Toshizo Watanabe og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu á haustdögum stofnskrá nýs styrktarsjóðs við Háskólann. Watanabe-sjóðurinn veitir styrki til skiptináms í Japan og á Íslandi auk þess að stuðla að skiptum á vísindamönnum. Stofnframlag Watanabes til sjóðsins nemur þremur milljónum Bandaríkjadala.
Toshizo Watanabe er stofnandi Nikken-fyrirtækisins, sem hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. Á yngri árum ham hann við Brandeis-háskólann í Waltham í Massachusettes í Bandaríkjunum sem skiptinemi og kynntist þar Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Hann fékk styrk til námsferðarinnar og var ævinlega þakklátur þeim sem studdu hann til náms. Við undirritun stofnskrár sjóðsins sagðist hann hafa viljað gjalda fyrir aðstoðina með því að setja sjálfur á fót sjóð til að styrkja ungt fólk til náms erlendis. Hann hafi því haft samband við Geir, gamla skólabróður sinn, og lýst yfir áhuga á að stofna sjóð við íslenskan háskóla.
Við undirritun stofnskrárinnar varð Toshizo Watanabe og Geir Haarde tíðrætt um vináttuna og gildi hennar. Þeir slógu á létta strengi þegar þeir rifjuðu upp námsárin en þeir deildu meðal annars herbergi í einn vetur. Watanabe hafði á orði að Geir hefði aðeins bætt á sig pundum en Geir sagði glaðhlakkalega á móti að kolhárunum á Watanabe hefði eitthvað fækkað frá því á námsárunum.
Kristín Ingólfsdóttir rektor þakkaði Watanabe fyrir framlagið við undirritunina og sagði að sjóðurinn myndi veita fjölda nemenda og fræðimanna einstakt tækifæri til samstarfs við Japan.
Stjórn
Stjórn sjóðsins skipa þrír menn og er skipunartími stjórnar þrjú ár. Rektor Háskóla Íslands skipar formann sjóðsins. Hr. Toshizo „Tom“ Watanabe, eða fulltrúi afkomenda hans, og hr. Geir H. Haarde, eða fulltrúi afkomenda hans, skipa einn stjórnarmann hvor.
Í stjórn sjóðsins sitja:
Már Másson, prófessor í lyfjaefnafræði, sem jafnframt er formaður stjórnar, mmasson@hi.is.
Ingimundur Sigfússon, is@thingeyrar.is.
Toshizo „Tom“ Watanabe, stofnandi sjóðsins.