Háskóli Íslands

Á annan tug milljóna til eflingar íslenskri tungu

Tíu styrkir hafa verið veittir úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur til verkefna sem öll miða að því að efla íslenska tungu á tímum hraðra tæknibreytinga. Styrkirnir renna til fræðimanna og nemenda við Háskóla Íslands sem vinna að fjölbreyttum rannsóknum og verkefnum sem snúa að stöðu íslenskrar tungu í samtímanum. Þetta er í fjórða skipti sem úthlutað er úr sjóðnum og nemur heildar¬upphæð styrkjanna 11,5 milljónum króna.
 
Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2014 til minningar um Áslaugu Hafliðadóttur og foreldra hennar, þau Sesselju Eiríksdóttur og Hafliða Jón Hafliðason. Meginmarkmið sjóðsins er að efla íslenska tungu með styrkjum til sérverkefna á sviði íslenskra fræða. 
 
Styrkjum var að þessu sinni úthlutað til eftirfarandi fræðimanna og nemenda:
 
Þórdís Úlfarsdóttir, orðabókarritstjóri hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (SÁM), hlýtur styrk til að vinna að Íslensk-pólskri orðabók. Orðabókin er unnin í samstarfi við Stanislaw J. Bartoszek og verður öllum aðgengileg og ókeypis á vefnum. Bókin verður mikilvægt hjálpargagn fyrir pólskumælandi íbúa Íslands, en mjög hefur skort á slíkt sem stuðning við málskilning og íslenskunám þessa hóps. Stanislaw hefur á undanförnum áratugum unnið að íslensk-pólskri og pólsk-íslenskri orðabók og gefið hana út prentaða í Póllandi í nokkrum útgáfum og er mikil þörf á að auka við og uppfæra orðabókina og búa til nýja vefútgáfu af henni. SÁM hefur yfir að ráða íslenskum orðabókarstofni, nauðsynlegri fagþekkingu og þeim tæknilegu aðstæðum sem þarf til að gera þetta kleift en stofnunin er útgefandi margra veforðabóka. Markhópar yrðu einkum Pólverjar á Íslandi, bæði þeir sem sest hafa hér að og þeir sem starfa á landinu í skemmri tíma, nemendur og kennarar á öllum skólastigum ásamt þýðendum og túlkum milli málanna tveggja. Orðabókin mun vitaskuld nýtast í báðar áttir, einnig Íslendingum sem læra eða nota pólsku.
 
Stefanía Pálsdóttir, meistaranemi í ritlist við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, hlýtur fyrir hönd Blekfjelagsins, félags meistaranema í ritlist, og meistaranema í hagnýtri ritstjórn og útgáfu við sömu deild, styrk til útgáfu bókarinnar „Það er alltaf eitthvað“ en hún kemur út í maí 2019. Verkefnið er tengt námskeiðinu „Á þrykk“, sem kennt er á framhaldsstigi við Íslensku- og menningardeild, og er í raun brú innan Háskólans og um leið yfir til atvinnulífsins. Að vinna bók frá a til ö er hagnýt reynsla sem býr nemendur undir að starfa með atvinnuforlagi eða vinna að útgáfu á eigin vegum í framtíðinni. Með öðrum orðum hvetur hún til virkrar þátttöku þeirra í bókmenntasenunni á Íslandi og auðgar senuna um leið til muna. Verkefnið er unnið undir dyggri leiðsögn Sigþrúðar Gunnarsdóttur, ritstjóra hjá Forlaginu, líkt og síðustu ár. 
 
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, doktorsnemi í þýðingarfræði við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, hlýtur styrk til rannsóknarinnar „Þýðandinn og vélin“ þar sem fjallað er um  vélþýðingar frá sjónarhóli þýðingafræði og hins mannlega þýðanda. Spurt er hvað þýðingafræðin sem vísindagrein geti lagt af mörkum til að hægt sé að þróa nýtt vélþýðingakerfi fyrir íslensku.
Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um mikilvægi þess að halda íslenskunni lifandi í hinum stafræna heimi. Hætta hefur verið talin á svokölluðum stafrænum dauða íslenskunnar ef ekki tekst að halda í við öra tækniþróun á sviði gervigreindar og tölvutækni. Vélþýðingar eru eitt erfiðasta viðfangsefni sem gervigreind fæst við og ljóst er að allar framfarir í vélþýðingum fela í sér stórar framfarir á sviði almennrar gervigreindar. Mikilvægt er að vélþýðingar séu til staðar fyrir íslenskt mál til þess að hægt sé að halda í við tækniþróun og nota nýjustu tækni tauganeta sem nú er í boði. Þýðingafræði sem vísindagrein þróaðist út úr samanburðarmálfræði annars vegar og menningar- og bókmenntafræði hins vegar. Hún hefur mikið og margt að segja um vélþýðingar og er því reiknað með að afrakstur rannsóknarinnar verði bæði hagnýtur og áhugaverður.
 
