Háskóli Íslands

Á annan tug milljóna til eflingar íslenskri tungu

Tólf styrkir hafa verið veittir úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur til verkefna sem öll miða að því að efla íslenska tungu á tímum hraðra tæknibreytinga. Styrkirnir renna til fræðimanna og nemenda við Háskóla Íslands sem vinna að fjölbreyttum rannsóknum og verkefnum sem snúa að stöðu íslenskrar tungu í samtímanum. Þetta er í níunda skipti sem úthlutað er úr sjóðnum og nemur heildarupphæð styrkjanna hátt í 15 milljónum króna. 
 
Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2014 til minningar um Áslaugu Hafliðadóttur og foreldra hennar, þau Sesselju Eiríksdóttur og Hafliða Jón Hafliðason. Meginmarkmið sjóðsins er að efla íslenska tungu með styrkjum til sérverkefna á sviði íslenskra fræða. 
 
Styrkjum var að þessu sinni úthlutað til eftirtalins fræðifólks og nemenda:
 
Ásdís Ósk Jóelsdóttir, lektor í textíl og hönnun við Menntavísindasvið, hlýtur styrk fyrir orðasafn um fatagerð. Íslenskt orðasafn og samræmd orðanotkun um fatagerð mun nýtast sem mikilvæg undirstaða fyrir þróun og menntun faggreinarinnar og til útgáfu bóka og námsefnis. Markmiðið með orðasafninu er að útskýra í orðum yfirgripsmikið fræðasvið fatnaðar enda á fataflóran sér djúpa tengingu við sögu og samfélag aftur í aldir. Orðasafnið sýnir fram á flókið ferli fatagerðar frá hugmynd að fullvinnslu og mun þannig auka við þekkingu og virðingu fyrir fatagerð sem einnig má tengja við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og fatasóun, það að velja vel þegar versla á fatnað, nota hann lengur og endurnýta aftur og aftur.
 
Ásta Kristín Benediktsdóttir, lektor í íslenskum samtímabókmenntum, hlaut styrk fyrir verkefnið „Dulmál – hlaðvarp um íslensku á mannamáli“ en frumkvæðið að því eiga þrír BA-nemar í íslensku, Ella María Georgsdóttir, Guðrún Lilja Friðjónsdóttir og Júlía Karín Kjartansdóttir. Dulmál er hlaðvarp sem miðlar umræðu um fjölbreytta eiginleika íslenskrar tungu og bókmennta til ungs fólks á jafningjagrundvelli. Þar er fjallað um ýmsar hliðar tungumálsins sem hafa verið áberandi í samfélagsumræðu undanfarið, svo sem kynhlutlaust mál, styttingar og íslenskar glæpasögur, og rætt við gesti sem hafa nýtt íslenskunám í leik og starfi. Helsta markmiðið með Dulmáli er að efla áhuga ungs fólks á tungumáli okkar og bókmenntum, vekja athygli á íslenskunámi á háskólastigi og styrkja þannig framtíð íslenskunnar og íslenskra fræða.
 
Branislav Bédi, verkefnisstjóri við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, hlýtur framhaldsstyrk til að vinna að íslensk-þýskri veforðabók, LEXÍU. Veforðabókin er unnin í samstarfi við Háskólann í Vínarborg og verður ókeypis og öllum aðgengileg á vefnum. Markmiðið er að hún verði hjálpartæki við íslenskukennslu á þýska málsvæðinu en einnig er hún ætluð íslenskum nemendum í þýsku sem og þýðendum íslenskra og þýskra bókmennta. Gögn úr veforðabókinni birtast nú þegar á málið.is sem er afar gagnlegt fyrir notendahópinn. Enn fremur mun LEXÍA mynda stofn til málrannsókna milli málanna tveggja, t.d. við málvísindalegar athuganir, og efniviðurinn getur nýst í máltækniverkefni.
 
Dagbjört Guðmundsdóttir, doktorsnemi í íslenskri málfræði, og Védís Ragnheiðardóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum, hljóta styrk fyrir verkefnið „Þróun og efling ritfærni við Háskóla Íslands“. Meginmarkmið verkefnisins er tvíþætt. Það fyrra er að efla ritfærni nemenda í Háskóla Íslands með áherslu á fræðileg skrif, en mikilvægt er að nemendur öðlist góða fræðilega ritfærni. Námskeiðið Ritfærni 1: Fræðileg skrif verður þróað og eflt með það að markmiði að gera það aðgengilegt nemum af ólíkum sviðum og með fjölbreyttan bakgrunn í íslenskri málnotkun og ritfærni. Þannig verða kennsluhættir endurhugsaðir og betrumbættir sem og námsmat, kennsluefni og verkefni. Seinna markmið verkefnisins er að þróa blendingskennslulíkan fyrir bæði Ritfærni 1: Fræðileg skrif og Ritfærni 2: Miðlun skrifanna til þess að geta betur mætt þörfum ólíkra nemendahópa sem vilja taka námskeiðin.
 
