Háskóli Íslands

Börn af erlendum uppruna oftar gerendur og þolendur í einelti

Eyrún María Rúnarsdóttir, stundakennari við Uppeldis- og menntunarfræðideild

„Ungmenni af erlendum uppruna njóta síður jákvæðra tengsla við félaga og vini en innfædd ungmenni og eiga erfitt með að eignast innlenda vini, jafnvel þegar þau hafa náð tökum á nýja tungumálinu. Jafnframt er viðurkennt að vinir geta gegnt lykilhlutverki í lífi þessa hóps þegar foreldrar hafa síður möguleika á að styðja börnin við flutning milli landa,“ segir Eyrún María Rúnarsdóttir, stundakennari í uppeldis- og menntunarfræði. Hún leggur stund á doktorsrnám í fjarnámi við Leiden-háskóla í Hollandi og verður gögnum alfarið safnað hérlendis.

Eyrún María vinnur að doktorsrannsókn á félagasamskiptum og einelti meðal barna og unglinga af erlendum uppruna hér á landi. Hún segir félaga- og vináttutengsl ungmenna af erlendum uppruna ekki hafa hlotið réttmæta athygli hvorki í innlendum né erlendum rannsóknum og þótti ástæða til að bæta þar úr. „Niðurstöður rannsóknarinnar hafa ótvíræða fræðilega og hagnýta þýðingu. Þeim er ætlað að bæta úr skorti á fræðilegri þekkingu og skilningi á efninu ásamt því að benda á hvernig bæta má skilyrði ungmenna af erlendum uppruna til að tengjast nýjum félögum,“ segir Eyrún María.

Rannsóknarverkefnið Eyrúnar Maríu beinist að hlutverki vina og félaga í aðlögun barna og unglinga af erlendum uppruna að íslensku samfélagi. Í fyrsta hluta þess fer fram greining á fyrirliggjandi gögnum úr landskönnuninni Heilsa og lífskjör skólanema (HBSC) sem lögð var fyrir nemendur í 6., 8. og 10. bekk skólaárið 2009-2010. Niðurstöður hennar sýna að lífsánægja og líðan er síðri meðal innflytjendabarna en íslenskra jafnaldra þeirra.

Eyrún María hlaut styrk úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Scheving Thorsteinssonar til að vinna þann hluta rannsóknarinnar sem felst í að dýpka skilning á vina- og félagasamskiptum sem innflytjendabörn eru þátttakendur í og útskýra hvað verður til þess að þau eru frekar fórnarlömb eineltis en íslenskir félagar þeirra.

„Frekari vinna úr þessum gögnum fer nú fram þar sem skoðuð eru tengsl bakgrunnsþátta og stuðnings í umhverfi barna við lífsánægju og vanlíðan. Niðurstöður voru kynntar á Þjóðarspeglinum, ráðstefnu á vegum Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, í október 2013 og á morgunverðarfundi um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í nóvember. Lífsánægja og vanlíðan barna af pólskum, asískum og vestur-evrópskum uppruna var borin saman við ánægju og líðan íslenskra barna  og helstu niðurstöður eru þær að allir hópar barna af erlendum uppruna upplifðu síðri lífsánægju en íslensk börn, og asískum og vestur-evrópskum leið verst,“ segir Eyrún María.

Að sögn Eyrúnar Maríu hefur komið fram að börnum af asískum uppruna farnast síst í samfélaginu og þau upplifa einnig minni stuðning frá foreldrum og vinum og neikvæðari bekkjaranda en íslensk börn. „Aldur, kyn, fjölskyldugerð, atvinnustaða foreldra og efnahagsstaða skýrði nokkuð lífsánægju og líðan barna af erlendum uppruna og upphaflegur munur á lífsánægju pólskra og íslenskra barna skýrðist alfarið þegar tekið var tillit til þessara atriða. Þau börn sem upplifðu meiri stuðning frá foreldrum, besta vini og frá bekkjarfélögum leið hins vegar betur. Þá fannst meira einelti í hópi barna af erlendum uppruna og þau sögðust í meira mæli vera þolendur þess (hæsta hlutfallið hjá börnum af asískum uppruna) og  í stöðunni þolendur-gerendur en íslenskir félagar þeirra,“ segir Eyrún María sem telur niðurstöðurnar frekar sláandi.

„Í framhaldinu ætlum við að safna gögnum til að öðlast betri skilning á félagatengslum innflytjendabarna í tengslum við aðlögun þeirra í nýjum heimkynnum. Fjölmörg atriði sem tengjast menningaraðlögun (e. acculturation) og sálrænni og félagsmenningarlegri aðlögun (e. psychological & socio-cultural adjustment) verða skoðuð með hliðsjón af tengslum og samskiptum við vini, félaga og fjölskyldu. Lögð er áhersla á að kanna hvort og hvernig vináttutengsl barnanna hafa áhrif á þessi ferli,“ segir Eyrún María að lokum .

Leiðbeinendur: Paul Vedder prófessor við félagsvísindadeild Leiden háskóla, Mitch van Geel lektor við félagsvísindadeild Leiden háskóla og Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við Hjúkrunarfræðideild.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is