Háskóli Íslands

Arnar Björn Björnsson hlýtur styrk úr Minningarsjóði Þorvalds Finnbogasonar

Úthlutað var úr Minningarsjóði Þorvalds Finnbogasonar stúdents við hátíðlega athöfn í Skólabæ síðastliðinn sunnudag, þann 21. desember.

Styrkinn hlaut að þessu sinni Arnar Björn Björnsson, nemandi á þriðja ári í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands. Styrkurinn, sem nemur 250.000 kr., er veittur þeim stúdent sem hlýtur hæstu meðaleinkunn í verkfræði að loknu öðru námsári. Arnar Björn varð stúdent af stærðfræðibraut frá Verslunarskóla Íslands árið 2006.  Hann er sonur Björns Helgasonar, bankamanns og Ástu Harðardóttur, sjúkraliða.

Minningarsjóður Þorvalds Finnbogasonar stúdents var stofnaður af foreldrum hans, Sigríði Eiríksdóttur og Finnboga Rúti Þorvaldssyni, fyrrverandi forseta verkfræðideildar HÍ, á 21 árs afmæli Þorvalds, þann 21. desember 1952. Tilgangur sjóðsins er að styrkja stúdenta til náms við verkfræðideildir HÍ eða til framhaldsnáms í verkfræði við annan háskóla, að loknu grunnnámi í verkfræði við HÍ.

Stjórn sjóðsins skipa frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ og Kristín Vala Ragnarsdóttir, forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is