Hanna Björg Sigurjónsdóttir, dósent í Félags- og mannvísindadeild
„Kveikjuna að verkefninu og ástæðuna fyrir vali þess má rekja til rannsóknarinnar „Jafnrétti til náms – Réttur og raunveruleiki fatlaðra nemenda við Háskóla Íslands“ en niðurstöður hennar bentu til þess að möguleikar blinds og sjónskerts fólks til að stunda háskólanám á Íslandi væru takmarkaðir. Síðastliðinn áratug hefur enginn blindur stúdent lokið námi frá Háskóla Íslands og þeir sem hófu nám en luku því ekki töldu að nauðsynleg stuðningsúrræði vantaði,“ segir Hanna Björg Sigurjónsdóttir, dósent við Félags- og mannvísindadeild en hún hefur verið að vinna að rannsókn um möguleika blinds og sjónskerts fólks til að stunda háskólanám á Íslandi.
Hanna Björg vinnur nú, ásamt Knúti Birgissyni, doktorsnema í fötlunarfræði, að rannsókn sem miðar að því að afla þekkingar og skilnings á þeim þáttum sem ýmist hjálpa blindum og sjónskertum einstaklingum til að leggja stund á háskólanám eða eru þeim hindrun í námi.
Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að ýmislegt vanti upp á til að aðstæður og aðbúnaður geti talist fullnægjandi, að sögn Hönnu Bjargar. „Má þá fyrst nefna að nauðsynleg stuðningsúrræði, eins og sjóntúlkun, sem er lykilatriði fyrir blinda og mikið sjónskerta nemendur, eru ekki fyrir hendi. Algengt er að nemendur fái glósuvin, sem er allt annað form aðstoðar, og þó að það sé að ýmsu leyti gott þá er það ekki nægilega öruggt og dæmi eru um að glósuvinir hafi þurft að hætta á miðju misseri.“
„Í háskólanámi er gert ráð fyrir miklum lestri og að nemendur búi yfir tækni til að vinsa úr lesefninu mikilvægustu atriðin á skömmum tíma. Þó svo að námsefni sé á rafrænu formi og aðgengilegt fyrir talgervil geta blindir og sjónskertir nemendur ekki skimað lesefni á sama hátt og sjáandi nemendur; þeir þurfa að lesa hvert aukatekið orð og það er tímafrekt. Því er nauðsynlegt að bókalistar frá kennurum liggi fyrir nógu snemma til að hægt sé að skanna kennslubækur í tæka tíð. Það tekur oft langan tíma að skanna bækur og dæmi voru um að langt hafi verið liðið á misserið þegar nemendur fengu loks bækur sínar.“
Hanna Björg bendir á að fyrirlestrar séu algengasta kennsluformið í háskólanámi. „Það er tiltölulega auðvelt að laga það að þörfum blindra og sjónskertra nemenda með því að sjá til þess að glærur séu settar tímanlega inn á vef námskeiðs, kennarar gæti þess að vísa ekki í sjónrænt efni heldur lýsi því eða lesi upp, noti hljóðkerfi þegar kennsla fer fram í stórum fyrirlestrarsölum og leyfi nemendum að hljóðrita kennslustundir.“
Hanna Björg segir að dæmi séu um að námskeið séu dreifð um háskólasvæðið jafnvel þó svo að þau tilheyri sömu námsbraut eða deild. Þetta valdi erfiðleikum vegna þess að víða er manngert umhverfi illa aðgengilegt, leiðarlínur vantar og öryggisþáttum er ábótavant.
„Eitt það ánægjulegasta við þær niðurstöður sem við höfum nú undir höndum er að viðhorf innan skólans virðast góð. Allir viðmælendur töluðu hlýlega um kennara sína og ráðgjafa og sögðust nær undantekningarlaust hafa mætt miklum skilningi og vilja til úrbóta. Þetta er afar mikilvægt því að við teljum að réttindi fatlaðs fólks ein og sér muni aldrei þjóna fyllilega tilgangi sínum nema þau séu í takt við almenn viðhorf innan samfélagsins. Í Háskóla Íslands er sá jarðvegur nú þegar til staðar,” segir Hanna Björg
Að sögn Hönnu Bjargar felst gildi verkefnisins í aukinni þekkingu og dýpri skilningi á aðstæðum blindra og sjónskertra háskólanemenda og þeim fjölmörgu hindrunum sem þeir þurfa að yfirstíga til að ljúka námi, nauðsynlegum stuðningsúrræðum og betri kennsluháttum.
„Niðurstöður rannsóknarinnar munu nýtast víða en forsvarsmenn hagsmunasamtaka fatlaðs fólks hafa lengi bent á að aukin menntun, sérstaklega háskólamenntun, sé grunnforsenda þess að ná árangri í baráttunni fyrir því að fatlað fólk búi við jafna stöðu og sömu tækifæri og aðrir í samfélaginu. Því er bætt aðgengi að háskólum landsins á jafnréttis- og jafnræðisgrunni nauðsyn,“ segir Hanna Björg að lokum.
Rannsóknin hlaut styrk úr Þórsteinssjóði í desember 2012. Megintilgangur sjóðsins er að styrkja blinda og sjónskerta til náms við Háskóla Íslands. Enn fremur er sjóðnum ætlað að efla rannsóknir sem aukið geta þekkingu á blindu og skertri sýn og afleiðingum hennar og fjölga þannig tækifærum blindra og sjónskertra til að auðga og efla líf sitt. Sérstök áhersla er lögð á styrki til rannsókna í félags- og hugvísindum sem falla að tilgangi sjóðsins.