Háskóli Íslands

Kókoshnetuolía gegn örverumengun

Hilmar Hilmarsson, nýdoktor við Líf- og umhverfisvísindadeild

„Ég hef rannsakað náttúruleg fituefni í þónokkurn tíma. Það sem gerði útslagið með þessa rannsókn sem ég vinn að núna var sumarvinna á rannsóknarstofu Halldórs Þormars prófessors í frumulíffræði. Hann var með verkefni þar sem rannsakaðir voru örverudrepandi eiginleikar fituefna," segir Hilmar Hilmarsson, nýdoktor í líffræði.

Hilmar rannsakaði þessi efni í doktorsverkefninu sínu. Hann segir að nú þegar hafi komið fram að mónókaprín sé virkasta fituefnið sem hafi verið prófað. Það finnst til dæmis í kókoshnetuolíu. Þetta efni er mjög breiðvirkt og vinnur bæði gegn veirum og bakteríum. Hægt er að koma því í mismunandi lyfjaform. Þau gætu nýst vel sem sóttvörn í matvælaiðnaði og gegn örverumengun.

„Aukið ónæmi örvera gegn nútímalyfjum kallar á nýjar aðferðir í formi breiðvirkari lyfjaforma sem drepa örverur fljótt og örugglega við snertingu. Náttúruleg fituefni gætu reynst góð viðbót við þekkt örverulyf," segir Hilmar. Einnig mætti nota þessi lyf jafnhliða sértækum bakteríu- og veirulyfjum. Með þessu mætti auka breiðvirkni lyfjaforma gegn örverum sem sýkja menn. Virkasta efnið er, eins og áður er getið, mónókaprín. Það er flokkað sem skaðlaust efni af matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA). Mónókaprín gæti því reynst góður kostur sem umhverfisvænt breiðvirkt örverudrepandi efni gegn örverum sem sýkja menn og dýr.

Leiðbeinandi: Halldór Þormar, prófessor emiritus við Líf- og umhverfisvísindadeild. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is