Háskóli Íslands

Þræðir saman fræði

Sigurður Brynjólfsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild

„Kerfislíffræði, eða systems biology, er nýtt og hratt vaxandi fræðasvið sem felur í sér kerfisbundnar rannsóknir á flóknum líffræðilegum ferlum, oftast með því að tengja saman ólíkar upplýsingar með notkun stærðfræðilíkana,“ segir Sigurður Brynjólfsson, prófessor í verkfræði og einn af stofnendum Rannsóknaseturs í kerfislíffræði við HÍ sem verið er að setja á fót.

Við erum svo lánsöm að hafa Bernhard Örn Pálsson, prófessor í lífverkfræði við UCSD, einn helsta frumkvöðul á sviði kerfislíffræði, sem gestaprófessor við Háskóla Íslands og leiðir hann uppbyggingu rannsóknarsetursins,“ segir Sigurður.

Setrið verður miðstöð rannsókna á sviði kerfi slíffræði og tengir saman rannsóknir á sviði verkfræði, raunvísinda og læknisfræði. „Í framtíðinni munu nemendur í framhaldsnámi og rannsóknatengdu námi fá leiðsögn, aðstöðu og búnað til rannsóknastarfa á þessu sviði,“ heldur Sigurður áfram.

„Kerfislíffræðin stefnir að kerfisbundinni lýsingu á starfsemi og þroskun fruma og lífvera og byggist að miklu leyti á notkun og tengingu lífupplýsinga, upplýsinga um erfðamengi, tjáningu gena, virkni og starfsemi ensíma og annarra próteina auk svipgerðar lífverunnar,“ segir Sigurður.

„Fram til þessa hefur mestur árangur náðst við kerfisbundna greiningu örvera. Erfðamengi margra örvera hefur verið raðgreint og þar sem þær hafa fremur fá gen, og starfsemi stórs hluta þeirra er þekktur, er unnt að útbúa stærðfræðilíkön yfir starfsemi þeirra.

Auk þess er auðvelt að breyta tilteknum ferlum í örverum með því að breyta næringarskilyrðum, eða með stökkbreytingum og sannreyna þannig líkönin sem til verða með hjálp kerfi slíffræðinnar,“ segir Sigurður.

Mikill áhugi er á að útbúa svipuð líkön fyrir manninn og eru fyrstu tilraunir til þess þegar hafnar. Líklegt er að slíkar rannsóknir muni hafa mikil áhrif á skilning okkar á sjúkdómsferlum mannsins. „Því er brýnt að við byggjum upp öflugt þverfræðilegt rannsóknasetur á þessu sviði hér við HÍ og tryggjum þannig að Ísland haldi forystu sinni á sviði heilbrigðisrannsókna,“ segir Sigurður.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is