Fjórir doktorsnemar við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, þau Anna Bryndís Blöndal, Ása Bryndís Guðmundsdóttir, Natalia Magdalena Pich og Zoltán Fülöp, hafa hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala. Rannsóknir þeirra snúa að þjónustu lyfjafræðinga í samstarfi við heilsugæslu, leit að nýjum lyfjasprotum og aðferðum til að gera krabbameinslyfjameðferðir markvissari. Þetta er í áttunda sinn sem doktorsnemum í lyfjafræði og/eða lyfjavísindum við Háskóla Íslands er veitt viðurkenning úr sjóðnum fyrir framúrskarandi rannsóknir. Heildarupphæð styrksins er 1.400.000 krónur og hlýtur hver styrkhafi 350.000 krónur.
Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala er ætlað að styrkja vísindaleg afrek á sviði lyfjafræði og rannsóknir og framhaldsnám í faginu. Sjóðurinn hefur stutt við kraftmikla uppbyggingu doktorsnáms í lyfjafræði við háskólann og gert nemendum kleift að kynna rannsóknir sínar erlendis og taka þátt í erlendu rannsóknasamstarfi.
Doktorsverkefni Önnu Bryndísar Blöndal (abb26@hi.is): Verkefnið miðar af því að rannsaka hvernig lyfjafræðilegri umsjá sé best komið fyrir í heilsugæslu á Íslandi. Lyfjafræðileg umsjá er þjónusta sem lyfjafræðingur veitir sjúklingi. Þjónustan felst í því að lyfjafræðingur skilgreinir markmið lyfjanotkunar með sjúklingi og leitar bestu leiða til að ná þeim markmiðum. Þetta gerir hann með því að fara yfir alla lyfjanotkun sjúklinga með það fyrir augum að öðlast yfirsýn yfir virk efni hvers lyfs, samverkanir þeirra, gagn- og aukaverkanir. Í þessu verkefni er í fyrsta skipti notað svokallað starfendarannsóknasnið (e. Action Research) til að rannsaka hvernig best megi koma slíkri þjónustu fyrir í heilsugæslu. Bæði eru notaðar megindlegar (e. Quantitative) og eigindlegar (e. Qualitative) rannsóknaraðferðir. Gert er megindlegt lýsandi yfirlit yfir lyfjatengd vandamál sjúklinga og þær úrlausnir sem lyfjafræðingur kemur með. Í eigindlega hluta rannsóknarinnar eru tekin viðtöl við heimilislækna milli þess sem ólíkar útfærslur tengdar verklagi og þjónustu eru prófaðar (s.s. mismunandi samskiptahættir milli lyfjafræðings, læknis og sjúklings). Þegar lyfjafræðingur hefur tekið viðtal við sjúkling og veitt honum lyfjafræðilega umsjá sendir hann skýrslu til heimilislæknis viðkomandi og kemur með hugmyndir að breytingum. Læknir tekur síðan ákvörðun í samráði við sjúkling um þær breytingar sem lyfjafræðingur lagði til. Rannsóknin er unnin í samstarfi við heimilislækna á Heilsugæslunni í Garðabæ. Anna Bryndís Blöndal útskrifaðist sem lyfjafræðingur frá Háskóla Íslands árið 2006. Hún hóf doktorsnám við Háskóla Íslands haustið 2012 undir leiðsögn Önnu Birnu Almarsdóttur og Sveinbjörns Gizurarsonar prófessora.
Doktorsverkni Ásu Bryndísar Guðmundsdóttur (abg3@hi.is): Tilgangur doktorsverkefnisins er að rannsaka hvort sjávarhryggleysingjar við Íslandsstrendur hafi að geyma áður óþekkt ónæmisstýrandi efnasambönd sem gætu reynst áhugaverð til lyfjaþróunar. Ísland er staðsett á einstökum stað í Norður-Atlantshafi og líffræðilegur fjölbreytileiki í hafinu í kringum landið hefur nánast ekkert verið rannsakaður m.t.t. efnainnihalds lífvera. Sérstaða lífríkis á hafsvæði Íslands er ekki hvað síst vegna kaldra strauma úr Norður-Atlantshafi og jarðhitasvæða á hafsbotni. Áhersla verður lögð á rannsóknir á sjávarhryggleysingjum sem hafa mjúkt yfirborð, t.d. svampa, því þeir eru líklegir til þess að stunda efnahernað sér til varnar. Efni verða dregin út úr sjávarhryggleysingjunum og kannað hvort þau hafi áhrif á ónæmissvör með því að bæta þeim út í ræktir af angafrumum sem eru sýnifrumur ónæmiskerfisins. Útdrættir sem hafa ónæmisstýrandi áhrif á angafrumurnar verða rannsakaðir nánar, m.a. með því að samrækta angafrumur og aðrar frumur ónæmiskerfisins, svokallaðar Tfrumur. Auk þess verður lífvirknin notuð til að að einangra virk innihaldsefni. Ása Bryndís lauk meistaraprófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 2011. Hún hóf doktorsnám sama ár við skólann undir leiðsögn Sesselju Ómarsdóttur dósents og Jónu Freysdóttur prófessors.
