Pei-Yi Lin, doktorsnemi við Raunvísindadeild
Ætlunin er að gera líkan af og rannsaka flutning rafeinda, holna og annarra sýndareinda um hálfleiðaraörrás inni í rafsegulholi með skömmtuðu ljóseindasviði. Rannsakandi er Pei-Yi Lin, doktorsnemi við Raunvísindadeild. Tekið verður tillit til svokallaðrar Coulomb-víxlverkunar rafbera og tengingar þeirra við skammtaða ljóseindasviðið án truflanareiknings.
Notast verður við aðferð þar sem tengiliðir Hamilton-virkjans eru tilgreindir í skrefum – nákvæm töluleg lausn fundin – og sérsniðnum afskurði beitt til þess að gera fjöleindarúmið endanlegt og nothæft til reikninga. Beitt verður Ó-Markóvskri almennri skammtastýrijöfnu (GME) til þess að rekja tímaþróun kerfisins í veikum tengslum við ytri leiðslur. Hálfleiðarakerfi með flókna borðabyggingu og lögun verða athuguð auk fasts ytra segulsviðs til þess að rannsaka sérstæð fyrirbæri sem nýst geta í íhluti flóknari rafeindakerfa.
Leiðbeinandi: Viðar Guðmundsson, prófessor við Raunvísindadeild. Pei-Yi Lin hlaut styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands í maí 2012.