Úthlutað var í fjórða skipti úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar, 27. febrúar 2007.
Viðar Eðvarðsson barnalæknir við Landspítala – háskólasjúkrahús hefur hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar læknis fyrir rannsóknir á steinsjúkdómi í nýrum. Viðar Eðvarðsson hefur undanfarin ár leitt rannsóknir á steinsjúkdómi í nýrum (nýrnasteinar) bæði hjá börnum og fullorðnum. Megináherslan hefur verið á faraldsfræði sjúkdómsins, þekktum efnaskiptaáhættuþáttum og ættlægni. Á síðustu fjórum árum hefur verið safnað upplýsingum um liðlega 6000 Íslendinga, sem greinst hafa með nýrnasteina allt frá árinu 1984. Rannsóknir Viðars benda til að algengi nýrnasteina í fullorðnum Íslendingum sé svipað og gerist í öðrum vestrænum samfélögum en nýgengi sjúkdómsins sé hátt í íslenskum börnum, þegar miðað er við sambærilegar erlendar rannsóknir. Rannsóknir Viðars og félaga benda einnig til þess að myndun nýrnasteina sé ættlæg. Athyglisvert er að algengi vandamálsins virðist hafa aukist umtalsvert hér á landi síðustu 20-25 árin.
Rannsóknir á nýrnasteinum hafa verið unnar af hópi vísindamanna á Landspítala – háskólasjúkrahúsi en í honum eru auk Viðars, Runólfur Pálsson, yfirlæknir nýrnalækninga á LSH og Ólafur Skúli Indriðason, sérfræðingur í nýrnalækningum. Niðurstöður rannsóknanna hafa verið birtar í ritrýndum erlendum tímaritum í læknisfræði auk þess sem þær hafa verið kynntar á innlendum og erlendum ráðstefnum í læknisfræði. Íslenski rannsóknarhópurinn hefur stofnað til formlegs samstarfs um rannsóknir á erfðafræði nýrnasteina við bandaríska vísindamenn sem þekktir eru fyrir rannsóknir sínar á steinsjúkdómi í nýrum, erfðafræði og erfðatölfræði.
Viðar Eðvarðsson er fæddur á Akureyri árið 1961. Hann stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri og brautskráðist frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1987. Hann lauk sérfræðinámi í almennum barnalækninum frá Medical College of Georgia árið 1992 og síðan í nýrnalækningum barna frá St. Christopher´s Hospital for Children Temple University School of Medicine árið 1995. Viðar hefur lokið bandarískum sérfræðiprófum í almennum barnalækningum og nýrnalækningum barna. Viðar starfar sem sérfræðingur í barnalækningum og nýrnalækningum barna og er gæðastjóri lækninga við Barnaspítala Hringsins, auk þess sem hann er umsjónarlæknir nýrnaígræðslu á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og stundakennari við Læknadeild og Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Eiginkona Viðars er Guðlaug Þorsteinsdóttir geðlæknir.
Viðar er þriðji verðlaunahafi Sjóðs Óskars Þórðarsonar barnalæknis en sjóðinn stofnaði Bent Scheving Thorsteinsson árið 2000 með veglegri peningagjöf til minningar um Óskar, fóstra sinn. Sjóðurinn er í vörslu Háskóla Íslands og er ætlað að veita viðurkenningu fyrir vísindaleg afrek á sviði barnalækninga, s.s. rannsóknir, ritgerðir og skyld verkefni. Rektor Háskóla Íslands ákveður úthlutun hverju sinni að höfðu samráði við forseta Læknadeildar skólans. Áður hafa hlotið viðurkenningu úr sjóðnum Hákon Hákonarson, sérfræðingur í lungnalækningum fyrir rannsóknir á astma og Sigurður Kristjánsson sérfræðingur í ofnæmis- og ónæmisfræði barna fyrir rannsóknir á kvefveirum.
Óskar Þórðarson barnalæknir brautskráðist frá Læknadeild Háskóla Íslands 1927, lærði fæðingahjálp í Danmörku 1927 og stundaði sérnám í barnalækningum í Austurríki og Þýskalandi á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Hann stofnaði læknastofu í Reykjavík árið 1930 og rak hana til dauðadags árið 1958. Samhliða var Óskar skólalæknir Austurbæjarskólans og Laugarnesskólans, læknir barnaheimilis Sumargjafar og eftirlitslæknir við barnaheimili Reykjavíkur. Óskar kvæntist Guðrúnu Sveinsdóttur frá Hrauni á Skaga, móður Bents, stofnanda verðlaunasjóðsins, árið 1928.
Nánari upplýsingar um Verðlaunasjóð Óskars Þórðarsonar læknis, verðlaunaafhendinguna og aðra sjóði í vörslu styrktarsjóða Háskóla Íslands veitir Helga Brá Árnadóttir verkefnisstjóri, helgab@hi.is, sími 525 5894 / 899 8719.