Háskóli Íslands

Eftirgæsla sjúklinga eftir útskrift af gjörgæsludeild

Rannveig J. Jónasdóttir, doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við Hjúkrunarfræðideild og Læknadeild HÍ

„Bráð, alvarleg veikindi og lega sjúklinga á gjörgæsludeild geta haft langvarandi áhrif á heilsu og líðan þeirra,“ segir Rannveig J. Jónasdóttir, gjörgæsluhjúkrunarfræðingur og doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands. Rannveig hefur fengið styrk úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur til að vinna að doktorsrannsókn um eftirgæslu sjúklinga eftir útskrift af gjörgæsludeild.

Rannsóknin er framsýn samanburðarrannsókn þar sem annars vegar eru mæld áhrif eftirgæslu á heilsu sjúklinga sem legið hafa á gjörgæsludeild og hins vegar áhrif eftirgæslu á nánasta aðstandanda þeirra. Áhersla verður lögð á heilsufar, lífsgæði, starfsfærni og sálræn einkenni. „Vegna hins hæga bataferils hefur á síðustu árum verið mælt með því að sjúklingum sé fylgt eftir í kjölfar útskriftar af gjörgæsludeild. Slík eftirfylgd hefur verið nefnd eftirgæsla og henni stýra hjúkrunarfræðingar með reynslu af gjörgæsluhjúkrun í samstarfi við aðrar heilbrigðisstéttir. Eftirgæsla felst í að greina snemma ef sjúklingi tekur að hraka og koma í veg fyrir það. Hún felst einnig í almennu líkamlegu og sálrænu mati og úrlausnum því tengdum. Það, ásamt stuðningi við sjúklinginn og nánasta aðstandanda hans, er gert til að stuðla að bata,“ segir Rannveig.

Kveikjan að rannsókninni er meistararannsókn Rannveigar þar sem hún kannaði heilsu og líðan sjúklinga sem legið höfðu á gjörgæsludeildum Landspítala. Þar kom fram langvinn skerðing á líkamlegri, sálrænni og félagslegri heilsu og líðan sem var ekki var séð fyrir endann á þegar 15 mánuðir voru liðnir frá útskrift af gjörgæsludeildum.

Að sögn Rannveigar hafa rannsóknir á eftirgæslu ekki verið gerðar á Íslandi. Afmörkuðum hópi sjúklinga á Landspítala hefur verið veitt eftirgæsla eftir útskrift af gjörgæslu frá árinu 2007. „Vegna rannsóknarinnar, sem er á byrjunarreit, verður hópurinn stækkaður og eftirgæslan lengd.“ Mælingar á áhrifum eftirgæslu á heilsu sjúklinga hafa ekki verið í brennidepli í löndum þar sem boðið er upp á slíka þjónustu og þar með er þekkingin á því hver þau áhrif eru takmörkuð.

„Meðferð og lega á gjörgæsludeild er mjög kostnaðarsöm og bataferill sjúklinganna getur verið langur og flókinn eftir útskrift þaðan. Niðurstöður gætu auðveldað heilbrigðisstéttum að ákveða hvers konar eftirgæslu skuli veita sjúklingum og þeirra nánustu aðstandendum eftir útskrift af gjörgæsludeild. Þekking á því hvernig stuðla megi að bata hjá þessum sjúklingahópi ætti því að vera mikilvæg,“ segir Rannveig að lokum.

Rannveig lauk BS-prófi í hjúkrunarfræði árið 1993 frá Háskóla Íslands og útskrifaðist með meistaragráðu í hjúkrunarfræði árið 2010 frá sama skóla. Hún hefur starfað á gjörgæsludeild Landspítala í Fossvogi frá árinu 1994.

Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur vinnur að því að efla rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum og veitir sjóðurinn styrki til rannsóknaverkefna sem samræmast markmiðum sjóðsins. Ingibjörg R. Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur og stofnandi sjóðsins, er fyrrverandi námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Ingibjörg hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og var ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973. Rannsóknasjóðurinn er fyrst og fremst styrktur með sölu minningarkorta og gjafafé.                       
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is