Háskóli Íslands

Heilsufarsleg áhrif sætuefna

Þórhallur Ingi Halldórsson, lektor við Matvæla- og næringarfræðideild

„Notkun sætuefna í matvælum hefur aukist töluvert samfara aukinni vitund um skaðleg áhrif óhóflegrar neyslu á auðmeltanlegum sykrum. Þessi efni  hafa hins vegar ekki reynst neitt töframeðal í baráttunni við offitufaraldurinn eins og vonir stóðu til,” segir Þórhallur Ingi Halldórsson lektor í matvæla- og næringarfræði við Háskóla Íslands.

„Lengi hefur verið þrálátur orðrómur þess efnis að sætuefni séu heilsuspillandi,” segir Þórhallur,  „sér í lagi hefur athyglin oft beinst að, aspartame, og telja sumir að tengsl geti verið milli óhóflegrar neyslu þess efnis og alvarlegra sjúkdóma s.s. einhverfu, flogaveiki og krabbameins. Litlar sem engar vísbendingar hafa hins vegar fundist sem stutt gætu slíkar fullyrðingar í vísindalegum tilraunum. Því miður hefur umræða um skaðsemi sætuefna oft stjórnast af fullyrðingum sem ekki eiga við rök að styðjast en á móti kemur að hægt er að færa sannfærandi rök fyrir því að þessi efni séu ekki með öllu heilsusamleg í miklu magni,” segir Þórhallur. Hann bætir því við að því miður hafi fáar rannsóknir verið gerðar sem kanni heilsufarsleg áhrif sætuefna á menn.

„Markmiðið með þessum fyrirlestri er að skoða helstu rannsóknir sem fyrir liggja varðandi heilsufarsleg áhrif sætuefna með tilliti til spurninga sem er svarað og hinna sem er ósvarað. Einnig verður farið yfir  niðurstöður nýrrar rannsóknar um áhrif sætuefna á meðgöngu,” segir Þórhallur. Þar vísar hann til rannsóknar sem nýlegar var gerð og var samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Statens Serum Institut í Danmörku og Harvard háskóla í Bandaríkjunum. Niðurstöðurnar er að finna í grein sem nýlega birtist í læknatímaritinu American Journal of Clinical Nutrition.  Um niðurstöðurnar segir Þórhallur þetta en hann var sjálfur stjórnandi ferilrannsóknar sem hartnær 60 þúsund danskar konur tóku þátt í frá upphafi meðgöngu.

„Neysla á svokölluðum diet-drykkjum getur aukið líkurnar á fyrirburafæðingum um 38 prósent.”  Rannsóknin fór þannig fram að konurnar svöruðu spurningum um mataræði fyrir fæðinguna og í síma á meðgöngu. Unnið var úr upplýsingunum og þær bornar saman við upplýsingar frá fæðingardeildum sjúkrahúsa eftir fæðingar. „Í ljós kom að konur sem höfðu neytt drykkja með sætuefnum voru í mun meiri hættu að eignast börn sín fyrir tímann. Neysla sykraðra drykkja virtist ekki hafa nein áhrif.“

Þórhallur segir óskynsamlegt fyrir fólk að hætta neyslu sætuefna enda sé þessi rannsókn sú fyrsta sinnar tegundar. „Töluverð óvissa er í okkar rannsókn og þess vegna viljum við að aðrir fari í sín gagnasöfn og skoði hvort sætuefni séu eitthvað sem taka ber alvarlega. Raunin er sú með virk efni að alltaf eru einhverjir hópar sem þola þau ekki. Ófrískar konur er kjörinn hópur til rannsókna vegna þess að fóstrið og konan eru mjög viðkvæm fyrir virkum efnum og tímabilið varir stutt.“

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is