Háskóli Íslands

Bætt lífskjör með betri gervihnjálið

Ketill Heiðar Guðmundsson, doktorsnemi við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild

Mig langaði að auka burðargetu hnésins án þess að fórna sveigjanleikanum. Markmiðið var að fækka takmörkunum á notkun hnésins og jafnframt að þyngri sjúklingar geti notað hnén við nýjar og krefjandi aðstæður," segir Ketill Heiðar Guðmundsson, doktorsnemi við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild. Forsagan er sú að Össur hf. setti á markað örtölvustýrðan gervihnjálið sem eykur lífsgæði fatlaðs fólks til muna. Notuð er gervigreind til að skynja hreyfingar og göngulag notandans. Í hnjáliðnum er rafsegulvökvi sem stýrir stífni hnjáliðarins með segulsviði.

Ketill segir að verkefnið sitt snúist um að hanna segulrás, vökvahólf og vökva hnjáliðarins. Segulrásin hefur verið hönnuð nákvæmlega fyrir þann vökva sem hnjáliðurinn inniheldur. Styrk hnjáliðarins má einnig auka með breytingum á rafsegulvökvanum. Í verkefninu felst að leita leiða til að auka styrk rafsegulvökvans með því að breyta samsetningu hans. Margar leiðir eru færar í breytingu á vökvanum og er þetta svið mikið rannsakað í dag. Prófaðar hafa verið ýmsar gerðir af rafsegulvökvum sem blandaðir hafa verið í samstarfi við Össur hf. Í stuttu máli þá stífnar vökvinn undir segulsviði og er markmiðið að hafa stífnina sem mesta en jafnframt að vökvinn sé ekki seigur þegar segulsviðið er tekið af.

Markmið verkefnisins er einnig að minnka stífni hnjáliðarins þegar hann er ekki undir álagi en þá dregur örtölva hnésins niður segulsviðið. Með minni seigju (án segulsviðs) verður gervihnéð þægilegra og liprara fyrir notendur.

Leiðbeinandi: Fjóla Jónsdóttir, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild. 

Ketill hlaut doktorsnemastyrk úr Rannsóknasjóði 2007.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is