Háskóli Íslands

Ögun, vald og andóf í íslensku samfélagi á nítjándu öld

Vilhelm Vilhelmsson, doktorsnemi við Sagnfræði- og heimspekideild

Átök um félagslega skipan samfélagsins eru ávallt til staðar en eru þó misjafnlega áberandi eftir samfélagsgerðum, tímabilum og þjóðfélagsástandi. Stundum eru þessi átök opinber og öllum augljós en oftar eru þau falin innan hversdagslegra hegðunarmynstra og orðræðu. Hversdagslegt andóf lágt settra í samfélaginu gegn yfirráðum eða óréttlæti sem þeir upplifðu var því óformlegt og einstaklingsbundið en jafnframt útbreitt og erfitt viðureignar.

Í doktorsrannsókn Vilhelms Vilhelmssonar, doktorsnema við Sagnfræði- og heimspekideild, verður fjallað um hversdagslegt andóf í íslensku samfélagi á nítjándu öld. Hvernig var átökum um félagslega skipan samfélagsins háttað innan gamla sveitasamfélagsins? Hverjar voru leiðir ráðandi afla til ögunar og félagslegs taumhalds? Hvers konar rými sköpuðu valdalausir sér til sjálfræðis og andófs og hvernig nýttu valdalausir sér opinber rými valdsins til þess sama?

Leiðbeinandi: Guðmundur Hálfdanarson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild. Vilhelm hlaut styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands í maí 2012.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is