Háskóli Íslands

Áfallastreita og langtímaheilsufarsafleiðingar náttúruhamfara

Ragnhildur Guðmundsdóttir, Heilbrigðisvísindi

Árið 1995 féllu snjóflóð á tvo bæi á Íslandi. Alls dóu 34 og eftirlifendurnir 600 voru harmi slegnir. Tsunami-flóðbylgjan í Asíu árið 2004 er meðal stærstu náttúruhamfara seinni tíma en þá fórust 230.000 manns.

Langtímaheilsufarsafleiðingar ofantalinna náttúruhamfara á eftirlifendurna hafa lítið verið rannsakaðar. Markmið þessarar faraldsfræðilegu rannsóknar er að kanna hvort eftirlifendur snjóflóðanna 1995 og sænskir eftirlifendur Tsunami-flóðbylgjunnar 2004 hafi aukna hættu á langtímaheilsufarsafleiðingum, sálrænum og líkamlegum.

Við snjóflóðarannsóknina verða nýttir einstakir gagnagrunnar Landlæknisembættisins og Hagstofunnar til að kanna hvort eftirlifendur snjóflóðanna hafi aukna hættu á lyfjanotkun, heilsugæslukomum, sjúkrahúslegum og andlátum 8-13 árum eftir flóðin samanborið við jafnaldra í sambærilegum þorpum og á landinu öllu.

Tsunamirannsóknin nýtir gögn frá 5000 sænskum eftirlifendum Tsunamiflóðbylgjunnar 14 mánuðum eftir flóðin til að kanna hvort lengri dvöl á hamfarasvæðum og töf á staðfestingu láts nákomins ættingja auki hættu á langtímaheilsufarsafleiðingum.
Í kjölfar náttúruhamfara neyðast yfirvöld til að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á líf þúsunda manna – án vísindalegrar þekkingar. Niðurstöður þessara rannsókna hafa einstaka burði til að undirbúa yfirvöld sem best undir ákvarðanatöku í kjölfar óhjákvæmilegra náttúruhamfara í framtíðinni.

Leiðbeinandi: Unnur Anna Valdimarsdóttir, dósent við læknadeild og forstöðumaður Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum.

Samstarfsaðilar: Christina M. Hultman, prófessor við Department of Medical Epidemiology and Biostatistics í Karolinska institutet & Department of Neuroscience, Psychiatry, Uppsölum, Svíþjóð, Heiðdís Valdimarsdóttir, dósent við Mount Sinai School of Medicine í Bandaríkjunum, Mark de Rooij, dósent við Department of Psychometrics and Research Methodology við Department of Psychology í Leiden University í Hollandi, og Philip Spinhoven, prófessor við Department of Psychology, Leiden University & Department of Psychiatry, Leiden University Medical Center í Hollandi.

Úthlutunarár: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is