Háskóli Íslands

Hvernig er góð tvímála orðabók uppbyggð?

Rósa Elín Davíðsdóttir, doktorsnemi við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda

„Rannsóknin beinist að aðferðafræði við gerð tvímála orðabóka. Markmiðið er að kanna hvernig best fari á að  setja fram orðasambönd, föst og laustengd, í tvímála orðabók og jafnframt hvernig megi gera íslensk-erlenda orðabók best úr garði með því að byggja á því nýjasta í orðabókarfræðum, þróa hugmyndir og setja fram nýjar,“ segir Rósa Elín Davíðsdóttir, doktorsnemi við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda.

Í rannsókninni verður reynt að svara því hvar eigi að setja orðasambönd í innskipan uppflettiorða í tvímála orðabók og hvernig best sé að útskýra merkingu fastra orðasambanda og orðasambanda sem eru að hluta til föst. Rósa segir að rannsóknir á því sviði séu af skornum skammti og að hér verði gengið ítarlegar til verks en tíðkast hefur í tvímála orðabókum.

Rósa hyggst setja niðurstöður og tillögur fram með dæmum um innskipan uppflettiorða fyrir íslensk-franska  orðabók ásamt skýringum og rökstuðningi. „Ég mun reyna að sýna fram á hvernig góð tvímála orðabók geti verið uppbyggð til að gagnast almennum notanda sem leggur stund á tungumálanám og jafnframt staðist akademískar og vísindalegar kröfur,“ segir Rósa. Hún vonast til að niðurstöður rannsóknarinnar komi að gagni við gerð íslensk-franskrar orðabókar í náinni framtíð.

Rósa bendir á að mikilvægt sé að tungumálanemendur hafi aðgang að vönduðum orðabókum á sínu eigin móðurmáli „og rannsóknin hefur því mikilvægt gildi fyrir eflingu frönskukennslu og frönskunáms á Íslandi. Rannsóknin er jafnframt framlag til orðabókarfræða almennt og kemur að notum við gerð og þróun tvímála orðabóka.“

Rósa Elín hlaut á vordögum 2011 styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands vegna rannsóknar sinnar. Sjóðurinn hefur það að markmiði að veita styrki til stúdenta í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands.

Leiðbeinendur: André Thibault, prófessor í frönsku við Sorbonne-háskóla, og Erla Erlendsdóttir, dósent við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is