Úthlutun úr sjóðnum Selma og Kay Langvads Legat við Háskóla Íslands
Aukin tengsl við danska vísindamenn
Fræðimenn lyfjafræðideilda Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla vinna saman
Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor í lyfja- og efnafræði náttúruefna við Háskóla Íslands, hefur hlotið styrk úr sjóði Selmu og Kays Langvads. Stjórn sjóðsins afhenti styrkinn 15. júlí sl. í Háskóla Íslands. Styrkurinn er veittur til að efla samskipti og rannsóknarsamstarf Háskóla Íslands við danskar vísindastofnanir og háskóla.
Styrkurinn hljóðar upp á 75 þúsund danskar krónur sem svarar til tæplega 1,6 milljóna íslenskra króna. Um er að ræða aukaúthlutun úr sjóðnum að frumkvæði Sörens Langvads í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands en fyrr á árinu hlaut Sverrir Jakobsson, aðjunkt í sagnfræði við Háskóla Íslands, styrk úr sjóðnum.
Elín Soffía hefur sérhæft sig í rannsóknum á lífvirkum náttúruefnum úr íslensku lífríki og þá aðallega úr lág-plöntum og fléttum. Rannsóknirnar hafa einkum beinst að lífvirkum efnum sem gætu reynst fyrirmyndir lyfjasprota við erfiðum sjúkdómum á borð við taugahrörnunarsjúkdóma og krabbamein.
Elín Soffía er í virku samstarfi við þrjá danska rannsóknarhópa, tvo við Lyfjafræðideild Kaupmannahafnarháskóla og einn við Carlsberg Laboratory í Valby. Elín Soffía hefur þrívegis dvalið í rannsóknarleyfum hjá samstarfsfólki í Kaupmannahöfn auk skemmri dvalar í nokkur skipti. Í sumar hefst nýtt verkefni á hennar vegum þar sem rannsökuð verða tengsl bygginga náttúruefna og verkunar með hjálp sameindahermilíkana og verður það unnið í samstarfi við nýja aðila við Kaupmannahafnarháskóla. Elín Soffía mun því nýta styrkinn til að stuðla að enn frekara rannsóknarsamstarfi íslenskra og danskra fræðasamfélaga.
Elín Soffía lauk aðstoðarlyfjafræðingsprófi frá Háskóla Íslands 1982. Hún stundaði framhaldsnám í Danmörku og lauk kandídatsprófi í lyfjafræði frá Kaupmannahafnarháskóla og varði doktorsritgerð sína frá sama skóla árið 1991. Síðan hefur Elín Soffía starfað hjá Háskóla Íslands, fyrst sem lektor, síðan dósent og frá árinu 2005 sem prófessor. Hún hefur kennt í grunn- og framhaldsnámi, leiðbeint fjölda meistara- og doktorsnema í rannsóknarverkefnum og hafa nokkrir þeirra unnið verkefni sín að hluta hjá samstarfsmönnum Elínar Soffíu í Kaupmannahöfn.
Elín Soffía hefur birt fjölda vísindagreina um rannsóknir sínar í íslenskum og erlendum ritrýndum fræðiritum á undanförnum árum og í mörgum tilfellum hafa samstarfsmenn við Lyfjafræðideild Kaupmannahafnarháskóla og við Carlsberg Laboratory, Carlsberg-rannsóknarstofnunina í Kaupmannahöfn, verið meðhöfundar að greinunum.
Sjóðurinn Selma og Kay Langvads Legat til udvikling af den kulturelle forbindelse mellem Island og Danmark var stofnaður með peningagjöf hjónanna Selmu, fæddrar Guðjohnsen, og Kays Langvads, verkfræðings við Háskóla Íslands, árið 1964. Tilgangur sjóðsins er að efla menningarleg tengsl Íslands og Danmerkur. Í stjórn sjóðsins sitja Sören Langvad, sonur Selmu og Kays Langvads, Hafliði Pétur Gíslason, prófessor í eðlisfræði, og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.