Marco Solimene, doktorsnemi við Félags- og mannvísindadeild
„Markmiðið með rannsókninni er að skapa fræðilegt verkfæri til að skilgreina og endurmeta stöðu Róma-fólks,“ segir Marco Solimene, doktorsnemi við Félags- og mannvísindadeild, en hann er frá Ítalíu. „Skoða þarf ýmsa almenna þætti í samskiptum Evrópulanda við innflytjendur, Róma-fólk eða sígauna eins og sumir kalla þessa þjóð, og aðra einstaklinga í minnihlutahópum. Þetta er skoðað í samhengi við félags- og menningarlega fjölbreytni.“
Rannsóknina segir Marco snúast fyrst og fremst um flókna og umdeilda búsetu Róma-fólksins í Vestur-Evrópulöndum sem eru að hans sögn gegnsýrð af miklum fordómum. „Róma-fólkið storkar hefðbundnum menningargildum Vestur-Evrópubúa sem væntanlega skýrir hversu umdeilt það er,“ segir Marco.
Marco dvaldi í eitt ár við vettvangsrannsókn meðal bosnísks Róma-fólks í útjaðri Rómar á Ítalíu en þetta fólk er íslamstrúar. „Ég rannsakaði samband Róma-fólksins og ríkisins. Enn fremur rannsakaði ég hvernig Róma-fólkið tekst á við ofsóknir og félagslega mismunun af hendi meirihlutans.“
Að sögn Marcos lýsir rannsóknin ófullnægjandi og mótsagnakenndum inngripum og stjórnvaldsúrræðum gagnvart Róma-fólkinu annars vegar og innflytjendum á Ítalíu hins vegar. Enn fremur veiti hún innsýn í hæfileika Róma-fólksins til að bregðast við og svara fyrir sig á áhrifaríkan hátt. Marco segir að íbúar, þingmenn, bæjarfulltrúar og borgarstarfsmenn hafi stöðugar áhyggjur af komu fólks til Rómar sem þessir aðilar skilgreini sem ógn við hefðbundna samfélagsskipan. Þetta eigi t.d. við um ýmsa innflytjendur og Róma-fólkið. „Aðgerðarsinnar og menntaelítan eru föst í þeirri hrokafullu afstöðu að allt sem kemur fyrir Róma-fólkið, hvort heldur það er jákvætt eða neikvætt, sé afleiðing af aðgerðum meirihlutans og að meirihlutinn einn sé fær um að leysa vandamálið.“
Marco hlaut á vordögum 2011 styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands vegna rannsóknar sinnar. Sjóðurinn hefur það að markmiði að veita styrki til stúdenta í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands.
Leiðbeinandi: Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild.