Háskóli Íslands

Ímynd kvenleika á Íslandi samtímans

Guðný Gústafsdóttir, doktorsnemi við Stjórnmálafræðideild

„Doktorsrannsókn mín í kynjafræði ber vinnuheitið Ímynd kvenlegs kyngervis og þegnréttur á Íslandi samtímans. Þar hyggst ég skoða hvaða ímynd af kvenleika vinsælir fjölmiðlar hér á landi sköpuðu og héldu á lofti á árunum 1980 til 2008. Hvaða öfl voru ráðandi í sköpuninni og hvaða hugmyndir um þegnrétt kvenna urðu til í ferlinu,“ segir Guðný Gústafsdóttir, doktorsnemi við Stjórnmálafræðideild.

Hugmyndin að rannsókninni kviknaði að sögn Guðnýjar í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. „Hrunið markaði söguleg tímamót á Íslandi í margföldum skilningi. Minn áhugi lýtur að stöðu kvenna í góðærinu sem  endurspeglaðist í fjarveru þeirra í aðdraganda hrunsins. Þrátt fyrir augljósan ávinning íslensku kvennahreyfingarinnar, formlegt jafnrétti og ríka félagslega þátttöku kvenna í samfélaginu síðastliðna áratugi voru konur lítt sýnilegar sem leikmenn á markaði góðærisins,“ segir Guðný enn fremur.

Hún bendir á að þróun kvenlegs kyngervis á Íslandi frá lokum kalda stríðsins til dagsins í dag hafi til þessa  ekki verið greind. Samkvæmt skilgreiningu Joan W. Scott er kyngervi (e. gender) menningarleg túlkun á kyni og tákngerir jafnframt þau kynjuðu valdatengsl sem liggja til grundvallar hverju samfélagi. „Athugun á áhrifum endaloka kalda stríðsins, uppgangi frjálshyggjukapítalismans og þeim afleiðingum sem ytri þættir höfðu á kyngervi og stöðu íslenskra kvenna er grundvallarforsenda þess að mögulegt sé að jafna stöðu karla og kvenna í dag,“ segir Guðný.

Rannsókninni er að sögn Guðnýjar einnig ætlað að bæta við fræðilega þekkingu á þegnrétti (e. citizenship). Þegnréttur endurspeglar aðgengi og möguleika fólks til þátttöku í því þjóðfélagi sem það lifir í. Þegnrétturinn felur í sér bæði félagsleg réttindi og skyldur. Þannig verður rannsóknin framlag til innlendra og alþjóðlegra rannsókna á þegnréttarhugtakinu. „Það hefur verið bent á nauðsyn þess að háskólinn og stórsamfélagið
leggist á eitt í mótun réttláts samfélags fyrir þegna sína. Greining á samfélagslegum hugmyndum um kynin og áhrifum hugmyndanna á stöðu kynjanna, þróun þegnréttar og forsendur sjálfsforræðis allra eru grundvöllur upplýsts fræðasamfélags og jafnréttrar aðkomu allra í samfélaginu,“ segir Guðný.

Guðný hlaut á vordögum 2011 styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands vegna rannsóknar sinnar. Sjóðurinn hefur það að markmiði að veita styrki til stúdenta í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi: Þorgerður Einarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is