Háskóli Íslands

Eðli og áhrif óblíðrar náttúru

Sólveig Þorvaldsdóttir, doktorsnemi við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild

„Rannsóknin beinist að því að skilja eðli og áhrif óblíðra náttúruafla á mannlegt samfélag og þá einkum í tengslum við skemmdir af völdum náttúruhamfara. Tjón af völdum náttúruhamfara í heiminum er gríðarlegt á ári hverju. Við þurfum að undirbúa okkur, bregðast við og byggja upp samfélög á ný í kjölfar náttúruhamfara,“ segir Sólveig Þorvaldsdóttir, sem vinnur nú að doktorsverkefni í byggingarverkfræði.

Verkefni Sólveigar er viðamikið og felst meðal annars í því að leita svara við afar áleitnum spurningum sem tengjast afleiðingum náttúruhamfara. Sólveig leitar til dæmis svars viðþví hvort við Íslendingar séum að undirbúa samfélag okkar með heildrænum og markvissum hætti undir vá eða hvort sýn okkar sé of þröng og verkefni tilviljunarkennd.

„Markmið rannsóknarinnar er að svara spurningum sem þessum og þróa í kjölfarið aðferðir sem byggðar eru á vísindalegum rökum; aðferðir sem nýtast beint þeim sem sinna stefnumótun og samhæfingu aðgerða vegna náttúruhamfara.“

Sólveig hefur starfað í mörg ár að verkefnum sem tengjast náttúruhamförum, meðal annars sem  ráðgjafarverkfræðingur, björgunarsveitarmaður á vettvangi, í samhæfingu á landsvísu og við neyðaraðstoð á alþjóðavettvangi.

„Þessi víðtæka reynsla hefur gefið mér tækifæri til þess að skoða þennan málaflokk frá mörgum sjónarhornum og átta mig á því að til þess að ná árangri er mikilvægt að skilja hina fjölmörgu ólíku þætti viðfangsefnisins og setja þá í samhengi.“

Að sögn Sólveigar felst framlag rannsóknarinnar til fræðasviðsins einkum í aukinni þekkingu og bættum skilningi á þeim viðfangsefnum er varða glímuna við náttúruhamfarir og samhengi þeirra á milli.

„Verkfræðileg nálgun hönnunarvísinda verður notuð til þess að þróa aðferð sem mun styðja fólk í að leggja mat á eigin viðbúnað. Niðurstöðurnar má nota til að leggja grunn að skipulagi almannavarna á landsvísu.“

Sólveig hlaut á vordögum 2011 styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands vegna rannsóknar sinnar. Sjóðurinn hefur það að markmiði að veita styrki til stúdenta í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands.

Leiðbeinendur: Ragnar Sigbjörnsson, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild og forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði, Kurt Petersen, prófessor við Háskólann í Lundi og forstöðumaður miðstöðvar áhætturannsókna og áhættustjórnunar, og Hirokazu Tatano, prófessor við Stofnun hamfararannsókna Kyoto-háskóla.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is