Háskóli Íslands

Um 300 milljónir króna til rannsókna doktorsnema

Þrjátíu og þremur styrkjum, samtals að fjárhæð 304 milljónir króna, var úthlutað til doktorsnema og vísindamanna í Hátíðasal Háskóla Íslands í dag. Styrkirnir verða nýttir til rannsókna á fjölbreyttum fræðasviðum.
 
Styrkirnir renna til rannsóknarverkefna í læknisfræði, félagsfræði, matvæla- og næringarfræði, hagfræði, sagnfræði, íslensku, sálfræði, uppeldis- og menntunarfræði, lyfjafræði, rafmagns- og tölvuverkfræði, jarðfræði, bókmenntafræði, eðlisfræði, efnafræði, umhverfis- og byggingarverkfræði,  tölvunarfræði og líffræði svo eitthvað sé nefnt.  
 
Fimm doktorsnemar hljóta styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands og 26 styrkhafar úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Sautján styrkhafanna úr Rannsóknasjóði eru doktorsnemar við Háskóla Íslands og níu eru vísindamenn sem nýta munu styrkina til að ráða til sín doktorsnema. Þá var veittur styrkur úr dánarbúi Ásrúnar Einarsdóttur til rannsókna á hvítblæði og styrkur frá Isavia til rannsóknar sem tengist flugstarfsemi. Af styrkþegunum 33 koma sjö erlendis frá til doktorsnáms við Háskóla Íslands.
 
Að þessu sinni bárust alls 157 umsóknir um doktorsstyrki úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands en markmið beggja sjóða er að efla háskólann sem alþjóðlegan rannsóknaháskóla.
 
Þetta er í sjöunda sinn sem úthlutað er úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands en sjóðurinn er í umsjá Landsbankans. Jafnframt er úthlutað úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands til doktorsnema og leiðbeinenda þeirra í sjöunda sinn en sjóðurinn hefur lagt sérstaka áherslu á eflingu doktorsnáms í samræmi við stefnu háskólans.
 
Uppbygging doktorsnámsins hefur átt ríkan þátt í þeirri velgengni sem Háskóli Íslands nýtur á alþjóðavettvangi og var staðfest er háskólinn komst í hóp 300 bestu háskóla heims samkvæmt matslista Times Higher Education World University Rankings árin 2011 og 2012. Öflugur rannsóknaháskóli er frumskilyrði þess að Íslendingar séu samkeppnisfærir á vettvangi vísinda, nýsköpunar og atvinnuþróunar í alþjóðlegu þekkingarsamfélagi.
 
Nánari upplýsingar um verkefnin sem fengu styrk í dag er að finna í upplýsingabæklingi um verkefnin.
 
Um Háskólasjóð H/f Eimskipafélags Íslands
Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands var settur á laggirnar af Vestur-Íslendingum árið 1964 þegar þeir lögðu til hans hlutabréfaeign sína í Eimskipafélaginu. Hann var stofnaður til minningar um Vestur-Íslendinga og til að styðja við stúdenta í rannsóknartengdu námi við Háskóla Íslands.
 
Fyrsta úthlutun úr sjóðnum í núverandi mynd fór fram árið 2006 og síðan hafa rúmlega hátt í hundrað doktorsnemar á sviðum verkfræði- og raunvísinda, hugvísinda, heilbrigðisvísinda, menntavísinda og félagsvísinda stundað rannsóknir og nám við Háskóla Íslands með stuðningi sjóðsins.  
 
Stjórn Háskólasjóðs H/f Eimskipafélags Íslands skipa Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans, Steinþór Pálsson bankastjóri og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.
 
Um Rannsóknasjóð Háskóla Íslands
Rannsóknasjóður Háskóla Íslands var stofnaður árið 1982 í þeim tilgangi að efla rannsóknastarfsemi við háskólann. Úr sjóðnum er úthlutað styrkjum til starfsmanna skólans, nýdoktora og doktorsnema auk ferðastyrkja til stúdenta í rannsóknanámi.
 
Vísindanefnd háskólaráðs fer með stjórn sjóðsins og er formaður nefndarinnar jafnframt formaður stjórnar sjóðsins. Vísindanefnd háskólaráðs skipa Guðrún Marteinsdóttir, prófessor á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, formaður, Ármann Jakobsson, prófessor á Hugvísindasviði (formaður vor 2013), Vilhjálmur Árnason, prófessor á Hugvísindasviði (varamaður vor 2013), Gylfi Magnússon, dósent á Félagsvísindasviði, Ingi Rúnar Eðvarðsson, prófessor á Félagsvísindasviði (varamaður vor 2013), Snorri Þór Sigurðsson, prófessor á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, Áslaug Geirsdóttir, prófessor á Verkfræði- og náttúruvísindasviði (varamaður vor 2013), Steinunn Gestsdóttir, dósent á Menntavísindasviði, Þórdís Kristmundsdóttir, prófessor á Heilbrigðisvísindasviði, og Erna Kristín Blöndal, doktorsnemi í lögfræði sem er fulltrúi stúdenta. Tómas Hafliðason, doktorsnemi í iðnaðarverkfræði, var varamaður hennar vorið 2013.
 
Styrkir bundnir sérstökum viðfangsefnum
Til viðbótar við almenna styrki er í fyrsta skipti úthlutað styrkjum sem bundnir eru sérstökum viðfangsefnum. Styrkirnir eru gjafir til Háskóla Íslands.
 
Annar styrkurinn er frá fyrirtækinu Isavia ohf.  sem lagði á síðasta ári 25 milljónir króna í sjóð sem Háskóli Íslands hyggst nýta til þess að styrkja stúdenta til vinnu við lokaverkefni í doktors- og meistaranámi sem tengjast flugi og flugtengdri starfsemi.  Auglýst var eftir umsóknum um styrk úr sjóðnum á liðnu ári og er þetta því í fyrsta sinn sem styrkur er veittur úr honum.
 
Hinn styrkurinn kemur úr dánarbúi Ásrúnar  Einarsdóttur (f. 1916 – d. 2005) en hún ánafnaði Háskóla Íslands 20% af andvirði íbúðar sinnar í erfðaskrá. Andvirði gjafarinnar er um 12 milljónir króna og skyldi féð renna til rannsókna á hvítblæði. Þetta er í fyrsta skipti sem veittur er styrkur af þessum toga við Háskóla Íslands en hann er til þriggja ára.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is