Háskóli Íslands

Verðlaunaður fyrir afburðaárangur í verkfræði við Háskóla Íslands

Trausti Lúkas Adamsson, BS-nemi á þriðja ári í vélaverkfræði við Háskóla Íslands, hefur hlotið styrk úr Minningarsjóði Þorvalds Finnbogasonar stúdents. Frú Vigdís Finnbogadóttir, systir Þorvalds, afhenti styrkinn.

Sjóðurinn styrkir árlega efnilega nema í verkfræði við Háskóla Íslands til framhaldsnáms. Sá nemandi sem er með hæstu meðaleinkunn eftir annað ár í grunnnámi hlýtur styrkinn hverju sinni. 

Trausti Lúkas lauk stúdentsprófi af raungreinabraut Menntaskólans á Akureyri árið 2021 og var jafnframt dúx skólans. Hann hóf nám við Háskóla Íslands sama ár og hlaut styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands sem veittur er nýnemum sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs. Trausti Lúkas tilheyrði Team Spark, kappakstursliði HÍ árið 2022-2023, og tók þá í hönnun og smíði á rafknúna kappakstursbílnum TS-23 Silfra. Hann stefnir á framhaldsnám í vélaverkfræði.

Vigdís segir hér frá Þorvaldi, bróður sínum, og sjóðnum og ræðir einnig um brautryðjendastarf föður síns í verkfræði við Háskóla Íslands.

https://youtu.be/VfhKBaSnXJs

Minningarsjóður Þorvalds Finnbogasonar stúdents var stofnaður af foreldrum hans, Sigríði Eiríksdóttur og Finnboga Rúti Þorvaldssyni, fyrrverandi forseta verkfræðideildar Háskóla Íslands. Árlega er veitt viðurkenning úr sjóðnum til afburðanemanda í verkfræði við Háskóla Íslands. Sjóðurinn var stofnaður á 21 árs afmæli Þorvalds, þann 21. desember 1952.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is