Háskóli Íslands

Tveir styrkir til doktorsnema í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum

Styrkur úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur afhentur við Háskóla Íslands í dag.

Í dag voru veittir tveir styrkir til doktorsnema í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur.  Styrkhafarnir eru Dr. Helga Gottfreðsdóttir, ljósmóðir og lektor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og doktorsneminn Þorbjörg Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og lektor við Háskólann á Akureyri.  Heildarupphæð styrksins nemur 750.000 krónum og er þetta í annað sinn sem er úthlutað úr sjóðnum. Hann var stofnaður við Háskóla Íslands í júní árið 2007.

Helga Gottfreðsdóttir lauk doktorsprófi frá HÍ í ágúst sl. og fjallar rannsóknarverkefni hennar um verðandi foreldra og ákvarðanatöku um fósturskimun.  Á síðustu árum hefur verðandi foreldrum staðið til boða fósturskimun í lok fyrsta þriðjungs meðgöngu. Markmið með slíkri skimun er að finna fóstur með auknar líkur á fráviki svo sem Downs heilkenni og gefa verðandi foreldrum þannig aukið val um áframhald meðgöngunnar. Tilboð um slíkar skimanir gerir auknar kröfur til fagfólks varðandi upplýsingagjöf og hefur áhrif á hvernig mæðravernd skuli  skipulögð. Rannsóknin beindist að því að  skoða þætti í umhverfi heilbrigðra kvenna og maka þeirra sem hafa áhrif á ákvarðanatöku þeirra um skimun. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa m.a. tilefni til að endurskoða þurfi aðgengi verðandi foreldra að upplýsingum og úrræðum sem auka möguleika þeirra til umræðu um skimunina.

Þorbjörg Jónsdóttir leggur stund á doktorsnám við HÍ. Markmið rannsóknar hennar er að kanna heilsutengd lífsgæði meðal Íslendinga og notkun á heilbrigðisþjónustu í tengslum við langvinna verki. Rannsóknin mun skoða einstaklinga með langvinna verki sem leita til heilbrigðisþjónustunnar. Reynsla  þeirra verður metin af samskiptum við fagaðila í heilbrigðisþjónustunni og reynsla af gagnsemi meðferðar verður skoðuð. Einnig verður skoðað í hve miklum mæli fólk leitar ekki til heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir langvinna verki og mögulegar ástæður fyrir því kannaðar.

Markmið Rannsóknasjóðs Ingibjargar R. Magnúsdóttur er að efla rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum.  Ingibjörg R. Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur og stofnandi sjóðsins, er fyrrverandi námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Ingibjörg hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og var hún ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973.

Frekari upplýsingar veitir Helga Garðarsdóttir verkefnisstjóri Rannsóknastofnunar í hjúkrunarfræði, helgagar@hi.is, 525-5280.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is