Háskóli Íslands

Danir í íslensku samfélagi 1900–1970

Íris Ellenberger, doktorsnemi við Sagnfræði- og heimspekideild

„Rannsóknin mín fjallar um Dani, fyrsta þjóðernisminnihlutahópinn á Íslandi og jafnframt þann langstærsta  fram eftir 20. öld,“ segir Íris Ellenberger, doktorsnemi í sagnfræði við Sagnfræði- og heimspekideild. Ætlun Írisar er að greina félags- og efnahagslega stöðu danskra innflytjenda á Íslandi og meta hlutskipti og áhrif þeirra sem minnihlutahóps. Jafnframt hyggst Íris varpa ljósi á áhrif opinna landamæra og gagnkvæmra borgaralegra réttinda á stöðu hópsins og möguleika hans til að gera sig gildandi innan íslensks samfélags. Markmiðið er þannig að varpa ljósi á stöðu Dana, völd þeirra og áhrif á íslenskt samfélag.

„Ég skoða félagslega og efnahagslega stöðu Dana og þátt þeirra í nývæðingu landsins, sem og aðlögun að meirihlutamenningunni. Þá beini ég sjónum að samskiptum Dananna við útlönd með áherslu á að laða fram hvernig sumir þeirra lifðu og störfuðu í fleiri löndum en einu í senn,“ segir Íris. Hún segist alltaf hafa haft áhuga á sögu þjóðernisminnihlutahópa á Íslandi en hún á erlendan föður og var sjálf með erlendan ríkisborgararétt fram á unglingsár. „Þegar mér var boðið að taka þátt í rannsóknarverkefninu Á mótum  danskrar og íslenskrar menningar sem doktorsnemi sló ég til. Danir voru lengi vel mjög óhefðbundinn þjóðernisminnihluti því þeir höfðu full borgaraleg réttindi á Íslandi fram til 1944.“

Íris segir nokkuð ljóst að landamæri Danmerkur og Íslands hafi ekki verið eins fastmótuð og þau séu núna.  Rannsóknin hafi sýnt fram á að sumstaðar, t.d. í ýmsum atvinnugreinum, hafi myndast svið sem gengu þvert á landamæri og tilheyrðu í senn Íslandi og Danmörku. „Það hefur haft ýmsar afleiðingar fyrir samskipti landanna eins og upplýst verður í rannsókninni.“

Íris segir að í rannsókninni sé lögð áhersla á að draga fram hið þverþjóðlega í sögu Íslands sem dragi í efa einsleitni þjóðarinnar. Rannsóknin feli í sér endurmat á íslenskri sögu, samfélagi og menningu og sýni hvernig þessir þættir liggi í alþjóðlegri jarðvegi en almennt hafi verið viðurkennt. „Verkefninu er þannig ætlað að svipta hulunni af alþjóðlegum rótum íslenskrar sögu og menningar,“ segir Íris Ellenberger.

Íris hlaut á vordögum 2011 styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands vegna rannsóknar sinnar. Sjóðurinn hefur það að markmiði að veita styrki til stúdenta í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi: Guðmundur Jónsson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is