Háskóli Íslands

Verðlaunuð fyrir framúrskarandi námsárangur í heilsugæsluhjúkrun

Kristín Georgsdóttir, hjúkrnarfræðinemi við Háskóla Íslands, hlaut á dögunum viðurkenningu úr Minningarsjóði Guðrúnar Marteinsdóttur fyrir framúrskarandi námsárangur í heilsugæsluhjúkrun í BS-námi. Kristín hlaut meðal annars meðaleinkunnina 9 í námskeiði um heilsugæsluhjúkrun. Þetta er í fyrsta skipti sem úthlutað er úr sjóðnum.

Úthlutunin fór fram á ráðstefnunni „Hjúkrun í fararbroddi“ sem Rannsóknastofnun í hjúkrunarfræði (RSH) stóð fyrir í Stakkahlíð þann 15. janúar sl. Ráðstefnan var tileinkuð Guðrúnu Marteinsdóttur, fyrrverandi dósent við námsbraut í hjúkrunarfræði og einum af fyrstu fastráðnu kennurum námsbrautarinnar. Guðrún kenndi heilsugæsluhjúkrun og stjórnun og var frumkvöðull meðal íslenskra hjúkrunarfræðinga á sviði heilsugæslu- og fjölskylduhjúkrunar. Guðrún var í doktorsnámi við Háskólann á Rhode Island, þar sem hún vann að rannsókn um áhugahvöt meðal kvenna til líkamsþjálfunar, þegar hún lést árið 1994.

Minningarsjóður Guðrúnar Marteinsdóttur var stofnaður árið 2004.  Skólasystur, starfsfélagar við námsbraut í hjúkrunarfræði og aðrir hjúkrunarfræðingar sem átt höfðu samstarf við hana stofnuðu minningarsjóðinn í þakklætis- og virðingarskyni við hana fyrir brautryðjendastörf í þágu hjúkrunarmenntunar á Íslandi. Tilgangur sjóðsins er að veita nýútskrifuðum hjúkrunarfræðingum viðurkenningu fyrir góðan námsárangur á sviði heilsugæslu, að styrkja hjúkunarfræðinga til framhaldsnáms og að styðja börn Guðrúnar til 25 ára aldurs.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Þeir starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is