Elisa Johanna Piispa, sérfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans, Halldór Geirsson, dósent í jarðeðlisfræði, og Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði, hljóta styrk fyrir íðorðasafni í jarðeðlisfræði. Ætlunin er að gera það aðgengilegt fyrir kennara, nemendur og almenning í Íðorðabankanum. Fyrirmynd að safninu er orðasafnið Íðorð og hugtök í skjálftafræði og tektóník sem Páll Einarsson hefur tekið saman fyrir nemendur sína síðustu áratugina. Ætlunin er að útvíkka orðasafnið í skrefum og bæta við það íðorðum í jarðsegulfræðum, þyngdarfræðum og öðrum íðorðum sem koma fyrir í fyrstu námskeiðum í jarðeðlisfræði. Talsverður hluti kennslu í jarðvísindum fer fram ýmist á ensku eða íslensku og fyrir blandaðan nemendahóp. Íslenskan á þar mjög undir högg að sækja. Miklu skiptir að íslensk orð séu til um helstu hugtök í fræðunum og að þau séu vel aðgengileg og þjál í notkun. Hið sérstaka samband milli jarðvísindamanna og almennings á Íslandi, sem skapast hefur vegna nábýlis við endurteknar náttúruhamfarir, undirstrikar enn fremur nauðsyn þess að hægt sé að tjá sig um náttúrufyrirbrigði á kjarnyrtu íslensku máli.
 
Jón Karl Helgason, prófessor við Íslensku- og menningardeild, Daisy L. Neijmann, aðjunkt við Íslensku- og menningardeild, og Silvia Cosimini, þýðandi og stundakennari við Háskólann í Mílanó og Háskólann í Bologna, fengu styrk til að semja námsefni í íslensku fyrir ítalska nemendur. Áhersla er lögð á alla færniþætti tungumálanáms: skilning (lestur og hlustun), talmál og ritun. Viðfangsefni eru fjölbreytt og tengjast íslensku samfélagi og daglegu lífi. Gerð þessara námsbóka verður í samræmi við áherslur í annarsmálsfræðum, kennslufræði erlendra tungumála og evrópska sjálfsmatsrammann, sem gerir ráð fyrir auknu sjálfstæði nemandans, sjálfsnámi og notkun fjölbreyttra miðla við tungumálanám. 
 
Kristján Árnason, prófessor emeritus í íslensku, fær styrk til að vinna yfirlitsrit um íslenska málsögu. Farið er yfir formþróun málsins og hún sett í samhengi við sögulegar og félagslegar aðstæður allt frá því fyrir landnám og fram til nútímans. Fjallað er um upptök íslensks máls, um ritmál og talmál, gildi hennar fyrir íslenskt samfélag og sambúð þess við erlendar tungur, fyrst latínu, síðar dönsku og síðast ensku. Bókin fjallar meðal annars um „mállega hugmyndafræði“ fyrr og nú, hugmyndir og sjónarmið um málrækt og málpólitík í sögulegu ljósi og mat á gildi tungunnar fyrir Ísland sem menningarheim. Vikið er að sambandi nútímamáls og eldri málstiga, hvort og hvernig skipta megi sögunni í tímabil og t.d. hvort skil  séu að myndast milli eldri og yngri íslensku. 
 
Margrét Guðmundsdóttir, málfræðingur og verkefnisstjóri hjá Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, hlýtur styrk fyrir verkefnið „Grunnur að vitneskju um þróun íslensks framburðar“. Markmiðið með verkefninu er að vinna á nýjan hátt úr gögnum um íslenskan framburð sem Björn Guðfinnsson safnaði á 5. áratug 20. aldar. Þannig verður varpað skýrara ljósi á stöðu landshlutabundinna framburðarafbrigða á þeim tíma en um leið útbúið gagnasafn sem gerir kleift að skoða þá þróun sem síðar varð og seinna verður. Gögnin verða framlag til þess að hægt verði að segja sögu nokkurra þeirra tilbrigða sem lifa í málinu eða eru nýlega horfin og auka þannig þekkingu og glæða áhuga á fjölbreytileika íslensks máls.
 
Rósa Elín Davíðsdóttir, aðjunkt í frönsku við Háskóla Íslands og orðabókarritstjóri hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, hlaut styrk fyrir verkefnið „Viðbótarorðaforði fyrir LEXÍU, nýja íslensk-franska orðabók“.  Markmiðið er að ljúka vinnu við 5000 viðbótarflettur fyrir nýja íslensk-franska veforðabók, Lexíu, sem opnuð var í júní 2021 og er öllum aðgengileg án endurgjalds á vefslóðinni https://lexia.hi.is/is. Lexía er unnin í samstarfi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Lexía samanstendur af um 50 þúsund uppflettiorðum, einkum orðum í nútímaíslensku, sem og fjölmörgum notkunardæmum og orðasamböndum sem öll eru þýdd á frönsku. Viðbótarorðaforðinn er fenginn úr nýrri íslenskri risamálheild og varðar einkum umhverfi, orku og samfélag. Lexía gerir íslenskum notendum kleift að nálgast orðaforða frönsku út frá móðurmálinu, íslensku. Jafnframt nýtist orðabókin frönskumælandi nemendum í íslensku, ásamt þýðendum og túlkum milli íslensku og frönsku. 
 
