Háskóli Íslands

Bragkerfi og málkerfi

Haukur Þorgeirsson, doktorsnemi við Íslensku- og menningardeild

„Verkefnið fjallar um íslenskan kveðskap á tímabilinu frá 1350 til 1550 frá sjónarhóli bragfræði og sögulegrar málfræði,“ segir Haukur Þorgeirsson um doktorsrannsókn sína og bætir við: „Kveðskapur frá þessum tíma er mikill að vöxtum. Þar munar mestu um rímurnar en einnig er til mikið af helgikvæðum undir fornum háttum og nýjum. Rannsóknin varpar ljósi á tímabil í sögu íslensks kveðskapar sem lítið hefur verið rannsakað og styrkir þannig vitneskju okkar um samhengið í íslenskri menningarsögu.“

Í rannsókn sinni gerir Haukur grein fyrir bragkerfinu og þróun þess og notar síðan þá greinargerð til að varpa ljósi á ýmsar breytingar sem urðu á málkerfinu á sama tíma. Í verkefninu er þannig tekist á við samspil bragkerfis og málkerfis í íslenskum kveðskap á þessum tíma. Kveðskapur undir dróttkvæðum og hrynhendum hætti er rannsakaður með tilliti til hendinga og sýnt hvernig þær varpa ljósi á fyrirbæri á borð við sníkjuhljóðið í samhljóðaklösunum sl og sn. Að sögn Hauks eru rímur aftur á móti rannsakaðar með tilliti til atkvæðabyggingar og ríms. Sýnt sé fram á að hrynræn uppbygging rímna sæki margt til fornra kvæða og að undantekningar við fullkomið rím lúti ákveðnum lögmálum. Niðurstöðurnar verði notaðar til að varpa ljósi á málsöguleg viðfangsefni.

Haukur hefur alla tíð haft mikinn áhuga á fornum kveðskap og því reyndist honum einfalt að velja sér doktorsverkefni: „Frá því að ég var strákur hef ég velt fyrir mér gömlum kveðskap og langað að skilja betur á hverju hann byggist,” segir Haukur.

Kveðskapur frá 1350 til 1550 hefur ekki einungis afar skýrt bókmenntalegt gildi því hann geymir heimildir um trúarviðhorf, hugmyndaheim, táknmál og skáldskaparhefð á fyrri tímum.

„Ég hef nú þegar fengið ýmsar niðurstöður um eðli og tímasetningu tiltekinna breytinga á málkerfinu og bragkerfinu. Eitt sem mér þykir sjálfum skemmtilegt er hversu mikil tengsl eru milli hrynrænnar uppbyggingar rímna og eldri kveðskapar. Annað er hversu langan tíma hljóðdvalarbreytingin tók en hún fól í sér grundvallarendurskipulagningu á lengdarhlutföllum í íslenska hljóðkerfinu.“

Haukur hlaut á vordögum 2011 styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands vegna rannsóknar sinnar. Sjóðurinn hefur það að markmiði að veita styrki til stúdenta í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi: Kristján Árnason, prófessor við Íslensku- og menningardeild.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is