Háskóli Íslands

Arðsemi vegbygginga hámörkuð vegna endalausrar forvitni

Þorbjörg Sævarsdóttir, doktorsnemi í verkfræði

„Rannsóknin er hluti af doktorsverkefni sem ber titilinn „Þolhönnun vega á norðurslóðum“. Í rannsókninni er ný aflfræðileg hönnunaraðferð þróðuð og síðan beitt með áherslu á norðlægar, þar með talið íslenskar aðstæður, hvað varðar efnisframboð, veðurfar og annað álag. Aðferðin skal sýna niðurbrot/hrörnun einstakra laga vegbyggingarinnar með tíma, meta ávinning og kostnað varðandi notkun nagladekkja, hámarksþyngd öxulþunga og tegund vegagerðarefnis sem og meta áhrif breytts veðurfars. Með aðferðinni er því hægt að hámarka arðsemi vegbygginga,“ segir Þorbjörg. Hún vinnur rannsóknina ásamt leiðbeinanda sínum, Sigurði Erlingssyni, prófessor í verkfræðideild HÍ en verkefnið hlaut nýlega 3,5 milljóna styrk úr Menningar- og framfarasjóði Ludvigs Storr.

„Aðferðir við burðarþolshönnun vega hafa til langs tíma byggt á reynslu, þær eru einfaldar en takmarkaðar og niðurstöðurnar einhæfar. Nýjar og hagkvæmar aflfræðilegar hönnunaraðferðir hafa verið í þróun. Helsti veikleiki þeirra er takmörkuð þekking á áhrifum ýmissa umhverfisþátta eins og hitastigs, frosts/þíðu og raka á efniseiginleika vegarins og tengsl niðurbrots við umhverfisþættina. En þessir þættir skipta miklu máli á norðurslóðum.“ Þorbjörg segist hafa valið viðfangsefnið vegna endalausrar forvitni sinnar. Aðspurð um gildi rannsóknarinnar segir hún að afraksturinn felist í nýrri hönnunaraðferð við hönnun vegsniða, „þar sem hönnuðir geta valið mismunandi gerðir vegsniða og skoðað frammistöðu þeirra sem fall af tíma. Hönnuður getur þá: 1) notað betri efni og haldið lagþykktum þynnri eða notað veikari efni og þá aukið lagþykktir, hönnuður getur bestað valið á efnum og lagþykktum, 2) gert áætlanir um viðhald og endurbyggingar og 3) metið áhrif breytts veðurfars á hrörnun vega. Með þessu verður því hægt að skoða heildarkostnað veghaldara við gerð, viðhald og rekstur vega (Life Cycle Analysis).“

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is