Vilhelm Vilhelmsson, meistaranemi við Sagnfræði- og heimspekideild
„Rannsókn mín fjallar í grófum dráttum um líf, störf og hugmyndaheim pólitískra róttæklinga meðal Vestur-Íslendinga í kringum aldamótin 1900. Markmiðið er að setja sögu Vestur-Íslendinga í samhengi við félags-, stjórnmála-, og hugmyndasögu Kanada og Bandaríkjanna og rífa hana þannig út úr þeirri sjálfhverfu þjóðernisrómantík sem að mínu mati einkenndi sagnritunarsögu Vestur-Íslendinga lengi vel, þótt rannsóknir á síðustu árum hafi vikið af þeirri braut,“ segir Vilhelm Vilhelmsson, meistaranemi í sagnfræði. Vilhelm hlaut viðurkenningu úr Minningarsjóði dr. phil. Jóns Jóhannessonar nú í vor ti þess að ljúka við meistararitgerð sína og hann hyggst hefja doktorsnám í sagnfræði við Háskóla Íslands næsta haust.
„Í stað þess að fjalla um Vestur-Íslendinga sem brottflutta Íslendinga hef ég reynt að skoða þá sem einn af mörgum innflytjendahópum í kanadísku og bandarísku samfélagi og þau áhrif sem sú lífsreynsla hafði á skoðanir þeirra og lífsviðhorf,“segir Vilhelm. Í því samhengi segist Vilhelm einblína á fámennan hóp Vestur-Íslendinga sem aðhylltust róttækar skoðanir á þjóðfélagsmálum og andæfðu ríkjandi ástandi í samfélagsinu.
„Í þeim tilgangi gáfu þau út blöð og tímarit og voru í tengslum við róttækar félagshreyfingar í Bandaríkjunum og Kanada. Það er hugmyndaheimur þeirra og tengsl hugmynda þeirra við reynslu þeirra í Vesturheimi sem er megin rannsóknarefni mitt,“ bætir Vilhelm við.
Í meistarverkefninu skoðar Vilhelm einnig aðlögun íslenskra innflytjenda að kanadísku samfélagi í ljósi gagnrýninnar afstöðu vestur-íslenskra róttæklinga til samfélagsgerðar fósturlands síns.
„Rannsóknarefnið endurspeglar auðvitað áhugasvið mitt en ég hef lengi haft mikinn áhuga á bæði róttækum hugmyndastefnum og sögu þeirra og sömuleiðis sögu Norður-Ameríku. Hugmyndin að rannsókninni kviknaði þegar ég var að lesa mér til gamans grein um heimsókn anarkistans og feministans Emmu Goldman til Winnipeg árið 1907. Þar var þýddur kafli úr umfjöllun Margrétar J. Benedictsson – kvenfrelsiskonu og blaðaútgefanda sem fædd var í Húnavatnssýslu árið 1866 en fluttist vestur um haf árið 1887 – um fyrirlestur Emmu Goldman og sagt frá því að Sigfús Benedictsson, eiginmaður Margrétar, hafi gerst dreifingaraðili fyrir tímarit hennar“, segir Vilhelm sem hefur löngum haft dálæti á Emmu Goldman.
„Þessi grein vakti áhuga minn og þegar ég fór að skoða þetta mál nánar komst ég að þeirri niðurstöðu að hér væri efni sem væri að stórum hluta órannsakað og reyndar væri saga Vestur-Íslendinga að mörgu leyti enn þá ósögð. Ég taldi því að rannsókn af þessu tagi gæti dýpkað sýn okkar á sögu íslenskra vesturfara.“
Vilhelm segir rannsóknina hafa margs konar erindi við íslenskt samfélag í dag.. Málefni innflytjenda eru ofarlega á baugi og umfjöllun um Vestur-Íslendinga sem innflytjendur í framandi samfélagi getur hjálpað okkur að skilja og meta reynslu innflytjandans og hvaða leiðir virka best fyrir aðlögun innflytjanda að samfélaginu. Þá blasa mörg þau sömu vandamál við okkur í dag og vestur-íslenskir róttæklingar glímdu við í upphafi 20. aldar – spillt stjórnmál, misskipting auðs og áhrifa, eyðing náttúrunnar og efnahagskreppa – og þær lausnir sem enn eru ræddar í dag voru til umræðu þá líka. Hugmyndaheimur þeirra, málefni þeirra og hugsjónir eiga því fullt erindi við íslenskt samfélag á 21. öld,“ segir Vilhelm að lokum.
Tilgangur Minningarsjóðs dr. phil. Jóns Jóhannesonar er að veita stúdentum eða kandídötum í íslensku og sagnfræði styrki til einstakra rannsóknarverkefna er tengjast námi þeirra. Sjóðurinn er stofnaður árið 1983 til minningar um Jón Jóhannesson prófessor með gjöf ekkju hans, frú Guðrúnar P. Helgadóttur, og með minningargjöfum samstarfsmanna, nemenda, ættingja og vina hans. Frekari upplýsingar um sjóðinn er að finna á heimasíðu hans á sjóðavef Háskóla Íslands, www.sjodir.hi.is.