Háskóli Íslands

Að lifa við óblíða náttúru

Ragnar Sigbjörnsson, prófessor í Umhverfis- og byggingarverkfræðideild

„Við vorum heppin að það urðu engin alvarleg slys og enginn lést þegar jarðskjálftinn reið yfir í vor. Þetta segir Ragnar Sigbjörnsson, prófessor í jarðskjálftaverkfræði, en hann stendur nú fyrir rannsókn á jarðskjálftanum í Ölfusi þann 29. maí 2008. Rannsóknin er víðtæk og byggist á þeim áhrifum sem jarðskjálftinn hafði annars vegar á mannvirki og tæknikerfi og hins vegar á mannfólkið og samfélagið og hvernig þetta tengist saman.

„Það er áhugavert að skoða þau tengsl sem við fáum með gögnunum milli mældrar hreyfingar jarðskjálftans, áhrifanna og skemmdanna og síðan því hvernig fólkinu reiðir af. Ragnar vinnur rannsóknina ásamt fjölmennu rannsóknarteymi og hafa þau séð margt sem vekur þau til umhugsunar. Hann segir: „Í einu tilfelli datt hilla á rúm þar sem barn lá og tilviljun ein réð því að barnið lenti í holrúmi og slapp án líkamlegra meiðsla." Misjafnt er hvernig fólk upplifir jarðskjálfta, segir Ragnar.

Það er t.d. munur á því hvernig kynin upplifa jarðskjálfta og komið hefur í ljós með mælingum að það er tölfræðilega marktækur munur á kynjunum að þessu leyti. „Það virðist vera þannig að konur taki áfallið meira inn á sig en karlar en ég tel líklegra að konurnar meti áhrifin réttar en karlarnir. Konurnar tjá atburðina nákvæmar en karlarnir og þeir hafa frekar tilhneigingu til þess að draga úr," segir Ragnar. Þýðingarmikill þáttur rannsóknarinnar beinist að tæknikerfum samfélagsins, svo sem veitum fyrir heitt og kalt vatn, rafmagnsveitum og samgöngu- og fjarskiptakerfum.

Í nútímasamfélagi eru þessi tæknikerfi orðin svo gríðarlega mikilvæg að segja má að samfélagið sé orðið auðsæranlegra, viðkvæmara, en áður var. Þannig getur allt samfélagið lamast ef fólk hefur til dæmis ekki aðgang að neysluvatni eða ef það verður rafmagnslaust. Ragnar og rannsóknarteymi hans hafa líka skoðað hvað hefur farið vel og að hvaða leyti við vorum vel búin undir jarðskjálftann. Tilgangur rannsóknarinnar er að meta umfang og áhrif jarðskjálftans og setja fram stærðfræðileg líkön sem hægt er að nota til þess að segja fyrir um skemmdir og tjón á mannvirkjum og meta áhættu. Þessi líkön nýtast síðan við hönnun, skipulag og viðhald mannvirkja með það að markmiði að halda áhættu í lágmarki.

Starf Ragnars, sem er verkfræðingur að mennt, snýst því um að móta hið manngerða umhverfi og reyna þannig að hjálpa okkur að lifa við hina óblíðu náttúru. Þá reynir á að rýna í framtíðina og leitast við að sjá fyrir hvað er líklegt að gerist og taka mið af því. Til að geta gert slíkt þarf sem nákvæmastar mælingar á því sem gerst hefur í fortíðinni.

Rannsóknasjóður hefur styrkt verkefnið.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is