Háskóli Íslands

Yfirlit 2006 yfir styrkþega, verkefni og leiðbeinendur

Félagsvísindi

Í félagsvísindum hlutu fjórir doktorsnemar styrk. Rannsókn Davíðs Bjarnasonar ber titilinn „Hreyfanlegt samhengi – menning, tækni og farsímar“ – leiðbeinandi er dr. Gísli Pálsson, prófessor í mannfræði. Gunnhildur Lily Magnúsdóttir rannsakar hugsanleg áhrif Íslands á fiskveiðistefnu í ljósi áhrifa norrænu ríkjanna á umhverfisstefnu ESB – leiðbeinandi er dr. Baldur Þórhallsson, dósent í stjórnmálafræði. Harpa Njáls fjallar um lífsskilyrði, félagslegt umhverfi barna og heilsufar barna og barnafjölskyldna – leiðbeinandi hennar er dr. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, dósent í félagsráðgjöf. Verkefni Kristjönu Stellu Blöndal er langtímarannsókn á brotthvarfi ungmenna úr framhaldsskóla – leiðbeinandi er dr. Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor í uppeldis- og menntunarfræði.

 

Heilbrigðisvísindi

Í heilbrigðisvísindum voru veittir sjö styrkir í doktorsnámi. Bryndís Björnsdóttir rannsakar eiginleika peptíðasa í seyti fiskisýkilsins Moritella viscosa – leiðbeinandi er dr. Bjarnheiður Guðmundsdóttir, sérfræðingur í örveru- og ónæmisfræði H.Í., Keldum. Verkefni Brynhildar Thors fjallar um boðkerfi í æðaþeli – leiðbeinandi er dr. Guðmundur Þorgeirsson, prófessor í lyflæknisfræði. Rannsókn Jóhönnu Einarsdóttur er um áhrif tímaþrepsmælinga við að greina og mæla stam barna á leikskólaaldri – leiðbeinandi er dr. Roger J. Ingham, prófessor í heyrnar- og talmeinafræði við Kaliforníuháskóla. Rannsókn Lenu Rósar Ásmundsdóttur fjallar um faraldsfræði, áhættuþætti, meingerð og ónæmissvörun sveppasýkinga í blóði – leiðbeinandi er dr. Magnús Gottfreðsson, dósent í lyflæknisfræði. BRCA – lík svipgerð í brjóstæxlum er verkefni Ólafs Andra Stefánssonar – leiðbeinandi er dr. Jórunn Erla Eyfjörð, dósent í erfðafræði. Rannsókn Stefaníu P. Bjarnarsonar fjallar um myndun og einkenni fjölsykru sértækra B-minnisfruma í nýfæddum músum – leiðbeinandi er dr. Ingileif Jónsdóttir, dósent í ónæmisfræði. Þá rannsakar Sveinn Hákon Harðarson súrefnismælingar í augnbotnum – leiðbeinandi er dr. Einar Stefánsson, prófessor í augnlækningum.

 

Hugvísindi

Í hugvísindum hlutu fjórir styrki. Rannsókn Ásgríms Angantýssonar ber titilinn „Gerð aukasetninga í íslensku og skyldum málum“ – leiðbeinandi er dr. Höskuldur Þráinsson, prófessor í íslensku. Fornleifafræðileg rannsókn Hildar Gestsdóttur fjallar um gigt á Íslandi – leiðbeinandi er dr. Orri Vésteinsson, lektor í fornleifafræði. Unnur Birna Karlsdóttir fjallar um náttúrusýn og nýtingu fallvatna á 20. öld – leiðbeinandi er dr. Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði. Þá hlýtur styrk Yelena Sesselja Helgadóttir sem rannsakar íslenskar þulur síðari alda – leiðbeinandi er dr. Vésteinn Ólason, prófessor og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi.

 

Raunvísindi og verkfræði

Í raunvísindum og verkfræði hlutu sjö styrki til doktorsnáms. Edda Sif Aradóttir rannsakar efnaferli íslenskra jarðhitasvæða með samtengdu efna- og forðafræðilíkani – leiðbeinandi er dr. Hannes Jónsson, prófessor í efnafræði. Erling Jóhann Brynjólfsson rannsakar óabelskar jaðarsviðskenningar – leiðbeinandi er dr. Lárus Thorlacius, prófessor í eðlisfræði. Verkefni Gísla Herjólfssonar er um hagnýt stýrikerfi byggð á tímasvörunum kerfa í lokuðu formi – leiðbeinandi er dr. Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor í rafmagns- og tölvunarverkfræði. Hilmar Hilmarsson rannsakar örverudrepandi áhrif fituefna og þróun á lyfjaformum til að sótthreinsa og meðhöndla sýkingar í dýrum – leiðbeinandi er dr. Halldór Þormar, prófessor í líffræði. Rannsókn Hólmfríðar Sveinsdóttur fjallar um trypsýn í þroska fóstra og lirfa Atlantshafsþorsks – leiðbeinandi er dr. Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor í matvæla- og næringarfræði. Pavol Cekan rannsakar byggingu og hreyfingu DNA með EPR og flúrljómunar spektróskópíu – leiðbeinandi er dr. Snorri Þór Sigurðsson, prófessor í efnafræði. Þá rannsakar Sædís Ólafsdóttir tengingu loftlagsháðra gagna milli lands og sjávar í Hólosen – leiðbeinandi er dr. Áslaug Geirsdóttir, prófessor í jarð- og landfræði. Tveir stúdentar hlutu styrk til meistaranáms, báðir úr raunvísindum. Guðmundur Bjarki Yngvarsson hlýtur styrk til meistaraverkefnisins „Ummyndun basaltglers við myndum móbergs á Reykjanesi“ – leiðbeinandi er dr. Olgeir Sigmarsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans og Vísindastofnun Frakklands. Hörður Guðmundsson hlýtur styrk til meistaraverkefnis um áhrif Rvb-prótína og litnisbreytingar á galaktósastýrða genatjáningu – leiðbeinandi hans er dr. Zophonías O. Jónsson, dósent í líffræði.

 

Styrkir til leiðbeinenda

Þrír styrkir voru veittir til doktorsverkefna, sem leiðbeinendur munu auglýsa til umsóknar fyrir doktorsnema. Verkefni dr. Einars Árnasonar prófessors í líffræði fjallar um gen með smááhrif og þróun gersveppsins Saccharomyces cerevieae sem tækis til tilrauna í stofnerfðafræði. Annað verkefnið er í umsjón dr. Kristjáns Leóssonar, vísindamanns á eðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar, og ber titilinn „Ljósrásir byggðar á bylgjuleiðurum fyrir langsæknar yfirborðsrafgaseindir“. Í þriðja verkefninu er leiðbeinandi dr. Páll Einarsson, prófessor í eðlisfræði, og fjallar það um mælingar í sjávarborðsbreytingum við Ísland.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is