Háskóli Íslands

Á annan tug milljóna til eflingar íslenskri tungu

Níu styrkir hafa verið veittir úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur til verkefna sem öll miða að því að efla íslenska tungu á tímum hraðra tæknibreytinga. Styrkirnir renna til fræðimanna og nemenda við Háskóla Íslands sem vinna að fjölbreyttum rannsóknum og verkefnum sem snúa að stöðu íslenskrar tungu í samtímanum. Þetta er í þriðja skipti sem úthlutað er úr sjóðnum og nemur heildarupphæð styrkjanna 12,5 milljónum króna.
 
Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2014 til minningar um Áslaugu Hafliðadóttur og foreldra hennar, þau Sesselju Eiríksdóttur og Hafliða Jón Hafliðason. Meginmarkmið sjóðsins er að efla íslenska tungu með styrkjum til sérverkefna á sviði íslenskra fræða. 
 
Tilgangur Styrktarsjóðs Áslaugar Hafliðadóttur er að styrkja sérverkefni á sviði íslenskra fræða og styðja við þá sem leggja stund á íslensk fræði. Styrkir standa bæði starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands til boða, m.a. til rannsókna, þróunar, kennslu, þjálfunar, nýmæla eða kaupa á tækjum og búnaði sem falla að markmiðum sjóðsins. Í stofnskrá sjóðsins segir að sérstaklega skuli stutt við verkefni sem lúta að ritfærni og þjálfun nemenda á öllum fræðasviðum háskólans við beitingu íslensks máls og styrkja stöðu íslenskunnar í síbreytilegu tækniumhverfi.  
 
Styrkhafar eru:
 
Jóhanna Thelma Einarsdóttir, dósent í talmeinafræði við Heilbrigðisvísindasvið og Menntavísindasvið, fær styrk til verkefnis sem hefur það markmið að skoða stöðu íslenskunnar eins og hún birtist í tali eintyngdra íslenskra barna en hún hyggst gefa út rafræna orðtíðnibók. Bókin byggist á málsýnum sem voru tekin á árunum 2009 til 2014 hjá börnum á aldrinum tveggja til átta ára. Alls var talað við tæplega 360 börn og safnað í heild um 120.000 orðum. Í orðtíðnibókinni verður hægt að skoða tíðni orða, beygingarmyndir og orðflokka hjá börnum á mismunandi aldri. Með orðtíðnibókinni verða gögnin jafnframt gerð aðgengileg til notkunar innan Háskólans til rannsókna á barnamáli og máltöku barna. Hún mun auk þess nýtast við kennslu á grunnorðaforða í íslensku, t.d. hjá börnum með málþroskaröskun og börnum af erlendum uppruna sem eru að læra íslensku. Hún verður ómetanlegt framlag til að stuðla að aukinni þekkingu á málfærni barna sem tala íslensku.
 
Ármann Jakobsson, prófessor í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild  Hugvísindasviðs, hlýtur styrk til að vinna sögu íslenskra bókmennta f rá upphafi Íslandsbyggðar til vorra daga. Um er að ræða tveggja binda verkið Íslenskar bókmenntir 870–1830 og Íslenskar bókmenntir 1830-2020, en það er  alls um 900 blaðsíður. Stefnt er að útgáfu árið 2021. Mikil þróun hefur verið í rannsóknum á íslenskum bókmenntum seinustu áratugi og mikilvægt er að það endurspeglist í vönduðu yfirlitsriti sem sé jafnframt styttra, snarpara og handhægara en þau rit sem þegar eru til. Höfundar verða ýmsir færustu sérfræðingar á sviðinu sem kenna við Háskóla Íslands og verður verkið meðal annars nýtt við kennslu í bókmenntasögu á háskólastigi og lagað að þörfum háskólastúdenta 21. aldarinnar. Verkið mun endurspegla gróskumikið rannsóknastarf seinustu áratuga á sviðinu en mikil áhersla verður jafnframt lögð á fræðslu- og miðlunarþáttinn. Þannig mun þessi bókmenntasaga gegna mikilvægu hlutverki við að ná til nýs lesendahóps og veita nýjum rannsóknum talsvert vægi og athygli. 
 
Þórunn Júlíusdóttir, meistaranemi í ritlist við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, hlýtur fyrir hönd Blekfjelagsins, félags meistaranema í ritlist, og meistaranema í hagnýtri ritstjórn og útgáfu við sömu deild, styrk til útgáfu á bókinni HLJÓÐ BÓK sem kemur út í maí 2018. Verkefnið er tengt námskeiðinu Á þrykk sem kennt er á framhaldsstigi við Íslensku- og menningardeild en það byggist á samstarfi meistaranema í ritlist og nemenda í hagnýtri ritstjórn. Megintilgangur þess er að nemendur fái verðmæta reynslu af því að búa til bók. Nemendur vinna sjálfir að öllum þeim þáttum sem snúa að bókaútgáfu, þar á meðal textaskrifum, ritstjórn, prófarkalestri, hönnun, umbroti, öflun tilboða í prentun og öðru sem tilheyrir útgáfuferlinu. Fyrri námskeið hafa getið af sér áhugaverðar og metnaðarfullar bækur og hið sama gildir í ár. Þjálfun verðandi rithöfunda og ritstjóra í skrifum og útgáfustarfsemi styrkir íslenska menningu og hefur jákvæð áhrif á samfélagið allt. Á tímum þar sem íslensk tunga á í vök að verjast er mikilvægt að styðja við fjölbreytta útgáfu á íslensku. 
 
Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum við Mála- og menningardeild Hugvísindasviðs, fær styrk  til vinnu við verkefnið „Vefnámskeið í íslensku fyrir snjalltæki, fyrir börn á aldrinum 5-7 ára“. Það snýst um að þróa aðgengilegt, skemmtilegt og gagnvirkt námsefni með leikjaívafi á íslensku. Markhópurinn er öll börn sem vilja styrkja íslenskukunnáttu sína, hvort sem þau eiga erlent mál að móðurmáli, hafa alist hafa upp í öðru málumhverfi eða ekki haft aðgang að íslensku efni á snjalltækjum. Námskeiðið nýtir sér vefnámskeiðakerfi Icelandic Online sem hefur verið í þróun frá árinu 2000. Kerfið hefur verið aðlagað öllum helstu tegundum tölva og snjalltækja  og býður upp á ótal möguleika sem þjóna helstu aðferðum tungumálanáms. Námsefnið verður sett fram í þrepum með stigvaxandi þyngd. Áhersla verður lögð á að þjálfa orðaforða, málbeitingu og máltilfinningu með fjölbreyttum gagnvirkum æfingum og leikjum. Framsetningin byggist á léttleika og aðlaðandi útliti í takt við það sem best gerist í rafrænni tungumálakennslu fyrir börn.
 
Þóra Másdóttir, lektor í talmeinafræði við Læknadeild Heilbrigðisvísindasviðs, hlýtur styrk til að hanna vefefni sem gerir fólki kleift að æfa sig í hljóðritun íslenskra málhljóða og orða. Vefurinn verður opinn öllum sem áhuga hafa á að æfa hljóðritun. Slíkar æfingar gagnast m.a. nemendum í talmeinafræði og málfræði/málvísindum og starfandi talmeinafræðingum. Einnig má segja að hópur þeirra sem hefði gagn af að læra hljóðritun fari ört stækkandi í takt við aukna áherslu á örvun og kennslu hljóðkerfisvitundar hjá börnum sem eru að taka fyrstu skrefin í lestri. Til að ná góðri færni í að hljóðrita þurfa nemendur að læra hljóðritunartákn og æfa sig í að beita þeim. Síendurteknar æfingar með skjótri endurgjöf á netinu veita nemendum aðhald og auka möguleikann á að hljóðritunarfærni festist frekar í sessi. 
 
Einar Freyr Sigurðsson, nýdoktor við Málvísindastofnun Háskóla Íslands, fær styrk til að búa til vefsíðu um íslenskt mál fyrir fólk á aldrinum 15–30 ára. Vefnum er ætlað að fræða notendur um íslenskt mál og fjölbreytileika þess, máltækni, fræðilegar hliðar tungumálsins, þróun málsins og tengsl þess við menningu og samfélag. Efnið á að endurspegla þá sýn á íslenskt mál að það sé miðlægt fyrirbæri í íslensku samfélagi með sterkar rætur í fortíðinni en jafnframt fjölbreytilegt og spennandi viðfangsefni fræðimanna um allan heim. Vefsíðan verður aðgengileg og notendavæn og ríkulega myndskreytt. Hún verður á slóðinni: https://maliderblog.wordpress.com/.
 
Bergrún Arna Óladóttir, vefstjóri Icelandicvolcanoes eða Íslenskrar eldfjallavefsjár, Magnús Tumi Guðmundsson prófessor og Guðrún Larsen, prófessor emeritus, hljóta styrk til að þýða efni á vefsjá um eldstöðvar á Íslandi (http://icelandicvolcanoes.is/). Alþjóðaflugmálastofnunin (ICAO) kostaði upphaflega gerð vefsjárinnar að frumkvæði Veðurstofunnar. Verkefnið var unnið á tímabilinu 2011-2016 af Veðurstofunni, Jarðvísindastofnun og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra með þátttöku hóps vísindamanna. Í vefsjánni er að finna heildaryfirlit um öll 32 eldstöðvakerfi landsins ásamt hnitmiðraðri samantekt um þau, kortum, ljósmyndum, og rauntímaupplýsingum um virkni þeirra. Hingað til hefur allt efni vefsjárinnar einungis verið aðgengilegt á ensku en meginmarkmið þess verkefnis sem hér er styrkt er að þýða efni vefsjárinnar og þar með auðvelda íslenskumælandi almenningi aðgengi að þeim mikilvægu upplýsingum sem þar er að finna. Grunn- og framhaldsskólum verður enn fremur veitt öflugt kennslutól um eldvirkni landsins. Eldfjallavefsjáin mun því hafa veruleg áhrif á áframhaldandi lifandi notkun íslensku sem fag- og fræðslumáls á sviði náttúruvísinda.  
 
