Háskóli Íslands

Fara sjúklingar að fyrirmælum um lyfjanotkun?

Guðrún Þengilsdóttir, doktorsnemi í lyfjafræði við Lyfjafræðideild HÍ.

„Góð meðferðarheldni er nauðsynlegur hluti af áhrifaríkri lyfjameðferð. Þar sem meðferðarheldni hefur ekki áður verið rannsökuð á Íslandi verður þessi rannsókn sú fyrsta til að lýsa hvernig meðferðarheldni er háttað hér á landi og hvort og þá hversu stórt vandamál lág meðferðarheldni er. Einnig verður skoðað hvort og þá hvaða þættir eða ástæður liggja að baki og  hafa áhrif á lága meðferðarheldni,“ segir Guðrún Þengilsdóttir, doktorsnemi í lyfjafræði. Guðrún hefur fengið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar lyfsala, 400 þúsund krónur til rannsóknarverkefnisins.

Hugtakið meðferðarheldni lýsir því hvort sjúklingur taki lyf í samræmi við fyrirmæli læknis og hefur mikið að segja um árangur lyfjameðferðar. Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á meðferðarheldni sjúklinga erlendis síðustu áratugi og oft hefur komið fram að meðferðarheldni við lyf sem notuð eru við langvinnum sjúkdómum sé lág. Þetta þýðir með öðrum orðum að sjúklingar sem eiga að taka lyf við langvinnum sjúkdómum fylgja ekki fyllilega fyrirmælum lækna þar um.

Í rannsókn sinni tekur Guðrún fyrir tiltekna lyfjaflokka. „Markmið þessarar rannsóknar er að meta meðferðarheldni við lyf í flokki blóðfitulækkandi statína, þunglyndislyfja og sykursýkilyfja í töfluformi. Það verður notast við gögn úr lyfjagagnagrunni Landlæknisembættisins um allar afgreiðslur á áðurnefndum lyfjum á árunum 2005-2010. Einnig verða tekin djúpviðtöl við notendur blóðfitulækkandi lyfja til að komast að reynslu og viðhorfum þeirra til lyfjanna,“ segir Guðrún og bætir við að rætt verði bæði við þá sem hafa hætt meðferð og þá sem hafa haldið áfram meðferð. Það sé lykilatriði við meðhöndlun margra langvinnra sjúkdóma að sjúklingur taki ávísuð lyf í samræmi við fyrirmæli lækna eða þeirra sem ávísa lyfjunum.

 „Í rannsókninni verður einnig metið hvort greiðsluþátttökureglur og breytingar á þeim hafi áhrif á meðferðarheldni þunglyndis- og blóðfitulækkandi lyfja. Þá verður rannsakað með tilliti til lýðfræði- og sjúkdómsþátta hvort þeir einstaklingar, sem fá fyrstu ávísun á þessi lyf hjá lækni en leysa þau ekki út og hefja því aldrei meðferð, séu frábrugðnir þeim einstaklingum sem leysa lyfin út við fyrstu ávísun og hefja strax meðferð,.“ segir Guðrún að lokum.

Guðrún lauk meistaraprófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands vorið 2009. Hún hóf doktorsnám haustið 2009 undir leiðsögn Önnu Birnu Almarsdóttur prófessors.

Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar lyfsala er ætlað að styrkja vísindaleg afrek á sviði lyfjafræði, rannsóknir og framhaldsnám í faginu.  Þetta er í sjötta sinn sem sjóðurinn veitir doktorsnemum í lyfjafræði við Háskóla Íslands viðurkenningu fyrir framúrskarandi rannsókni. Sjóðurinn hefur stutt við kraftmikla uppbyggingu doktorsnáms í lyfjafræði við Háskólann og gert nemendum kleift að kynna rannsóknir sínar erlendis og taka þátt í erlendu samstarfi í tengslum við doktorsnámið.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is