Doktorsverkefni Nataliu Magdalenu Pich (nmp@hi.is): Í rannsókninni verður leitast við að finna náttúruefni með virkni gegn taugahrörnunarsjúkdómum. Alzheimers-sjúkdómur (AD) er algengasta form taugahrörnunarsjúkdóma sem hrjáir fólk eldra en 65 ára. Sjúkdómurinn er margþættur og ekki vitað nákvæmlega hvað veldur honum, sem gerir leit að nýjum lyfjum gegn honum erfiðari. Þau lyf sem viðurkennd eru gegn AD í dag auka magn boðefnisins asetýlkólíns í heila með því að hindra virkni ensímsins asetýlkólínesterasa (AChE). Þau geta dregið úr einkennum sjúkdómsins en stöðva ekki framgang hans. Mikil þörf er fyrir ný og betri lyf sem hafa fjölþættari verkun. Markmið rannsóknarinnar er að finna ný lífvirk efni sem hafa tviþætta verkun, þ.e.a.s. eru hindrar á AChE og einnig allosterískir örvar á α7-nikótínviðtaka, sem hvoru tveggja getur dregið úr taugahrörnun. Gagnagrunnur náttúruefna, að viðbættum efnum sem hafa verið einangruð úr íslensku lágplöntunum lyngjafna og skollafingri, verður skimaður fyrir þessari tvíþættu verkun með hjálp sérhannaðra tölvulíkana. Efni sem gefa lofandi niðurstöður verða síðan lífvirkniprófuð í þeim tilgangi að finna lofandi lyfjasprota til frekari rannsókna. Natalia Magdalena lauk meistaraprófi í efnafræði árið 2010 frá Tækniháskólanum í Rzeszow í Póllandi. Hún hóf dokorsnám við Háskóla Íslands árið 2011 undir leiðsögn Elínar Soffíu Ólafsdóttur prófessors.
Doktorsverkefni Zoltán Fülöp (zof1@hi.is): Markmið rannsóknarverkefnisins er að mynda sýklódextrínlyfjaferjur fyrir krabbameinslyf eins og doxorúbícín. Tvær aðferðir hafa verið rannsakaðar en þær byggjast báðar á hópun sameinda og myndun nanóagna. Í annarri eru lyf fléttuð við sýklódextrínfjölliður og fjölliðurnar látnar mynda stöðugar nanóagnir með hjálp svokallaðra admantanfjölliða, en admantan myndar mjög stöðugar fléttur með β-sýklódextríni. Í hinni aðferðinni eru nanóagnir myndaðar með hleðslutengingu neikvætt hlaðinna súlfóbútyleter β-sýklódextrínsameinda við jákvætt hlaðnar kítósanfölliður. Sýklódextínið og fjölliðan mynda svokallað hleðsluhlaup (e. ionotropic gel), þ.e. örsmár hlaupmyndanir (e. nanogel) sem virka sem lyfjaferjur. Krabbameinslyfjum er komið fyrir í nanóögnunum sem ferja lyfin að krabbameinsfrumum í líkamanum þar sem þær láta frá sér lyfið. Lyfjaferjunum er ætlað að draga úr aukaverkunum krabbameinslyfja og auka virkni þeirra með því að beina lyfjunum á þann stað í líkamanum þar sem þeirra er þörf, þ.e. gera lyfjameðferðina markvissari. Zoltán útskrifaðist frá Budapest University of Technology and Economics (BME/BUTE) í ársbyrjun 2011 sem efnaverkfræðingur með lyfjatæknifræði sem sérgrein. Hann hóf doktorsnám í lyfjavísindum við Háskóla Íslands vorið 2011 undir handleiðslu Þorsteins Loftssonar prófessors.
Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði Verðlaunasjóð Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar í maí árið 2001 til minningar um föður sinn, Þorstein Scheving Thorsteinsson, lyfsala í Reykjavíkurapóteki, og eiginkonu hans, Bergþóru Patursson. Í desember 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Eigið fé sjóðsins er þá orðið um 20 milljónir króna en samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með stofnun þriggja sjóða sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Hinir sjóðirnir tveir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, sem hefur það að markmiði að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar, sem ætlað er að styðja við rannsóknir á einelti.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar, allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
Nánari upplýsingar um Verðlaunasjóð Bergþóru og Þorsteins, styrkþega og aðra sjóði í vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands veitir Helga Brá Árnadóttir, verkefnisstjóri styrktarsjóða og hollvina, helgab@hi.is, sími 899-8719. Nánari upplýsingar um Lyfjafræðideild Háskóla Íslands veitir Sigrún Sigurðardóttir deildarstjóri, sigrunsi@hi.is, sími 525-4353.