Í gær voru veittir tólf styrkir til afburðanemenda sem hefja nám í Háskóla Íslands næsta haust. Um er að ræða styrki til nemenda sem náð hafa framúrskarandi árangri á stúdentsprófi og innritast í Háskóla Íslands. Hver styrkur nemur 300.000 krónum auk niðurfellingar skráningargjalds, sem er 45.000 krónur. Styrkirnir voru afhentir á Háskólatorgi við hátíðlega athöfn.
Þetta er í þriðja sinn sem styrkir eru veittir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands en sjóðurinn var stofnaður árið 2008 og er markmið hans að styrkja nýnema til náms við Háskóla Íslands. Styrkirnir í ár eru veittir með stuðningi Happdrættis Háskóla Íslands.
Alls bárust 69 umsóknir um þá tíu styrki sem auglýstir voru til umsóknar. Samkeppnin var hörð þar sem um mjög marga framúrskarandi nemendur var að ræða. Í ljósi þess ákvað Háskóli Íslands að fjölga styrkjunum í tólf. Af þeim tólf styrkhöfum sem hljóta styrk úr sjóðnum í ár eru sex dúxar og tveir semidúxar. Það er mikill fengur að því fyrir Háskóla Íslands að fá svo góða nemendur í sínar raðir.
Við val á styrkhöfum var litið til afburðaárangurs á stúdentsprófi en einnig voru lögð til grundvallar sjónarmið um virkni stúdents í félagsstörfum í framhaldsskóla auk árangurs á öðrum sviðum, svo sem listum eða íþróttum. Stjórnina skipa Þórdís Kristmundsdóttir formaður, Róbert Haraldsson og Sæunn Stefánsdóttir.
Þeir tólf nemendur sem valdir voru úr glæsilegum hópi umsækjenda koma úr sex framhaldsskólum, sækjast eftir inngöngu í tíu ólíkar námsleiðir og eru styrkhafarnir fjórir karlar og átta konur.
Styrkhafarnir eru: Anna Marzellíusardóttir, sem hefur nám í líffræði, Árni Freyr Snorrason, sem hefur nám í vélaverkfræði, Árni Johnsen, sem hefur nám í eðlisfræði, Elín Ásta Ólafsdóttir, sem hefur nám í umhverfis- og byggingarverkfræði, Elín Björk Böðvarsdóttir, sem hefur nám í stærðfræði, Erna Björg Sverrisdóttir, sem hefur nám í hagfræði, Erna Jónsdóttir, sem hefur nám í jarðfræði, Guðmundur Kári Stefánsson, sem hefur nám í eðlisfræði, Halldís S. Thoroddsen, sem hefur nám í efnaverkfræði, Heimir Þórisson, sem hefur nám í rafmagns- og tölvunarfræði, Helga Kristín Ólafsdóttir, sem hefur nám í stærðfræði með áherslu á tölvunarfræði og Iris Edda Nowenstein Mathey, sem hefur nám í almennum málvísindum.