru verkfæri sem allir geta nýtt sér m.a. til að bæta hlustun og samskipti og auka sköpunarkraft í lífi og starfi. Bækurnar tvær eru sjálfstæð verk en verða unnar og gefnar út samhliða og vísa hvor í aðra.

Halla Hauksdóttir, meistaranemi í almennum málvísindum við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, fyrir verkefnið Sifjuð, örhlaðvarp um orðsifjar. Í þáttunum rýnir Halla í áhugaverð íslensk orð, rekur þau aftur til uppruna síns, lýsir myndun þeirra og hljóðfræði- og merkingarlegri þróun, fjallar um skyldleika þeirra við önnur orð í íslensku og á frændtungum o.s.frv. Orðin eru af ýmsum toga. Sum hafa verið í málinu frá upphafi en önnur eru tökuorð eða nýmyndanir. Þættirnir eru um 10-15 mínútur að lengd en rækileg heimildaöflun liggur að baki hverjum og einum. Við þáttaskrifin nýtir Halla sér það sem hún hefur lært í náminu og byggir umfjallanir á ýmiss konar ritum, s.s. orða- og orðsifjabókum, ritmálssöfnum, tímaritsgreinum og öðrum ritum um almenn málvísindi. Áhersla er lögð á að efni þáttanna sé á aðgengilegu og skýru máli og áheyrendur þurfa því einungis að vera forvitnir um orð og sögu þeirra til að hafa gagn og gaman af hlaðvarpinu.

Heimir F. Viðarsson, aðjunkt á Menntavísindasviði, hlýtur styrk fyrir hönd Íslenska málfræðifélagsins fyrir verkefnið „Bætt opið aðgengi að tímaritinu Íslenskt mál og almenn málfræði”. Markmið þess er að bæta aðgengi að ritrýndum fræðilegum greinum og öðru efni um íslenskt mál í tímaritinu Íslenskt mál og almenn málfræði sem Íslenska málfræðifélagið gefur út í samvinnu við Málvísindastofnun Háskóla Íslands. Tímaritið er mikilvægt fyrir málfræðilega umræðu hér á landi og er leiðandi afl bæði í því að efla og festa í sessi íslenskan íðorðaforða í málfræði. Fyrir utan almennt vísindalegt gildi bætts aðgengis að íslenskum málrannsóknum er gildi verkefnisins ekki síst hagnýtt. Tímaritið verður fært yfir í opið kerfi og efni þess gert aðgengilegt öllum lesendum og leitarbært í gegnum rafræna gagnagrunna og almennar leitarvélar. Verkefnið er í takt við nýlegar breytingar á fræðilegri tímaritsútgáfu þar sem sterk krafa er um að fræðimenn birti greinar og rannsóknarniðurstöður sínar í opnum aðgangi. Með verkefninu er ýmsum tæknilegum hindrunum rutt úr vegi til þess að fullkomið aðgengi til framtíðar sé tryggt.

Hera Fjölnisdóttir, meistaranemi í ritlist við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, fyrir hönd Blekfjelagsins, félags meistaranema í ritlist og meistaranema í hagnýtri ritstjórn og útgáfu við sömu deild. Styrkurinn verður nýttur til útgáfu á bókinni „Gestabók sagnasveigur“. Bókin er unnin á námskeiðinu „Á þrykk“, sem kennt er á framhaldsstigi við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Í ár gefa nemendur út smásagnasafn sem tengist innbyrðis í gegnum persónur og sameiginlegan breyskleika. Að gerð verksins koma þrír meistaranemar í ritstjórn og tíu meistaranemar í ritlist sem hafa samið eða ritstýrt sögunum. Smásagnasveigurinn Gestabók hverfist um veislu og gestina sem þangað koma, flestir að því er virðist fremur af skyldurækni en löngun. Þar er sagt frá kvöðinni sem boð í veislu getur verið en líka þessu undarlega samsafni fólks sem þar mætist. Fjölskyldubönd teygjast og trosna og sambönd flækjast og leysast upp. Í stutta stund er þetta fólk statt á sama stað og sama tíma en fyrir utan veisluhöldin heldur lífið áfram. Hlaðborðið er óþrjótandi og gestabókin fyllist smátt og smátt. Bókin kom út í maí hjá Króníku bókaútgáfu.

Jóhannes B. Sigtryggsson, rannsóknardósent á Árnastofnun, fyrir verkefnið Réttritunarheftið. Í heftinu verður lýst meginatriðum opinberrar stafsetningar og greinarmerkjasetningar en sumt í henni er nokkuð á reiki í almennri ritun. Þetta stutta hefti er sérstaklega ætlað nemendum í framhaldsskólum og háskólum. Fjallað verður um mikilvægustu og hagnýtustu atriðin í íslenskri stafsetningu og greinarmerkjasetningu og enn fremur breytingar tengdar aukinni ritun fólks, meðal annars á samfélagsmiðlum og áhrif ensku á stafsetningu. Áhersla verður lögð á að heftið verði hagnýtt og einfalt í notkun, ritað á skýru og einföldu máli og nýtist sem flestum. Í tengslum við verkefnið verða samdar kennsluleiðbeiningar fyrir kennara um notkun þess.