Marion Lerner, dósent í þýðingafræði við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, og Hrefna María Eiríksdóttir, nemandi í nytjaþýðingum og stundakennari við Háskólann, hljóta styrk til þýðingar og útgáfu á sérhæfðri kennslubók á sviði vísinda- og tækniþýðinga. Bókin verður notuð í kennslu nytjaþýðinga við Háskóla Íslands. Mikill skortur er á kennslugögnum á íslensku á þessu sviði. Einnig nýtist hún sérfræðingum í atvinnulífi, stofnunum og atvinnuþýðendum. Hún stuðlar að faglegum vinnubrögðum og mun bæta færni fólks til að þýða fagorðræðu yfir á góða og gilda íslensku. Einnig gerir hún fræðilega orðræðu á sviði nytjaþýðinga aðgengilega á íslensku.
 
Jóhannes G. Jónsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, fær styrk fyrir verkefnið „Sagnamálið íslenska“.  Markmið þess er að rannsaka ritfærni íslenskra háskólanema með hliðsjón af völdum atriðum sem tengjast notkun sagna í málinu (nafnorðastíl, dvalarhorfi, þolmynd, tíðasamræmi og fleiru). Í þessu skyni verða valdir stuttir textabútar úr a.m.k. 60 lokaritgerðum úr ólíkum námsgreinum til nánari greiningar en einnig verður hugað að ýmsum samanburðartextum (fréttum, opinberum skýrslum, skáldskap og fleiru) til að fá skýrari mynd af ritfærni nemenda. Í rannsókninni verður leitað svara við eftirfarandi spurningum: (i) Hverju er helst ábótavant í ritfærni nemenda á háskólastigi miðað við þau atriði sem þessi rannsókn nær til? (ii) Eru þessi atriði sambærileg við það sem finna má í öðrum textum? (iii) Hvernig er best að leiðbeina háskólanemum um þessi atriði? Þegar svör hafa fengist við þessum spurningum verður bæði hægt að semja fræðilega grein um efnið og ýmiss konar leiðbeiningar um skrif á háskólastigi.
 
Nánar um styrktarsjóðinn
 
Tilgangur Styrktarsjóðs Áslaugar Hafliðadóttur helgast af fyrirmælum í erfðaskrá Áslaugar. Hún arfleiddi Háskóla Íslands að fasteigninni að Bjarkargötu 12 í Reykjavík til minningar um foreldra sína. Jafnframt ánafnaði hún Háskóla Íslands 25% af öllum bankainnstæðum og andvirði verðbréfa í sinni eigu. Stofnframlag sjóðsins nam samtals 120 milljónum króna. Samkvæmt erfðaskránni skyldu fjármunirnir nýttir til að efla íslenska tungu með þeim hætti sem stjórn Háskóla Íslands teldi að koma muni að mestu gagni. Það skilyrði er sett að sjóðurinn verði notaður til sérverkefna á sviði íslenskra fræða eða stuðnings við þá sem leggja stund á íslensk fræði. Styrkir standa bæði starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands til boða, m.a. til rannsókna, þróunar, kennslu, þjálfunar, nýmæla eða kaupa á tækjum og búnaði sem falla að markmiðum sjóðsins. Í stofnskrá sjóðsins segir að sérstaklega skuli stutt við verkefni sem lúta að ritfærni og þjálfun nemenda á öllum fræðasviðum háskólans við beitingu íslensks máls og styrkja stöðu íslenskunnar í síbreytilegu tækniumhverfi.  
 
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Í stjórn sjóðsins sitja, Börkur Hansen, prófessor við Menntavísindasvið sem jafnframt er formaður stjórnar, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, og Viðar Guðmundsson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið.
 
Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn háskólans. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. 

Tilgangur Styrktarsjóðs Áslaugar Hafliðadóttur er að styrkja sérverkefni á sviði íslenskra fræða og styðja við þá sem leggja stund á íslensk fræði. Styrkir standa bæði starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands til boða, m.a. til rannsókna, þróunar, kennslu, þjálfunar, nýmæla eða kaupa á tækjum og búnaði sem falla að markmiðum sjóðsins. Í stofnskrá sjóðsins segir að sérstaklega skuli stutt við verkefni sem lúta að ritfærni og þjálfun nemenda á öllum fræðasviðum háskólans við beitingu íslensks máls og styrkja stöðu íslenskunnar í síbreytilegu tækniumhverfi.  

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is