Háskóli Íslands

Áhrif á fæðingarupplifun kvenna og flókin samskipti í heimaþjónustu

Rannsóknir tveggja doktorsnema í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands, sem snerta barneignaþjónustu og heimaþjónustu á Íslandi og þætti sem hafa áhrif á fæðingarupplifun kvenna,  hafa fengið styrk úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur. Styrkhafar eru Edythe Laguindanum Mangindin, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, og Vilhelmína Þ. Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur og hljóta þær samtals nærri 1,2 milljónir króna. 
 
Markmið doktorsrannsóknar Edythe Laquindanum Mangindin er að auka þekkingu á því hvaða þættir hafa áhrif á fæðingarupplifun kvenna. Í fyrsta hluta rannsóknarinnar verður m.a. spurningalisti notaður til að skoða hvernig bakgrunnur, félagslegir þættir og samskipti við heilbrigðisstarfsfólk (m.t.t. virðingar, sjálfræðis og mismununar) hafa áhrif á fæðingarupplifun kvenna. Í öðrum og þriðja hluta rannsóknarinnar er ætlunin að nýta einstaka tengingu gagnaskráa um aldurshópa og lýðheilsu á Íslandi til að kanna hvernig áfall í æsku og fæðingarútkomur hafa áhrif á fæðingarupplifun kvenna.
 
Með þessum rannsóknum er hægt að styðja við upplýsta ákvarðanatöku heilbrigðisstarfsmanna og kvenna á barneignaraldri í tengslum við fæðingar. Áætlað er að 5% til 35% kvenna upplifi fæðingar á neikvæðan hátt. Því þyrfti skimun fyrir áhættuþáttum og klínískum inngripum til að styðja konur á meðgöngu, í fæðingu og eftir fæðingu og stuðla að jákvæðri fæðingarupplifun. Niðurstöður munu gagnast í barneignarþjónustu á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi þar sem þekkingin mun leiða til bættrar heilsu og vellíðanar mæðra og barna. Leiðbeinandi Edythe er Emma Marie Swift, lektor í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild, og umsjónarkennari er Helga Gottfreðsdóttir, prófessor í ljósmóðurfræði við sömu deild. 
 
Í doktorsrannsókn Vilhelmínu Þ. Einarsdóttur er athyglinni beint að flóknum samskiptum í heimaþjónustu þar sem reynt verður að varpa ljósi á ástæður þess að hnökrar verða í samskiptum starfsfólks við skjólstæðinga og aðstandendur þeirra. Stundum getur verið að skjólstæðingar séu ósáttir við þjónustuna en í öðrum tilfellum getur það tengst ósætti milli starfsfólks, skjólstæðinga og aðstandenda þeirra. Rannsókninni er ætlað að kanna hvernig hægt er að öðlast dýpri skilning á samskiptunum ásamt því að auka getu starfsfólks heimaþjónustunnar til að takast á við samskiptin á uppbyggilegan hátt. Rannsóknaraðferðin er fjölþætt og felst í vettvangsrannsókn og viðtölum við skjólstæðinga, aðstandendur þeirra og starfsfólk heimaþjónustunnar. Leiðbeinandi Vilhelmínu er Kristín Björnsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild. Í doktorsnefnd sitja ásamt Kristínu, Ásta Snorradóttir, lektor við  Félagsráðgjafadeild, og Jeannette Pols, prófessor við Háskólann í Amsterdam.
 
Það má einnig geta þess að sjóðnum barst gjöf frá dánarbúi Jóns Fr. Sigvaldssonar að upphæð kr. 500.000 í byrjun þessa árs. Einnig lagði Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga sjóðnum lið með einnar milljón króna framlagi til minningar um Ingibjörgu R. Magnúsdóttur og markverð störf hennar í þágu hjúkrunarfræðinga og þróunar og eflingar hjúkrunarfræðinnar á Íslandi. Ingibjörg lést 20. janúar sl.
 
Um sjóðinn
Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur eflir rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum og veitir styrki til rannsóknaverkefna sem samræmast markmiðum hans. Ingibjörg R. Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur og stofnandi sjóðsins, var fyrrum námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Ingibjörg var einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973.
Hægt er að styrkja sjóðinn með ýmsu móti, t.d. með gjöfum í tilefni árgangaafmæla eða útskriftar. Einnig er hægt að senda minningarkort og tækifæriskort frá sjóðnum. Fjárhæðir má leggja inn á eftirfarandi bankareikning hjá Íslandsbanka: 0513-26-004057. Kennitala Styrktarsjóða HÍ er 571292-3199. 
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is