Háskóli Íslands

Tólf doktorsnemar hljóta styrki

Tólf doktorsnemar við Háskóla Íslands fengu úthlutað vísindastyrkjum að upphæð 40 milljónir króna úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands. Úthlutun styrkjanna fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands 11. október sl. Um er að ræða aukaúthlutun í tilefni af aldarafmæli háskólans.

Rannsóknaverkefnin sem voru styrkt að þessu sinni snerta fjölmargar fræðigreinar, þar á meðal læknisfræði, líffræði, lyfjafræði, ensku, fjölmiðlafræði, uppeldis- og menntunarfræði, heimspeki, vélaverkfræði og eðlisfræði.

Sjö verkefni hljóta styrki til þriggja ára, tvö verkefni til tveggja ára og þrír styrkir eru veittir til doktorsnema sem ljúka rannsóknum á næsta ári. Fjórir styrkþeganna koma erlendis frá til doktorsnáms við Háskóla Íslands. Fyrr á árinu fengu 15 doktorsnemar styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands, að fjárhæð um 60 milljónir króna. Vegna góðrar ávöxtunar sjóðsins að undanförnu og í tilefni 100 ára afmælis Háskóla Íslands var ákveðið að úthluta úr honum 40 milljónum króna til viðbótar nú í október. Samanlagðir styrkir sjóðsins til doktorsnema við Háskóla Íslands á árinu nema því 100 milljónum króna sem ótvírætt kemur doktorsnemum við Háskóla Íslands og rannsóknarstarfi í íslensku samfélagi mjög til góða.

Þetta er í fimmta sinn sem styrkjum er úthlutað úr sjóðnum.

Um Háskólasjóð H/f Eimskipafélags Íslands

Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands var settur á laggirnar af Vestur-Íslendingum árið 1964 þegar þeir lögðu til hans hlutabréfaeign sína í Eimskipafélaginu. Hann var stofnaður til minningar um Vestur-Íslendinga og til að styðja við stúdenta til náms við Háskóla Íslands. Sjóðurinn er í vörslu Landsbankans og hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 2005. Það ár voru gerðar veigamiklar breytingar á fyrirkomulagi sjóðsins með það að markmiði að veita styrki til stúdenta í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum eftir þær breytingar fór fram árið 2006 og síðan hafa nærri 80 doktorsnemar í fjölmörgum fræðigreinum stundað rannsóknir og nám við Háskóla Íslands með stuðningi sjóðsins. Í úthlutunarreglum sjóðsins segir að þeir stúdentar geti sótt um styrki sem uppfylli inntökuskilyrði viðkomandi deildar í doktorsnám. Þetta á einnig við um fastráðna kennara eða sérfræðinga við Háskóla Íslands sem ráðnir eru á grundvelli hæfnisdóms og uppfylla kröfur sem gerðar eru til leiðbeinenda í formlegum viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands. Stjórn Háskólasjóðs H/f Eimskipafélags Íslands skipa Gunnar Helgi Hálfdanarson, formaður bankaráðs Landsbankans og er hann jafnframt formaður stjórnar sjóðsins, Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is