Steinunn Rut Friðriksdóttir, doktorsnemi í tölvunarfræði með áherslu á máltækni við Verkfræði- og náttúruvísindasvið, hlaut styrk til gagnasöfnunar vegna þróunar á flokkunarkerfi þar sem textar eru greindir eftir evrópskum hæfniviðmiðum í tungumálakunnáttu (CEFR). Markmið verkefnisins er að  safna textum af öllum hæfnistigunum sem verða nýttir til þróunar á stöðluðu hæfniprófi í íslensku. Þessi gögn verða jafnframt nýtt til þróunar á hugbúnaði sem greinir texta sjálfvirkt eftir hæfniviðmiðunum en grundvallarforsenda þess að hægt sé að útbúa slíkan búnað er að til séu merkt þjálfunargögn. Hugbúnaðurinn mun í framtíðinni geta einfaldað val og smíði á kennsluefni í íslensku sem öðru máli auk þess að greina texta annarsmálshafa sjálfvirkt eftir hæfniflokkum.
 
Þuríður Ósk Sigurbjörnsdóttir, meistaranemi í ritlist við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, hlýtur styrk fyrir hönd Blekfjelagsins, félags meistaranema í ritlist og meistaranema í hagnýtri ritstjórn og útgáfu við sömu deild. Styrkurinn verður nýttur til bókaútgáfu og í vor verður sannsagnasafnið Best fyrir – Sannsögur um framtíð gefið út. Bókin er unnin í námskeiðinu „Á þrykk” sem kennt er á framhaldsstigi við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og í ár gefa nemendur út sannsögur (e. creative nonfiction) í fyrsta sinn. Undanfarin ár hefur afrakstur námskeiðsins verið smásagna-, örsagna- og ljóðasöfn. Að gerð verksins koma þrír meistaranemar í ritstjórn og sjö meistaranemar í ritlist sem hafa samið eða ritstýrt sannsögum í anda þema námskeiðsins sem er framtíðin. Í sögunum gerast höfundar persónulegir og miðla vangaveltum sínum um framtíðina áleiðis til lesenda. Bókin kemur út í maí hjá Unu útgáfuhúsi. 
 
Þórdís Úlfarsdóttir og Halldóra Jónsdóttir, orðabókarritstjórar hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, hljóta framhaldsstyrk til að vinna að nýrri íslensk-enskri veforðabók. Byggt er á efni sem til er hjá stofnuninni, en þar hafa orðið til fjölbreytt tungumálagögn í gegnum tíðina í tengslum við rafrænar orðabækur. Notaðar eru að talsverðu leyti máltæknilegar aðferðir til að fá fram enska markmálið, bæði stök orð og þýðingar á dæmum og orðasamböndum, m.a. er notast við vélþýðingar. Allt efnið er svo yfirfarið af starfsmönnum verkefnisins. Þetta er frumraun við að búa til orðabók með þessum hætti fyrir íslensku og hefur aðferðin gefið góða raun og áhugaverðar niðurstöður. Þess er vænst að hægt verði að birta fyrsta áfanga orðabókarinnar á þessu ári.
 
Nánar um Styrktarsjóð Áslaugar Hafliðadóttur
Áslaug Hafliðadóttir arfleiddi Háskóla Íslands að stórum hluta eigna sinna, samanlagt um 120 milljónum króna. Samkvæmt erfðaskrá Áslaugar skyldu fjármunirnir nýttir til að efla íslenska tungu og það skilyrði var sett að sjóðurinn yrði notaður til sérverkefna á sviði íslenskra fræða eða til stuðnings við þá sem leggja stund á íslensk fræði. Styrkir standa bæði starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands til boða, m.a. til rannsókna, þróunar, kennslu, þjálfunar, nýmæla eða kaupa á tækjum og búnaði sem falla að markmiðum sjóðsins. Í stofnskrá sjóðsins segir að sérstaklega skuli stutt við verkefni sem lúta að ritfærni og þjálfun nemenda á öllum fræðasviðum háskólans við beitingu íslensks máls og styrkja stöðu íslenskunnar í síbreytilegu tækniumhverfi.  
 
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Í stjórn sjóðsins sitja Höskuldur Þráinsson, prófessor emeritus í íslensku nútímamáli, Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeritus í íslenskum nútímabókmenntun, og Viðar Guðmundsson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið.
 
Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn háskólans. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is