Veittir hafa verið fimm styrkir til verkefna og rannsókna í félagsráðgjöf úr Vísindum og velferð: Styrktarsjóði Sigrúnar og Þorsteins. Styrkhafar eru þau Anna Sigrún Ingimarsdóttir, Eva Dögg Sigurðardóttir og Ásdís Arnalds, Halldór Sigurður Guðmundsson, Sirrý Sif Sigurlaugardóttir og Sólveig B. Sveinbjörnsdóttir. Heildarupphæð styrkja er rúmlega fjórar milljónir króna.
Sjóðnum Vísindi og velferð er annars vegar ætlað að efla doktorsnám og sérfræðiþekkingu í félagsráðgjöf, með áherslu á málefni barna og fjölskyldna, og hins vegar vísindafræði, nánar tiltekið rannsóknir og nýjungar sem tengjast vísindasögu, vísindaheimspeki og vísindamiðlun. Að þessu sinni voru veittir styrkir til verkefna á fyrrnefndu sviðunum, en annað hvert ár er auglýst eftir umsóknum um styrki á hvoru meginsviði fyrir sig.
Anna Sigrún Ingimarsdóttir, doktorsnemi í fötlunarfræði við Háskóla Íslands, vinnur að doktorsverkefni um ungt fatlað fólk og þær fjölþættu áskoranir sem það tekst á við á vegferð sinni inn í fullorðinsárin. Tilgangur verkefnisins er að draga fram raddir og skilning hópsins á þessum tímamótum, jafnframt því að spegla reynslu þátttakenda með hliðsjón af samfélagslegum þáttum, hvernig gagnvirk ferli og kerfi mæta þeim og móta reynslu þeirra. Niðurstöður rannsóknarinnar hafa leitt í ljós að ungt fatlað fólk líkt og jafnaldrar þeirra vill ganga inn í hefðbundin fullorðinshlutverk og láta að sér kveða á félagslegum vettvangi. Hins vegar mæta því marglaga hindranir af lífsálfélagslegum toga, ekki síst gamalgrónir fordómar. Niðurstöðurnar hafa mikið gildi fyrir félagsráðgjafa sem hafa þá frumskyldu að vinna gegn félagslegum ójöfnuði. Verkið tengist því sterkt notendamiðuðum áherslum sem eru grundvöllur félagsráðgjafar.
Eva Dögg Sigurðardóttir og Ásdís Arnalds, lektorar í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, beina rannsókn sinni að fósturforeldrum á Íslandi, hópi sem hlúir að og elur upp börn í afar viðkvæmri stöðu. Hvort sem barn er vistað utan heimilis í stuttan eða langan tíma er ljóst að um flóknar aðstæður er að ræða þar sem traust þarf að ríkja á milli foreldra, fósturforeldra, barna og barnaverndarkerfis. Rannsókninni er annars vegar ætlað að kanna hver sé upplifun fósturforeldra af stuðningi og hindrunum í barnaverndarkerfinu og hins vegar að skilja þann hvata sem liggur að baki því að gerast fósturforeldrar og greina þætti sem stuðlað geta að fósturrofi. Rannsóknin byggist á blandaðri aðferðafræði meðal fósturforeldra, þar sem viðtöl og spurningakönnun verða nýtt til að fá sem gleggsta mynd af reynslu þeirra. Með því að öðlast innsýn í aðstæður og reynslu fósturforeldra er ætlunin að meta það kerfi sem umlykur þá og fósturbörn og leggja mat á hvernig unnt sé að stuðla að velsæld þessara hópa.
Halldór S. Guðmundsson, dósent í félagsráðgjöf, vinnur að undirbúningi á útgáfu fræðibókar og rafræns greinasafns sem ætlað er að komi út á árunum 2026-2027 um málefni eldra fólks á Íslandi og einnig út frá norrænu og evrópsku samhengi. Ráðgert er að bókin samanstandi af um 15-20 ritrýndum köflum um ýmis málefni sem tengjast eldra fólki. Þar er m.a. átt við efni sem varðar öldrun almennt og helstu kenningar í öldrunarfræði, heimspeki og samfélagsleg viðhorf og viðmið, auk þjónustu sem eldra fólki er veitt, bæði inn á eigin heimili og inn á stofnunum. Í bókinni verður enn fremur að finna efni sem varðar samfélagsleg réttindi, skyldur, virkni og atvinnuþátttöku eldra fólks.
Sirrý Sif Sigurlaugardóttir, doktorsnemi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, vinnur að rannsókn um stöðu og líðan aðstandenda aldraðra sem þiggja heimahjúkrun. Rannsóknin er unnin í samstarfi við Miðstöð í öldrunarfræðum (áður Rannsóknastofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum, RHLÖ) og byggist á gagnasöfnun í samvinnu við Heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er að greina hvaða þættir valda mestu álagi á aðstandendur sem sinna óformlegri umönnun og kortleggja þörf fyrir stuðning. Niðurstöður verða nýttar til að bæta þjónustu við eldra fólk og aðstandendur þess. Rannsóknin er hluti af stærra verkefni undir stjórn Kristínar Björnsdóttur, prófessors í hjúkrunarfræði, og er fyrsta formlega samstarf Félagsráðgjafardeildar og Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar í doktorsnámi við Háskóla Íslands.
Sólveig B. Sveinbjörnsdóttir, doktorsnemi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, greinir í rannsókn sinni hvaða þættir hafa áhrif á barneignaákvarðanir innflytjenda. Innflytjendur skipa sífellt stærri og fjölbreyttari hóp á Íslandi,en á síðustu tíu árum hefur hlutfall þeirra farið úr 8% í 18% af íbúafjölda landsins. Með því að greina frásagnir ólíkra innflytjendahópa mun rannsóknin veita innsýn í félagslega, efnahagslega og menningarlega þætti sem geta haft áhrif á ákvörðun þeirra um barneignir. Markmiðið er einnig að greina ólíka reynslu og stöðu innflytjenda í foreldrahlutverkinu. Niðurstöður rannsóknarinnar geta nýst til að bæta núverandi innflytjenda- og fjölskyldustefnu sem tekur mið af fjölbreyttum aðstæðum, gildum og sjónarmiðum fjölmenningarlegs samfélags.
Um sjóðinn
Vísindi og velferð: Styrktarsjóður Sigrúnar og Þorsteins var stofnaður á vormánuðum árið 2021 og eru stofnendur sjóðsins hjónin Sigrún Júlíusdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson, sem bæði eru fyrrverandi prófessorar við Háskóla Íslands. Sigrún er fyrrverandi prófessor í félagsráðgjöf og hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar, rannsókna og fræða í félagsráðgjöf við háskólann og stofnandi Rannsóknaseturs í barna- og fjölskylduvernd. Þorsteinn er fyrrverandi prófessor í eðlisfræði og vísindasögu, stofnandi og fyrsti ritstjóri Vísindavefsins og hefur verið brautryðjandi í vísindafræðum við skólann.
Sjóðurinn heyrir undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands og starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Í stjórn sjóðsins sitja Vilhjálmur Þorsteinsson, sonur Þorsteins og fulltrúi stofnenda sjóðsins sem jafnframt er formaður stjórnar, Sigurveig H. Sigurðardóttir prófessor emerita, fulltrúi Félagsráðgjafardeildar, og Einar H. Guðmundsson, prófessor emeritus, fulltrúi Raunvísindadeildar og Sagnfræði- og heimspekideildar.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands og þar með samfélagið allt.