Jóhannes B. Sigtryggsson, rannsóknarlektor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hlýtur styrk fyrir Handbók um íslenskar ritreglur. Í bókinni verður fjallað ítarlega í fyrsta sinn um opinberar ritreglur Íslenskrar málnefndar (2016, 2018). Það mikilvægasta í reglunum verður sett fram á skýru og einföldu máli og mikil áhersla lögð á notendavæna hönnun bókarinnar. Sérstök rafræn útgáfa  hennar verður samhliða gefin út. Auk umfjöllunar um ritreglurnar verður bætt við ýmsu gagnlegu aukaefni sem tengist ritun og frágangi texta. Stefnt er að því að ritið verði aðgengileg handbók um ritreglur og ritun fyrir framhaldsnema, kennara og alla sem fást við skriftir.
 
Nökkvi Jarl Bjarnason, meistaranemi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu, og Shohei Watanabe, meistaranemi í þýðingafræði, báðir við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, hljóta styrk til verkefnis sem hefur það að markmiði að leggja grunn að japansk-íslenskri veforðabók. Slík orðabók myndi nýtast nemendum sem leggja stund á japönskunám eða japönskumælandi nemendum sem sýna íslensku áhuga. Í samhengi íslenskunnar er veforðabókin skref í því að veita nemendum þjálfun í að beita íslensku máli í stað ensku en nú hljóta nemendur aðeins þjálfun í því að miðla á milli ensku og japönsku þar sem allt námsefni og öll hjálpartæki eru á ensku. Veforðabókin er mjög mikilvæg þegar litið er til þess að japanska hefur um árabil verið næstvinsælasta erlenda tungumálið við Háskóla Íslands ásamt því að vera kennd í völdum framhaldsskólum. Japönsk-íslensk veforðabók sem þessi styrkir stöðu íslensks máls gagnvart erlendum tungumálum og gerir nemendum ljóst að þeim eru allir vegir færir með móðurmálinu.
 
Katelin Parsons, doktorsnemi við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, fær styrk til rannsóknarinnar „Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi“. Stafræn neyðarsöfnun á íslenskum handritum og öðrum skrifum í Vesturheimi hefur átt sér stað í nokkur ár í samvinnu Háskóla Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Í tilefni af 100 ára afmælisþingi Þjóðræknisfélags Íslendinga í Norður-Ameríku á þessu ári verður lagt í markvisst söfnunarátak í Kanada og nýtist styrkurinn til ferðalaga um Kanada í þeim mikilvægu erindagjörðum. Í framhaldinu verður hugað að skráningu og frágangi gagnanna sem safnast hafa og verður áherslan lögð á íslenskt efni í einkaeigu sem hingað til hefur ekki verið aðgengilegt fræðimönnum. Með þessu verkefni verður því spornað gegn því að sögulegir textar á íslensku hverfi sporlaust en jafnframt tryggt að hægt verði að nálgast afrit af þeim á stafrænu formi.
 
Anton Karl Ingason, lektor við Íslensku og meningardeild Hugvísindasviðs, fær styrk til rannsókna á svokallaðri vélrænni GPU-þáttun á íslenskum setningum. Vélræn þáttun felst í því að láta tölvu greina setningaliði í mannlegu máli og hún er mikilvægur hluti íslenskrar máltækni og skiptir máli fyrir uppbyggingu á ýmsum máltækniverkefnum á komandi árum. Með tilkomu bættrar þáttunartækni sem getur nýtt sér mikið reikniafl skjákorta (GPU) er hægt að auka afköstin í vélrænni þáttun til muna en í verkefninu verður lögð áhersla á slíka tækni. Þær þáttunaraðferðir sem þróaðar verða í verkefninu munu nýtast til að bæta aðstöðu íslensks máltæknifólks til vélrænnar setningagreiningar.  
 
Iris Edda Nowenstein, doktorsnemi í íslenskri málfræði við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, hlýtur styrk til verkefnis sem hefur það að markmiði að leggja grunn að nýju málþroskaprófi fyrir 6-10 ára íslenskumælandi börn. Slík próf eru nauðsynleg til að greina hvaða börn þurfa á stuðningi að halda vegna málþroskaröskunar, en fyrstu ár grunnskólans skipta höfuðmáli þegar kemur að því að tryggja börnum eins jöfn tækifæri og mögulegt er á síðari skólastigum. Mikil þörf er á nýju og vönduðu greiningartæki því núverandi matstæki fyrir þennan aldurshóp eru annaðhvort úrelt eða felast í óstöðluðum þýðingum. Við hönnun nýs málþroskaprófs verður tekið mið af því sem telst gullstaðall í mælingum á málfærni enskumælandi barna. Þá skiptir öllu máli að gæta að sérkennum íslenskunnar og stöðu hennar í síbreytilegu tækniumhverfi, en nýlegar rannsóknir sýna að málþroskaraskanir geta komið fram með mjög ólíkum hætti eftir tungumálum. Vísindalegt gildi verkefnisins birtist meðal annars í kortlagningu á sérstöðu íslenskunnar í þessu samhengi. 
 