Jón Yngvi Jóhannsson, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, fyrir verkefnið „Íslenskukennsla í kennaranámi – ráðstefna og greinasafn“. Tilgangur verkefnisins er að safna saman þekkingu og reynslu þeirra háskólakennara sem kenna íslensku í kennaranámi við íslenska háskóla og miðla henni til starfandi kennara og kennaranema. Þetta verður gert í tvennu lagi, annars vegar með eins dags ráðstefnu sem haldin verður við Menntavísindasvið Háskóla Íslands á haustmisseri 2024 en einnig streymt í opnum aðgangi, hins vegar með útgáfu greinasafns um íslenskunám og -kennslu í kennaranámi sem kemur út árið 2025. Á ráðstefnunni og í greinasafninu verður fjallað um helstu þætti íslenskukennslu, bókmenntir, málfræði, ritun, læsi og íslensku sem annað mál, eins og þessir þættir snerta starf íslenskukennara. Væntanlegt greinasafn mun nýtast við kennslu kennaranema, bæði þeirra sem hyggjast sérhæfa sig í íslenskukennslu og annarra kennaranema. Þá mun það einnig nýtast íslenskukennurum í grunn- og framhaldsskólum.

Karítas Hrundar Pálsdóttir, doktor í ritlist, Sigríður D. Þorvaldsdóttir og María Anna Garðarsdóttir, aðjunktar í íslensku sem öðru máli við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, til verkefnis sem tengist verkunum Sögur á einföldu máli eftir Karítas. Sögurnar hafa hlotið góðar viðtökur og undirstrikað eftirspurn eftir bókmenntatextum handa málnemum með íslensku sem annað mál. Búnar verða til tvær hljóðbækur til að auka aðgengi málnema með íslensku sem annað mál að sögum á einföldu máli. Að hlusta á sögur og lesa þær um leið er námstækni sem hentar lesblindum en einnig þeim sem vilja fá betri tilfinningu fyrir því hvernig orð eru borin fram. Útgáfa hljóðbókanna mun styðja við hlustunaræfingar málnema, hvort tveggja innan og utan kennslustofunnar. Þá verður fenginn fjölbreyttur hópur lesara með tilliti til aldurs, kyns og uppruna til að leiklesa sögurnar en með því verður ljósi varpað á að íslenska er alls konar og fyrir alla. Gögn Þjóðskrár Íslands sýna að hlutfall innflytjenda hækkar í öllum landshlutum; verkefnið stuðlar að inngildingu þeirra og auknu læsi á íslensku og íslenska menningu.

Rósa Elín Davíðsdóttir, aðjunkt í frönsku við Háskóla Íslands og orðabókarritstjóri hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, fyrir lokaþátt í gerð íslensk-franskrar veforðabókar – Lexíu. Markmiðið með verkefninu er að bæta við upplýsingum um kyn franskra nafnorða sem koma fyrir sem jafnheiti í orðabókinni. Jafnframt verður kvenkynsmyndum franskra lýsingarorða og óreglulegum fleirtölumyndum bætt við. Lexía var unnin í samstarfi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, sem hefur umsjón með vinnu við markmálið frönsku, og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem mótaði gagnagrunninn og íslenska hluta verksins. Lexía samanstendur af 55 þúsund uppflettiorðum og fjölmörgum notkunardæmum og orðasamböndum sem öll eru þýdd á frönsku. Lexía var opnuð í júní 2021 og er öllum aðgengileg án endurgjalds á vefslóðinni lexia.hi.is og á vefsíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Viktor Árnason og Rafn Sigurðsson, meistaranemar í líffræði við Háskóla Íslands, fyrir verkefnið Íslensk heiti risaeðla – orðasafn um íslensk nöfn risaeðlutegunda. Slíkt orðasafn verður unnið í samvinnu við Árnastofnun og gert aðgengilegt almenningi í gegnum íðorðasafn stofnunarinnar.  Hingað til hefur ríkt töluverð óreiða í þýðingum á nöfnum tegunda og hópa risaeðla. Í verkefninu er leitast við að koma reglu á heitin og um leið skapa heildstæðan lista yfir risaeðlutegundir og -hópa. Þetta auðveldar hverjum þeim sem kann að vilja skrifa/þýða verk um risaeðlur eða einfaldlega læra um þær og gera þannig umfjöllunarefnið aðgengilegra íslenskum almenningi.  Ásamt því að gefa listann út í íðorðasafninu verður gerð tilraun til þess að birta hann með grein í íslenska vísindatímaritinu Náttúrufræðingurinn.

Nánar um Styrktarsjóð Áslaugar Hafliðadóttur
Áslaug Hafliðadóttir arfleiddi Háskóla Íslands að stórum hluta eigna sinna, samanlagt um 120 milljónum króna. Samkvæmt erfðaskrá Áslaugar skyldu fjármunirnir nýttir til að efla íslenska tungu og það skilyrði var sett að sjóðurinn yrði notaður til sérverkefna á sviði íslenskra fræða eða til stuðnings við þá sem leggja stund á íslensk fræði. Styrkir standa bæði starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands til boða, m.a. til rannsókna, þróunar, kennslu, þjálfunar, nýmæla eða kaupa á tækjum og búnaði sem falla að markmiðum sjóðsins. Í stofnskrá sjóðsins segir að sérstaklega skuli stutt við verkefni sem lúta að ritfærni og þjálfun nemenda á öllum fræðasviðum háskólans við beitingu íslensks máls og styrkja stöðu íslenskunnar í síbreytilegu tækniumhverfi.

Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Í stjórn sjóðsins sitja

  • Höskuldur Þráinsson, prófessor emeritus í íslensku nútímamáli
  • Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emerita í íslenskum nútímabókmenntun
  • Viðar Guðmundsson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið.

Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn háskólans. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is