Háskóli Íslands

Þróun og skipulag sjúklingafræðslu á sjúkrahúsum

Brynja Ingadóttir, klínískur lektor við Hjúkrunarfræðideild HÍ

Brynja Ingadóttir, sérfræðingur í hjúkrun aðgerðasjúklinga og klínískur lektor við Hjúkrunarfræðideild HÍ fjallar í doktorsrannsókn sinni um sjúklingafræðslu sem leið til að efla sjálfsumönnun skurðsjúklinga.

„Markmið rannsóknarinnar er að afla þekkingar sem nýta má í þróun og skipulagi sjúklingafræðslu innan sjúkrahúsa,“ segir Brynja. Sjúklingafræðsla verður æ mikilvægari í nútímaheilbrigðisþjónustu og eiga sjúklingar lögbundinn rétt á að fá hana. Einnig verður fræðslan sífellt brýnni þar sem sjúklingum með langvinna sjúkdóma fer fjölgandi og framfarir í tækni og heilbrigðisvísindum hafa orðið miklar á liðnum árum. Sjúkrahúslega hefur styst verulega og þess er vænst að sjúklingar annist sig sjálfir í ríkara mæli en áður. Sjúklingafræðsla er því ein af forsendum þess að sjúklingum takist vel upp í þessu hlutverki og getur haft áhrif á árangur meðferðar og líðan sjúklinganna.

„Fyrstu niðurstöður benda til þess að væntingum sjúklinga til fræðslu sé ekki nægilega mætt. Fræðslu um lífeðlisfræðilega þætti eins og sjúkdóminn og meðferð hans og svo færni, þ.e. um hreyfingu og daglegar athafnir, er best sinnt.“ Hún segir að fræðslu um áhrif meðferðar og sjúkrahússdvalar á andlega líðan, þætti er tengjast félagslegum þáttum, réttindum sjúklinga og kostnað vegna aðgerða mætti bæta. „Sjúklingafræðsla hefur heillað mig í þau 25 ár sem ég hef starfað sem hjúkrunarfræðingur. Ég hef tekið þátt í mörgum verkefnum á Landspítala og komist að raun um að okkur skortir meiri þekkingu á undirstöðum sjúklingafræðslu s.s. á þörfum sjúklinga. Það þarf að byggja á ákveðinni hugmyndafræði og kanna möguleika á fjölbreyttari kennsluaðferðum.“

Brynja segir að sjúklingafræðsla sé leið til að styðja við eflingu og sjálfsumönnun sjúklinga sem sé mikilvæg fyrir bata þeirra. „Þróun árangursríkari kennslu er talin vera ein af mörgum óunnum verkefnum hjúkrunarfræðinnar. Framfarir í upplýsingatækni hafa skapað nýja möguleika í sjúklingafræðslu, hins vegar er brýnt að rannsaka betur fræðsluþarfir sjúklinga, áhrif heilbrigðisstarfsmanna á fræðsluna og hvernig ný tækni getur komið á móts við jafnt þarfir sjúklinga sem og heilbrigðisþjónustunnar.“

Brynja var ein þeirra sem hlaut doktorsstyrk úr Rannsóknasjóði Ingibjargar Magnúsdóttur í október 2011.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is