Vanessa Monika Isenmann, doktorsnemi í íslenskri málfræði við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, fær styrk fyrir verkefnið „Málnotkun og gildi íslensku á samfélagsmiðlum“. Í verkefninu er rýnt í málnotkun fólks á netinu með tilliti til vals á tungumáli og málsniði en einnig er hugað að túlkun og mati notendanna sjálfra á málnotkun sinni. Rannsóknin hverfist um 8476 Facebook-færslur 28 einstaklinga. Beitt er aðferðum sem notaðar hafa verið við hliðstæðar rannsóknir á erlendum málum og er efnið því greint með tilliti til vals notenda á tungumálum, orðum, stafsetningu, táknmyndum og fleiru. Í framhaldinu eru samskiptahættir notendanna tengdir ýmsum bakgrunnsupplýsingum sem gefa vísbendingar um tilhvata og markmið þess að nota ákveðið málfar eða málsnið. Markmið rannsóknarinnar er að greina samskiptamynstur sem gefa vísbendingar um gildi íslenskunnar í stafrænu umhverfi. Niðurstöður verkefnisins má nýta í framtíðarrannsóknum á íslensku samtímamáli og í viðleitni til að efla íslenska tungu á stafrænni öld í hnattvæddum heimi. 
 
Bergrún Arna Óladóttir, ritstjóri vefsíðurnnar Icelandicvolcanoes.is eða Íslenskrar eldfjallavefsjár, Magnús Tumi Guðmundsson prófessor og Guðrún Larsen, prófessor emeritus, hljóta styrk til að ljúka þýðingu á efni vefsjár um eldstöðvar á Íslandi (http://icelandicvolcanoes.is/) sem upphaflega var kostuð af Alþjóðaflugmálastofnuninni og unnin í samstarfi Veðurstofunnar, Jarðvísindastofnunar Háskólans og Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra. Í vefsjánni er að finna heildaryfirlit um öll 32 eldstöðvakerfi landsins ásamt kortum, ljósmyndum og rauntímaupplýsingum um virkni þeirra. Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur styrkti þýðingarverkefnið árið 2018 og þá var fyrsta útgáfa af þýðingu megintexta allra 32 kafla vefsíðunnar unnin. Meginmarkmið framhaldsverkefnis er að ljúka þýðingu vefsjárinnar og samræmingu kafla en stefnt er að því að fyrstu kaflarnir verði aðgengilegir á næstu vikum. Þar með geta ungir sem aldnir kynnt sér þróun þekkingar á eldvirkni landsins með lestri viðurkennds fræðiefnis á íslensku.
 
Nánar um styrktarsjóðinn
Áslaug Hafliðadóttir arfleiddi Háskóla Íslands að fasteigninni að Bjarkargötu 12 í Reykjavík til minningar um foreldra sína en jafnframt ánafnaði hún Háskóla Íslands 25% af öllum bankainnstæðum og andvirði verðbréfa í sinni eigu. Stofnframlag sjóðsins nam samtals 120 milljónum króna. Samkvæmt erfðaskrá Áslaugar skyldu fjármunirnir nýttir til að efla íslenska tungu með þeim hætti sem stjórn Háskóla Íslands teldi að koma muni að mestu gagni. Það skilyrði var sett að sjóðurinn yrði notaður til sérverkefna á sviði íslenskra fræða eða til stuðnings við þá sem leggja stund á íslensk fræði. Styrkir standa bæði starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands til boða, m.a. til rannsókna, þróunar, kennslu, þjálfunar, nýmæla eða kaupa á tækjum og búnaði sem falla að markmiðum sjóðsins. Í stofnskrá sjóðsins segir að sérstaklega skuli stutt við verkefni sem lúta að ritfærni og þjálfun nemenda á öllum fræðasviðum háskólans við beitingu íslensks máls og styrkja stöðu íslenskunnar í síbreytilegu tækniumhverfi.  
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Í stjórn sjóðsins sitja Börkur Hansen, prófessor við Menntavísindasvið, sem jafnframt er formaður stjórnar, Viðar Guðmundsson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið, og Auður Ólafsdóttir rithöfundur.
 
Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn háskólans. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Nánari upplýsingar um Styrktarsjóð Áslaugar Hafliðadóttur, styrkþega og aðra sjóði í vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands veitir Helga Brá Árnadóttir, verkefnisstjóri Styrktarsjóða Háskóla Íslands, helgab@hi.is, sími 899-8719.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is